30.03.1943
Efri deild: 84. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 575 í B-deild Alþingistíðinda. (798)

116. mál, húsaleiga

Jónas Jónsson:

Ég er hissa á því, að hv. síðasti ræðumaður skuli ekki sjá, að þessi lagasmíð er ekki þess eðlis, að ástæða sé til að láta hana lifa mörg ár. Það hefur tíðkazt mjög, eins og kunnugt er, að láta l. gilda aðeins eitt ár og framlengja þau svo að þeim tíma liðnum, ef þurfa þykir. Með þessu er undirstrikað bráðabirgðaeðli þeirra 1., sem ekki er ætlazt til, að verði til frambúðar. Nú hefur því ekki verið mótmælt, að sú aðferð að rjúfa heimilisfrið manna fyrir framandi fólk er með öllu óþekkt meðal þjóða, sem standa á svipuðu menningarstigi og Íslendingar eða hærra. Englendingar hafa t.d., ekki gripið til þessa ráðs, þó að ensk heimili hafi eyðilagzt þúsundum saman nú að undanförnu. Ef hægt væri að sanna, að í Rvík væri meiri þörf á því en í Englandi að rjúfa heimilisfriðinn á þennan hátt, þá væri öðru máli að gegna, en því er ekki að heilsa. Fordæmi um slíka löggjöf sem þessa er hvergi hægt að finna nema þá hjá þjóðum, sem standa á lægra menningarstigi en Íslendingar, og ef farið verður að taka upp þessa aðferð, er ekki hægt að gera vægari kröfu en þá, að það sé undirstrikað, að þetta ákvæði eigi ekki að gilda nema í bráð.