11.03.1943
Efri deild: 71. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

116. mál, húsaleiga

Forseti (StgrA):

Ég verð að segja, að mér kemur þetta á óvart. Ég stend í þeirri meiningu, að ég hafi leitað afbrigða fyrir þessum till., en þegar þessi hv. þm. segir, að svo sé ekki, fer ég að vísu að draga í efa, að ég muni það rétt. En ef ég man það ekki rétt og ekki hefur verið leitað afbrigða um till., þá er það alls ekki af því, að ég hafi ætlað að vísa till. frá, heldur eingöngu af yfirsjón, en ég furða mig á, að hv. flm. skyldu ekki vekja athygli á því, meðan umr. stóð yfir, og mundi það áreiðanlega hafa verið tekið til greina og afbrigða leitað, ef mér hefði láðst að vera það. En fyrst því er haldið fram, að afbrigða hafi ekki verið leitað um þessar till., þá vil ég biðja fleiri hv. þdm., sem viðstaddir voru, að segja til um það, hvort afbrigða hafi verið leitað eða ekki. (MJ: Hvað segir bókunin?). Það hefur ekki verið bókað, og af því að fulltrúi skrifstofustjóra vakti athygli mína á því, að það hefði ekki verið bókað, ræddi ég um það við skrifara, og hann féllst á, að ég hefði munað það rétt, en ég vil lýsa því yfir, ef mér hefur láðst þetta, þá er það alls ekki af því, að ég hafi ætlað að vísa till. frá, heldur eingöngu af yfirsjón, að ég hafi reiknað með, að afbrigða hafi verið leitað. En ef það upplýsist, að afbrigða hafi ekki verið leitað, þá mun forseti hafa vald til að opna umr. á ný, a.m.k. ef d. samþ. afbrigði hér á ný, ef það hefur ekki verið gert áður.