24.03.1943
Efri deild: 80. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

116. mál, húsaleiga

Jónas Jónsson:

Ég hef leyft mér að flytja brtt. við þetta frv. á þskj. 604 og ætla að fara um hana fáeinum orðum.

Mér hefur þótt það undarlegt við alla þessa lagasmíð, sem ætlazt er til, að hv. þm. samþ., að eftir. þessari löggjöf hafa þm. eiginlega verið útlagar úr bænum, og svo er ætlazt til, að þeir samþ. það. Ég minntist á við fyrri umr. málsins, að þetta væri a.m.k. ekki kurteisi af þeim, sem stóðu fyrir þessu frv. Og ég ámælti hv. þm. fyrir að hafa ekki gert bætur á þessu frv. með þó nokkurri rýmkun á þessu. Nú hef ég gert það að till. minni á því þskj., sem ég gat um, að opinberir starfsmenn ríkis og bæja og alþm., er koma til þingsetu, séu undanþegnir ákvæðum 1. mgr. 3. gr. l., þ.e.a.s., að það sé ekkert um það í l., að þeir megi ekki koma inn í bæina og taka sér á leigu húsnæði eða nota húsnæði í húsum, sem þeir kaupa. Og ég legg til, að sama gildi um þá, sem sækja skóla ríkisins og þá skóla, sem styrktir eru af ríkisfé. En til þess að húsaleigunefnd hafi eftirlit með því, hvaða húsnæði þessir aðilar nota, hef ég ætlazt til þess, að þeir gefi skýrslu um það til húsaleigun. undir eins og þeir koma í beinn, hvaða húsnæði þeir hafa fengið og um leiguskilmála.

Það leiðir af sjálfu sér, að það er ekki hægt fyrir þ. að setja l., sem hindra það, að starfsmenn, sem ríkið hefur í sinni þjónustu, geti komið inn í bæinn, þar sem þeir eiga að starfa.

Merkur maður, sem hefur flutt hér inn í bæinn fyrir ári síðan með stóra fjölskyldu, keypti sér hús í bili, sem ekki var hentugt til afnota fyrir hann, og seldi það aftur, og enginn hafði neitt við þetta að athuga. En svo fær hann leigt fyrir sig og sitt fólk. Og enginn vandi var í sambandi við það. Hann borgaði sína húsaleigu, og enginn hafði upp á hann að klaga. En mér er sagt, að nú fyrir fáum dögum, á miðjum vetri, sé honum tilkynnt, að hann skuli flytja aftur úr þessu húsnæði. Þessi maður er annaðhvort starfsmaður í stjórnarráðinu eða, ef hann er það ekki, þá nátengdur stjórnarráðinu, og er þar löglega ráðinn. Það, sem hér er því um að ræða, er, að ríkið hefur ekki leyfi til að ráða sér starfsmann og fá hann inn í bæinn, öðruvísi en svo, að hann eigi á hættu að verða kastað út á götuna, þó að hann hafi komið sér fyrir sjálfur. Þetta dæmi nægir til þess að sýna, hve hlægilegar og fráleitar þessar skorður eru, eins og málunum er nú komið.

Ég álít skömm fyrir þingið að samþ. l., sem gera það að verkum, að þm., sem búsettir eru utan bæjarins, þurfi að sækja um leyfi til þess að koma í bæinn, þar sem þeir eiga að starfa að löggjöf landsins. Sama er að segja um skólafólk. Ríkið hefur reist mikið af sínum skólum í Rvík; og þá er það alveg hugsunarrangt, þegar búið er að leggja út í þann kostnað að reisa þessar stofnanir, að þá verði það að vera háð sérstöku leyfi fyrir skólamenn að komast hingað til bæjarins og fá hér húspláss.

Ég sé því ekki, að það sé hægt annað en að gera þær umbætur á þessum lið 3. gr. l., sem hér er farið fram á.

Mun ég svo e.t.v. tala um önnur atriði þessa frv. síðar.