23.02.1943
Neðri deild: 63. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (883)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. frv. það, er hér liggur fyrir, er hið fjórða í röðinni þeirra, sem ríkisstj. leggur fyrir þingið og miðar að því að spyrna gegn verðbólgunni og dýrtíðinni.

Ég ávarpa nú hv. d., um leið o.s.frv. er tekið til meðferðar, vegna þess að stj. stendur að frv. sem heild, en ráðstafanir þær, sem lagt er til, að gerðar verði, falla undir svið fleiri ráðh., sem síðar gera nánari grein fyrir þeim. Ég geri mér í hug, að suma, bæði utan þings og innan, kunni að hafa verið tekið að lengja eftir að sjá, hverjum tökum stj. hugsaði að beita, er hún hæfist handa um höfuðátök sín við dýrtíðarmálin. En hér til vil ég svara því og játa, að stj. var líkt farið og sumum öðrum á þessum styrjaldartímum, að hún gekk út í stríðið gegn verðbólgunni og dýrtíðinni án þess fyrirfram að vera nægilega vopnum búin, og þurfti hún því að smíða og láta smíða vopnin, eftir að út í stríðið var komið, og þá er ætíð borin von, að allt geti gengið eftir áætlun. Stj. hefur vitanlega þurft ýmsu öðru að sinna og orðið fyrir töfum í starfi sínu, sem ég ekki hirði að greina nema sjúkleika fjmrh. um nær þriggja vikna skeið, sem kom sér næsta bagalega einmitt fyrir afgreiðslu af hendi stj. á þeim málum, sem hér eru nú til meðferðar. Þetta læt ég nægja til skýringar því, að þessi málatilbúnaður af hálfu stj. er, ef svo má segja, nokkrum dögum á eftir áætlun. En ég hygg, að það skipti ekki mestu máli, að þetta afkvæmi stj. er svona síðborið, heldur hitt, hversu yður, hv. alþm., gezt að því.

Ég get mér þess til, að einhverjir kynnu að óska, að nákvæmari aths. og skýringar hefðu fylgt frv. um einstök atriði þess. En stj. leit svo á, að þær skýringar og rök fyrir hinum sérstöku þáttum frv. og samhengi milli þeirra innbyrðis væri hentast að gefa og þau kæmu að beztu haldi við meðferð málsins í þinginu.

Stj. hefur lagt þar á allan hug að finna þau vopn, sem líklegust eru til að vinna á hinum átfreka úlfi verðbólgu og dýrtíðar og leggja hann í fjötur. Stj. er sannfærð um, að baráttan, sem nú er háð í þessum málum, verði því aðeins sigursæl, að landslýðurinn sameinist til átaka og að engar ráðstafanir komi að fullu haldi, nema almenningur skilji nauðsyn þeirra, fallist á réttmæti þeirra og taki hlutdeild í aðgerðunum.

Í till. sínum hefur stj. því farið þrjár höfuðleiðir, sem í rauninni liggja til allra landsmanna, sem eitthvað geta lagt af mörkum. Þessar leiðir eru sköttun og skyldusparnaður, skerðing dýrtíðaruppbótar og lækkun á verði landbúnaðarafurða. Mér þykir rétt að taka fram og leggja áherzlu á það, að stj. telur alla þessa þætti vera nauðsynlega og standa í svo nánu sambandi hvern við annan, að hættulegt væri að rjúfa það samband með því að kippa einum eða öðrum burt. En hversu gildur hver þátturinn á að vera eða hlutfallið milli þeirra innbyrðis, getur verið undir álitum komið.

Um IV. kafla frv. vil ég sérstaklega taka þetta fram: Þeir kunna að vera til, sem telja, að stj. hefði fyrirfram átt að leita samninga við málsvara verkalýðsins eða laun- og kaupþega. En hér er þess m.a. að gæta, að engin stofnun er bær um að gera bindandi samning fyrir hönd þessara aðila allra, og í annan stað er stj. ekki að setja l.; hún er að bera fram frv. til lagasetningar, sem er á valdi þingsins, en innan þess er að finna flestalla gildustu og fremstu forustu- og fyrirsvarsmenn verkalýðs og launþega. Reynslan hefur sýnt, að lagasetning varðandi kaupgjald kemur ekki að haldi, nema launþegar sýni henni hollustu, og stj. er fyllilega ljóst, að löggjöf um dýrtíðarmálin verður næsta torveld viðfangs, ef launþegar vilja ekki ljá henni lið. En ef þeir sjá, að l., sem sett eru af nauðsyn, eru réttlát og einum ekki ívilnað umfram annan, þá treysti ég þeim fyllilega til að liggja ekki á liði sínu til þess að stuðla að því, að slík l. yrðu framkvæmd samkv. tilgangi sínum.

Með frv. þessu er stj. ekki að krefjast þess af neinni stétt, að hún beri fyrir borð hagsmuni sína, eða af neinum flokki, að hann hverfi frá stefnumálum sínum. Hún er að leitast við að vísa á leiðir, þar sem fulltrúar þjóðarinnar, flokkar þingsins, gætu mætzt og orðið með nokkrum hætti samferða í þessu eina máli til þess að bjarga umbjóðendum sínum, fólkinu, þjóðinni, þótt þeir annars fari ferða sinna eftir öðrum leiðum og eigin áttavita.

Stj. er ljúft að láta þinginu í té og hverjum einum stjórnmálaflokkanna þá aðstoð, sem hún má og að gagni kynni að koma í málinu.

Að lokinni umr. nú er það ósk mín, að málinu verði vísað til 2. umr. og n., væntanlega fjhn., og ég leyfi mér að skjóta því fram til athugunar, hvort ekki væri heppilegt, að fjhn. beggja d. ynnu saman að málinu.