12.04.1943
Neðri deild: 98. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í B-deild Alþingistíðinda. (843)

173. mál, stríðsslysatrygging sjómanna

Áki Jakobsson:

Herra forseti. — Með þessu frv. er gert að skyldu að stríðstryggja skipshafnir á smábátum hér við land. Þetta er ekki nema sjálfsagt, og það er óeðlilegt, að menn skuli ekki vera tryggðir jafnhátt, hvort sem þeir farast af stríðsvöldum eða öðrum ástæðum. Þeir, sem eftir lifa og hafa misst sína fyrirvinnu, hafa misst jafnmikið, hvort heldur víðkomandi maður deyr af stríðsvöldum eða ferst með skipi af öðrum ástæðum. Þessi ákvæði, að það skuli vera mismunandi greiðsla eftir því, hvort viðkomandi maður hefur farizt af venjulegu sjóslysi eða af stríðsvöldum, hafa orðið til þess, að það er oft mjög erfitt að fá glöggar skýrslur um orsök slyssins. Eins og eðlilegt er, reyna menn að koma öllu undir stríðsorsakir, eftir því sem hægt er. Eitt smáatvik kom fyrir á Austurlandi fyrir stuttu, sem sýnir, hvernig hagsmunir aðstandenda þeirra, sem farast með bátum, rekast á hagsmuni bátaeigenda. Eins og menn muna, fórst vélbáturinn Gandur frá Austfjörðum í vetur, en ekki varð sannað, hvort báturinn hefði farizt af stríðsvöldum eða ekki. Ef hann hefði farizt af stríðsvöldum, þá átti tryggingin að greiðast eftir stríðsslysatryggingunni; en ef svo hefði ekki verið, þá gátu aðstandendur þeirra, sem fórust, ekki fengið nema venjulega tryggingu, sem er þrefalt lægri. Þessu fyrirkomulagi þarf nauðsynlega að kippa í lag og samræma þessi ákvæði í íslenzkri tryggingarlöggjöf.

En það, sem ég ætlaði sérstaklega að benda á í þessu sambandi, eru iðgjaldagreiðslurnar fyrir þessa báta. Ákvæðin um þetta eru á þá leið, að það skuli greiða 4 kr. á viku fyrir hvern mann, og mér skilst, að þetta sé þannig í framkvæmdinni, að það þurfi að greiða þetta í einu lagi, hvort sem bátarnir róa eða ekki. Þetta er dálítið erfitt fyrir smábáta um og yfir 5 tonn, þegar 5 menn eru á slíkum bátum, þá þarf að greiða um 20 kr. á viku í tryggingu fyrir þá, jafnvel þó báturinn fari engan róður. Það háttar þannig til á Norðurlandi, að það er kannske útlit fyrir róðrarveður, en svo breytist það allt í einu, svo að ekki er hægt að róa, og þá er búið að borga iðgjöldin, en þau fást ekki endurgreidd, þó að ekki sé hægt að róa. Þetta hefur orðið til .þess að auka útgerðarkostnaðinn og gera þessum smábátum erfitt fyrir að halda áfram þessum atvinnuvegi. En aftur á móti er það nauðsynlegt, að þeir menn, sem á þessum bátum róa, séu tryggðir stríðstryggingu ekki síður en aðrir.

Það hefur sýnt sig bæði fyrir Austurlandi og Norðurlandi, að þessir bátar farast án þess að hægt sé að finna orsökina til þess, og það er því fullkomlega nauðsynlegt að taka skipshafnir þessara skipa undir stríðsslysatryggingu. Það þarf með einhverju móti að finna lausn á þessu. Það getur verið, að stríðstryggingafélögin geti það, þegar þau fara að framkvæma þetta, og gangi þannig frá því, að menn þurfi ekki að tryggja sig fyrir ákveðinn tíma, hvort sem báturinn hefur róið eða ekki þann tíma. Mér finnst ekki ástæða til þess að skylda útgerðina til að borga hærra en sem svarar þeim róðrafjölda, sem báturinn hefur farið í. Ég held, að þetta sé aðallega gert fyrir það, að það er einfalt í reikningi, og náttúrlega gefur það miklu hærri tekjur en ella.

Ég ætla ekki að flytja um þetta sérstaka brtt., fyrr en þá síðar, ef það kæmi fram, að stríðstryggingarfélögin sæju sér ekki fært að haga greiðslu iðgjaldanna þannig, að þessir smábátar þyrftu ekki að greiða iðgjöld fyrir þá daga, sem þeir róa ekki. Ef það yrði hægt í framkvæmdinni, þá ætti þetta ekki að þurfa að koma að neinni sök og ætti því ekki að svo stöddu að þurfa að bera fram sérstaka brtt., enda er brátt komið að þingslitum og hins vegar fyrirsjáanlegt, ef brtt. yrðu bornar fram; þá næði frv. ekki fram að ganga á þessu þingi, þar sem það þyrfti þá aftur að fara til Ed.