24.03.1943
Efri deild: 80. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (780)

116. mál, húsaleiga

Gísli Jónsson:

Ég á hér brtt. við frv., á þskj. 532, að orðin „til íbúðar“ í 1. málsgr. falli niður og einnig að í stað orðsins „íbúð“ í 1. málsgr. komi: húsnæðið, — aðeins til samræmis við breyt., sem áður var gerð á frv. Ég hef þess vegna borið fram brtt. við 10. gr., þar sem ég tel, að það sé ósæmilegt að láta þetta standa í l., þar sem það er brot á almennum réttarvenjum, að hlíta skuli úrskurði, áður en annar dómur hefur fallið, ef úrskurðinum er vísað til annars réttarstigs. Hygg ég, að um hugsunarvillu sé að ræða hjá þeim, sem halda fast við þetta. Ef t.t. úrskurður félli um, að maður skyldi víkja úr íbúð, ætti samkvæmt þessum l. að hlíta honum, þar til dómur væri fallinn í málinu. Slíkt á ekki að koma til mála, þar eð svo kynni að sannast síðar meir, að úrskurðurinn væri rangur. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta, nema sérstakt tilefni gefist.

Þá hef ég einnig gert till. um það, að 15. gr. verði breytt þannig: „Ákvæði þessara l. gilda og um leigu á húsum, bryggjum og vinnupöllum til hvers konar fiskiskipa og báta, nema öðruvísi sé ákveðið með reglugerð eða lögum“, — en nái ekki aðeins til þeirra báta, sem róa úr landi, eins og tekið er fram í frv. Ég tel þetta nauðsynlegt, vegna þess að mikið af bryggjugjöldum er ákveðið með sérstökum reglugerðum og sérstakri hafnarlöggjöf, og tel ég alveg rangt, að þessi l. raski þeim l. Háttv. 1. þm. S.-M. (IngP) hefur borið fram aðra brtt. í samb. við þessa gr., en ég hef rætt dálítið við hann um þetta mál, og ég hygg, að hann geti dregið till. til baka, ef þessi verður samþ. óbreytt.

Þá hef ég lagt til, að breytt yrði b-lið 15. gr. þannig: „Við greinina bætist ný málsgr., svo hljóðandi: Séu einhver önnur hlunnindi innifalin í leigunni, er áhrif hafa á hana, skal meta þau sérstaklega.“ Við vitum, að um leigu á bryggjum og pöllum eru ýmis önnur ákvæði, sem ekki koma þessu máli sérstaklega við, og ef á að meta leigu yfirleitt, þarf að taka tillit til þeirra hlunninda, sem í henni eru falin.

Að síðustu er lagt til, að 16. gr. verði breytt þannig, að tveggja kr. gjaldið fyrir hvern samning falli niður. Ég tel það minnstu fórn, sem ríkisstj. getur fært í þessu máli, eftir því sem fram hefur komið um nauðsyn þess að fella niður þetta stimpilgjald. Mér finnst nægilega reirt að þessum mönnum, sem orðið hafa fyrir barðinu á þessum l., þó að ekki séu lagðir nýir skattar á þá fyrir það, að þeim er gert að þola ýms þau ósanngjörnu ákvæði, sem felast í þessum l. Vænti ég, að d. fallist á, , að allar þessar breyt. verði samþ.

Þá vildi eg um leið minnast á brtt. frá meirihluta n. á þskj. 587. Ég vil fastlega skora á d. að fella hana. Það er ekki sæmilegt fyrir d. að láta þetta frv. fara frá sér, með þeim breyt., sem hér er gert ráð fyrir, eftir að hún hefur sýnt manndóm í að leiðrétta það stórkostlega ranglæti, sem var í 5. gr. Það væri að gera tilraun til að koma þessu sama ranglæti inn í l. Þeir menn, sem hafa byggt íbúðarhús, hafa tekið að sér það verk, sem er skylda þjóðfélagsins að vinna, og það getur ekki hvílt sú skylda á hverjum einstakling að sjá þeim mönnum fyrir húsnæði, sem hið opinbera eitt er um að veita leyfi til að flytja í bæinn. Ef það opinbera hefur rétt til að veita mönnum atvinnu í bænum, þá tekur það á sig skylduna að sjá þeim mönnum fyrir húsnæði. Og þá er réttast, að ríkisstj., sem hefur þessi mál með höndum, geri sérstaka tilraun til þess að uppfylla þá skyldu á annan hátt en að ganga bókstaflega á rétt þeirra manna, sem hingað til hafa staðið undir þessari skyldu, sem þessi sömu stjórnarvöld áttu að framkvæma. Ég skal ekki fara út í, hvort stj. á að leggja sérstakan skatt á þegnana til að framkvæma þetta verk; en það er ekki sanngjarnt, að þeir skattar séu allir lagðir á þann hluta þjóðfélagsins, sem hefur staðið undir skyldunum hingað til. En hér virðist eiga að kasta öllum skyldunum af því opinbera yfir á herðar þeirra þegna, sem þessar í skyldu hafa annað fyrir það opinbera áður, — og það með þeim fádæmum, að slíkt er ekki til fyr í sögu landsins. Ákaflega mikill hluti húseigenda hafa getað byggt einungis vegna sparsemi, en hafa metið það meira að eiga friðhelgan stað fyrir sitt heimili heldur en að ávaxta peningana. Og það er algjörlega rangt, að Alþ. verðlauni slíka dyggð með því að fjötra þessa menn í þau ósanngjörnustu og óviturlegustu l., sem nokkurn tíma hafa verið samin hér innan veggja.

Ég vil beina því til þeirra manna, sem berjast fyrir þessum l., að málið ber að leysa með sanngjarnlegri samvinnu við þá menn, sem hér eiga hlut að máli. Og þess vegna væri það réttast í málinu nú að fella þetta frv. og knýja þannig þá menn, sem sækja þetta mál fast nú til þess að taka upp þá samvinnu, sem nauðsynleg er og ég veit, að þessir menn mundu hafa, að ræða um málið og benda á heppilegar leiðir til úrlausnar og heppilegri en hér hefur verið gert. Og það væri eðlilegri leið heldur en að þvinga málið fram móti vilja hlutaðeigenda.