10.04.1943
Efri deild: 94. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 595 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

176. mál, samflot íslenzkra skipa

Atvmrh. (Vilhjálmur Þór):

Út af ummælum, sem féllu í fyrri ræðu hv. þm. Barð., sem ég gat varla skilið öðruvísi en á þann veg, að þessi hv. þm. teldi, að ég hefði ekki skýrt hér rétt frá, þegar þetta .mál lá hér frammi í þessari hv. d. fyrir tveimur dögum, þá tel ég ástæðu til að taka aftur upp það, sem ég þá upplýsti víðkomandi þessu máli og meðferð þess, áður en það kom hér til hins háa Alþ.

Málið var upphaflega tekið upp af fulltrúum stéttarfélaga sjómanna við ríkisstjórnina, og voru um þetta nokkrir fundir haldnir með þeim og síðan með fulltrúum útgerðarmanna, en síðast sameiginlegir fundir með báðum. Á þessum fundum lýstu útgerðarmenn yfir því, að þeir vildu, eins á þessu eins og öllum öðrum sviðum, kappkosta að skapa hið mesta öryggi, sem hægt væri fyrir íslenzka sjómenn, og þess vegna vildu þeir leitast við að leysa þetta mál á víðunandi hátt. Það voru síðar um þetta nokkrar fleiri umr., bæði með ríkisstj. og milli þessara tveggja aðila, sem lauk þannig, að síðasti fundur með ríkisstj. var þannig, að séð varð, að þetta mál gat ekki orðið leyst með samkomulagi og þess vegna þyrfti lagafyrirmæli til þess að fá það öryggi, sem sjómenn töldu, að l. mundu veita sér. Ríkisstj. leit svo á, að það væri skylda hennar að taka tillit til óska sjómannanna, sem óneitanlega eru þeir, sem eiga mest á hættu í siglingunum og hætta lífi sínu. Og þess vegna lýsti ríkisstj. yfir því, að hún mundi leggja fram frv. á Alþingi um þetta mál. En til þess að greiða fyrir meðferð málsins og reyna að komast hjá óþægindum við heppilega framkvæmd málsins, þá beið ríkisstj. þess enn, að þessir aðilar vildu fjalla um málið og um uppkast að reglugerð, sem atvmrh. afhenti þá á fundum. Þeir urðu við þessu. Eftir nokkurn tíma bárust til baka bréf frá þessum aðilum, þar sem þeir lýstu yfir því, að þeir hefðu orðið sammála um, að ef l. yrðu sett um þetta, þá væri æskilegast, að reglugerðin yrði eins og frv. það til reglugerðar, sem nú er hér prentað sem fylgiskjal frv. Þetta er undirritað af starfsmanni Landssambands útgerðarmanna og af Sigurjóni Á. Ólafssyni fyrir hönd og sem fulltrúa stéttarfélags sjómanna.

Ég sé á þeim nál., sem hér liggja fyrir um þetta frv., að sjútvn. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Ég tek eftir því, og sé, að það er rétt, að einn ágalli hefur orðið á reglugerðinni. Það er, eins og bent hefur verið á af hv. þm. Barð., ekki séð í reglugerðinni nægilega fyrir undanþágumöguleikum úti um land. En sú aðferð, sem meiri hl. sjútvn. hefur valið til lagfæringar á þessu, sýnist mér dálítið vafasöm til þess að flýta fyrir afgreiðslu þessa máls. Ég á við þá aðferð að leggja til, að meira sé tekið upp í l. heldur en gert er í frv. og minna vald sé gefið með l. til reglugerðarsetningar. Eins og ég hef lýst yfir áður, þá leggja sjómenn mikla áherzlu á það, að þessi l. gætu orðið afgreidd sem fyrst og kæmu til framkvæmda sem skjótast. Og vegna þess var það, að ég leyfði mér að mælast til þess, þegar frv. var lagt hér fram fyrir fáum dögum síðan, að hv. d. vildi hliðra svo til, að málinu gæti orðið hraðað, sem ég vil þakka fyrir, að hefur verið gert, það sem af er. Afgreiðsla málsins, sem af er, hefur tekið stuttan tíma hér í hv. d. En ef hv. d. er á því, að það sé æskilegt að koma þessu lagafrv. sem fyrst í gegn, svo að hægt sé að fara sem fyrst eftir því, þá sýnist mér augljóst mál, að með því að fáir dagar eru eftir af setu þessa Alþ., þá mun það óhjákvæmilega seinka málinu gegnum þingið, ef farið verður að gera þessar mjög miklu breyt. á frv. Og með því, að stj. hefur áður lýst yfir, eða ég fyrir hennar hönd, sem ég geri aftur af nýju nú, ef Alþ. fellst á að afgreiða þessi l. í því formi, sem stungið er upp á í þessu frv., þá mun ríkisstj. setja reglugerð eftir l. eins og þá, sem á fylgiskjalinu er, eða með þeim breyt., sem við nánari athugun kemur í ljós, að æskilegt eða nauðsynlegt sé. En þó skal vera haft um það samráð bæði við fulltrúa útgerðarmanna og sjómanna, áður en breyt. verða gerðar á reglugerðinni frá því uppkasti, sem hér liggur fyrir í fskj. frv. Ég tek þetta fram með það fyrir augum, að ég tel víst, að frekast með þessu móti, að láta frv. komast í gegnum hið háa Alþ. án verulegra breyt., og með það fyrir augum, að það sé heimildarl., en reglug. verði svo sett um framkvæmdaratriðin, þá megi málið ná afgreiðslu skjótar en ella og þá væntanlega áður en þessu þingi lýkur, sem nú situr. Þessu vildi ég beina til hv. meiri hl. sjútvn., hvort hann ekki, með það fyrir augum að hraða málinu í gegn, geti fallizt á að treysta því, að í reglugerðinni verði komið fyrir þeirri lagfæringu, sem ég hef nú bent hér á, að ég sé við nánari athugun, að þörf er á.