05.04.1943
Neðri deild: 90. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 578 í B-deild Alþingistíðinda. (814)

116. mál, húsaleiga

Lúðvík Jósefsson:

Ég vildi aðeins láta örfá orð fylgja um þetta mái. Frv. þetta hefur tekið miklum myndbreytingum frá því fyrsta, en einkum hefur Ed. spillt því svo, að áhrif þess eru orðin ólík því, sem var upphaflega, og er ekki sæmandi að láta frv. fara þannig í gegn.

Sem dæmi um, hve herfilega frumv. hefur í ýmsum greinum verið spillt, vil ég til nefna 15. gr., um verbúðaleigu, en ákvæði þau, er Nd. setti í frumv. um varnir gegn okurleigu á þeim, hefur Ed. nú bjagað svo, að varnirnar eru að engu orðnar.

Þá má og nefna sem dæmi um leiðinlegan frágang Ed. á frumv., að nú er í því ákvæði, sem segir, að sjálfum lögunum megi breyta með reglugerð. Breyting sú á 15. gr., sem Ed. hefur gert, miðar að því, að sá eini staður á landinu, sem verstöðvarleiga hefur verið goldin í í aflahlut, skuli áfram hafa rétt til slíks, og geti þar með bannað útgerðum að greiða leiguna með föstu ákveðnu verði eins og annars staðar tíðkast. Hins vegar er nú fram tekið í greininni, að krefjast megi mats á aflahlutnum, hve háan aflahlut skuli greiða. Allir, sem til þekkja, víta, að þetta er ógerningur. Aflinn er svo breytilegur frá ári til árs, að ógerlegt er að meta, hve háan aflahlut réttlátt er að greiða í húsaleigu, enda virðist engin sanngirni mæla með því, að verðstöðvareigandinn í Hornafirði geti ekki sætt sig við að fá fastákveðna greiðslu fyrir hús sín eins og aðrir húseigendur í landinu verða að láta sér nægja.

Ef menn vilja, að 1. komi að notum, þá er að samþ. brtt. þskj. 647, því að annars verður það aðeins blekking að láta gr. standa. Mæli ég því með því, að brtt. á þskj. 647 verði samþykkt.