07.04.1943
Efri deild: 91. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

173. mál, stríðsslysatrygging sjómanna

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. — Ég vil lýsa ánægju minni yfir því frv., sem hér er fram komið og ég tel til mikilla bóta. Mun ég greiða því atkv. mitt. Ég lít einnig svo á, að frv. þetta eigi að fara til hv. allshn., þar sem einstök atriði verða að sjálfsögðu athuguð nánar. En um leið og hv. allshn. fær mál þetta til meðferðar, þá vil ég beina þeim tilmælum mínum til hennar, að hún taki til athugunar og afgreiði frv. til l. um breyt. á alþýðutryggingalögunum, þar sem farið er fram á, að hinar almennu dánarbætur séu hækkaðar, svo að þær verði þær sömu, sem nú eru greiddar hér við ströndina. Ég vildi mega vænta þess, að hv. allshn. sæi sér fært að afgreiða þetta mál sem fyrst, og ætti n. að geta orðið við þeim óskum, um leið og hún tekur þetta frv., er hér liggur fyrir, til meðferðar.

Þykir mér leitt, að frv. skuli hafa legið svo lengi í n. sem raun er á orðin, þar sem hér er um mikilvæga og aðkallandi breyt. á alþýðutryggingarl. að ræða.

Það var bæði athyglisvert og lærdómsríkt dæmið, sem hæstv. félmrh. tók, að tveir bátar færu út sjó og færust, en annar færist óbættur, af því að hann vantaði 1/2 smálest til þess að geta heyrt undir núgildandi stríðsslysatryggingarl. Hér er misræmi á ferðinni, sem þarf að lagfæra, það hljóta allir að sjá.

Auk þess sem frv. því, er hér liggur fyrir, er ætlað að bæta úr þessu, þá er frv. því, er ég er flm. að og bíður nú afgreiðslu í háttv. allshn., ætlað að bæta úr öðrum ágalla, sem er alveg auðsær á núgildandi löggjöf um þetta efni. — Af eðlilegum ástæðum er oft erfitt um það að segja, hvort þetta eða hitt slysið verður af völdum stríðsins eða hamförum náttúrunnar eða þá af einhverju öðru, og það er dómstólunum stundum ókleift að skera úr þar um með nokkurri vissu, þar sem enginn er til frásagnar. Með tilliti til þessa og svo hins, að þörf aðstandenda fer ekki eftir því, hvaða orsakir hafa valdið slysinu, þá er það bæði eðlilegt og sanngjarnt, að tryggingin sé hin sama, hvort sem slysið ber að höndum sakir stríðsins eða ekki, en það er eitt af þeim atriðum, sem frv. um breyt. og viðauka á alþýðutryggingarl. er ætlað að ráða bót á.

Þess vegna vil ég beina því til hv. allshn., að hún athugi þetta frv. um leið og hún athugar frv. það, sem hæstv. stj. hefur lagt hér fram í deildinni.