07.04.1943
Efri deild: 91. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

176. mál, samflot íslenzkra skipa

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. — Að óathuguðu máli um þetta frv. tel ég líklegt, að það horfi í rétta átt og sé því þess vert, að því sé léður stuðningur.

Það er alveg rétt, að útgerðarmenn hafa haft fullan hug á því, að samflot skipa kæmist á milli Íslands og Englands og aftur til baka, en ýmsir örðugleikar hafa staðið í vegi fyrir því. Svo er mál með vexti, að útgerðarmenn komu að máli við mig sem borgarstjóra þessa bæjar og kvörtuðu yfir því, að sein afgreiðsla vær í hér við höfnina, og að hún væri mun seinni hér en í Hafnarfirði. Nefndu þeir mér dæmi, að vegna þess að afgreiðslan gengur fljótar í Hafnarfirði, hefði ekki orðið úr samfloti héðan frá Íslandi til Englands og frá Englandi aftur og hingað heim. Það hljóta því allir að sjá, að mikið er undir því komið, að afgreiðsla skipanna gangi fljótt og greiðlega, en því er nú ekki að heilsa hér við höfnina í Rvík, og kvörtun útgerðarmannanna hafði við full rök að styðjast. En þessi seina afgreiðsla við höfnina hér er komin til vegna hins mikla bryggjurúms, er setulið það, sem nú dvelur hér í landi, hefur fengið til umráða, sem ég er ekki að segja, að hafi verið neitt óeðlilegt. Þeir samningar, sem um þetta voru gerðir, voru sumpart gerðir fyrir atbeina þáverandi ríkisstj., og í þeim samningi var einmitt tiltekin bryggja, sem útgerðarmenn töldu óumflýjanlegt að fá forgangsrétt að, til þess að afgreiðsla skipanna við höfnina gæti gengið sæmilega fljótt.

Mér var það ljóst, að reyna þurfti að komast að samkomulagi um þetta við setuliðið, ef það ætti að geta orðið úr samfloti milli tiltekinna landa, og vildi því gera það, sem líklegast væri til þess að ná mestum árangri. Þess vegna var það, sem ég sneri mér í bréfi til hæstv. ríkisstj., sem hafði staðið að samningunum um þessa bryggju, og fór þess á leit við hana, að hún reyndi sitt til þess, að setuliðið gæti orðið við óskum útgerðarmanna í þessu efni og félli frá forgangsrétti sínum að bryggjunni, meðan á vertíð stæði. Ég taldi það sem sagt eðlilegast að snúa mér til ráðuneytisins eins og á stóð, og enn fremur þar sem ég tel það rétta leið, sem beri að fara í slíkum tilfellum sem öðrum, er varða setuliðið, að þau mál séu í höndum ríkisstj., þar sem hún hefur á að skipa æfðum starfsmönnum til slíkra hluta, en að ekki séu hinir eða þessir lægra settir starfsmenn að vasast í þeim málum, án þess að nokkuð sé vitað um hæfni þeirra eða lagni, sem þarf við slíkar samningaumleitanir.

Af þessum orsökum sneri ég mér til utanrn. og fór þess á leit, að það hlutaðist til um, að útgerðarmenn fengju þessa ósk sína uppfyllta til þess að greiða fyrir samfloti fiskiskipa milli Íslands og Englands. En mér til mikillar undrunar gaf ráðuneytið algerlega neitandi svar og kvaðst ekki vilja hafa nein afskipti af þessu, en vísaði á n., er hafnarstjóri á sæti í og fjallar um mál hafnarinnar í sambandi við setuliðið. Mig furðaði þessi afgreiðsla ráðuneytisins vegna þess, að það hafði einmitt staðið að samningunum um þessa umræddu bryggju, og í öðru lagi vegna þess áhuga, er nú kemur í ljós hjá því á að koma á samfloti skipanna, þar sem skortur á bryggjurúmi ætlaði að verða Þrándur í götu fyrir, að samflot kæmist á, svo og undraði mig þessi afgreiðsla málsins af því, að fulltrúa ráðuneytisins hlaut að vera kunnugt um, að hafnarstjóri hafði verið frá störfum um lengri tíma sökum veikinda. Ég vil nota þetta tækifæri, sem mér gefst hér, til þess að láta undrun mína í ljós yfir þessari framkomu utanrn., þó að ég hafi orðið að beygja mig undir þetta þá og taka því sem lægra settur starfsmaður. En mér leiðist, að ráðuneytið skuli ekki í þetta skiptið hafa skilið betur skyldu sína. Ég veit ekki, hvort hæstv. utanrh. hefur nokkuð komið nærri afgreiðslu þessa máls, enda er ég ekki með þessu að ásaka þann mikilhæfa og ágæta starfsmann né þá menn, sem þessu hafa ráðið, heldur vil ég láta undrun mína koma í ljós yfir þessari afgreiðslu. En ég tel, að ráðuneytið hafi haldið öðruvísi á þessu máli en því bar skylda til.