23.02.1943
Neðri deild: 63. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (884)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. — Ég skal leitast við að skýra nokkrum orðum það í frv., sem skiptir þau mál, sem mér eru falin í rn., ég skal ég þá byrja á l. kafla frv., sem er sameiginleg ákvæði um álagning skatta til ríkissjóðs árið 1943.

Eins og fyrirsögnin ber með sér, eru þessar ráðstafanir gerðar til eins árs. Sú breyt., sem hér kemur fram, er aðallega um varasjóðshlunnindi hlutafélaga. Útgerðarfélögum er ætlað að halda þessum hlunnindum með sérstöku tilliti til þess rekstrar, sem þessi félög hafa með höndum, en með því skilyrði, að allt þetta fé verði lagt í nýbyggingarsjóð. Mikið hefur verið um það rætt af öllum flokkum, að mikla nauðsyn beri nú til að efla nýbyggingarsjóð útgerðarinnar. Ég hygg, að allir séu sammála um þetta atriði. Hins vegar má segja, að nýbyggingarsjóður sé hvorki fugl né fiskur. Ég hygg, að segja megi, að kannske ekkert af þeim félögum, sem eiga togara, hafi myndað sér nýbyggingarsjóð, sem gerir þeim mögulegt að eignast nýja togara nema með stórfelldum lánum. Samkv. upplýsingum, sem ég hef fyrir hendi og teknar eru eftir uppgjöri frá bönkunum, munu allir nýbyggingarsjóðir nú nema um 13 millj. kr.

Í sambandi við þessa l. gr. eru enn fremur undanþegin niðurfellingu þessara hlunninda þau félög, sem samkvæmt l. geta ekki úthlutað varasjóði sínum, en það eru samvinnufélög. Mér finnst þetta full sanngirni vegna þess, hverjar skorður þessum félögum eru settar með sína sjóði. Ég tel, að það sé nokkuð líkt farið með nýbyggingarsjóði og þessa sjóði, að þeir séu nú orðnir þeim böndum bundnir, að segja megi, að eigendur þeirra, ef svo skyldi kalla, séu ekki sjálfráðir um, hvernig þeim er varið og þeir geti ekki farið með þá mikið á annan hátt en ákveðið er með 1. um varasjóði samvinnufélaga. Sá tekjuauki, sem gert er ráð fyrir, að komi í niðurfellingu varasjóðshlunninda, er áætlaður lauslega 11/3 millj. kr.

Í 3. gr. er gert ráð fyrir, að áætla megi hærri fyrningarfrádrátt en almennt gerist hjá þeim fyrirtækjum, sem mestmegnis starfa að útflutningsframleiðslu eða vinnslu úr íslenzkum hráefnum. Þessi till. er færð fram með alþjóðarheill fyrir augum, vegna þess að þau fyrirtæki, sem vinna að útflutningsframleiðslunni eða vinna eingöngu úr íslenzkum hráefnum, hafa byggt hús og verksmiðjur eða skip á undanförnum árum óeðlilega háu verði. Það er því sjáanlegt, að slík félög yrðu ekki samkeppnisfær að stríðinu loknu við þau félög, sem eiga eignir, sem standa í miklu lægra verði. Hér er reynt að koma í veg fyrir, að hrun geti komið fyrir í þessum rekstri af þeim sökum, að ráðizt hafi verið í framkvæmdir á stríðsárunum. Hér er því aðeins verið að stuðla að því, að þessi fyrirtæki geti eftir stríðið rekið fyrirtæki sín á heilbrigðum grundvelli.

Þá kem ég að viðreisnarskattinum, sem er hvort tveggja í senn, skattur og skyldusparnaður. Skattur af tekjum upp í 11000 kr. endurgreiðist að fullu. Af tekjum þar frá upp í 20000 kr. má segja, að skattur sé ekki mjög tilfinnanlegur, en heldur þyngri af tekjum frá 20000 upp í 100000 kr. Þegar kemur fram yfir 100000, fer hundraðsálagningin stighækkandi, vegna þess að þá tekur stríðsgróðaskatturinn við, og er þetta gert á svipuðum grundvelli og útsvörunum hefur verið fyrir komið. Enginn fær endurgreitt af þessum skatti, meira en 2000 kr., og þar með er sagt, að ekki er endurgreitt af skatti, sem er lagður á það, sem er fram yfir 60000 kr.

Nú munu flestir spyrja, hvað þessi viðreisnarskattur geti gefið í aðra hönd. Það er ákaflega erfitt að gera sér nákvæma og ábyggilega grein fyrir því, en eftir því sem næst verður komizt, má ætla, að hann verði um 11 millj. kr. samtals. Þar frá dregst að vísu sá skyldusparnaður, sem ríkissjóði ber að endurgreiða, sem mætti áætla um 2 millj. kr. Ég tek fram, að þetta er mjög lausleg áætlun, vegna þess að skattstofan hefur ekki skrá um það, hversu miklar tekjur eru á hverju skattstigi, og þess vegna er útreikningur slíks skatts byggður á öðrum miklu hæpnari rökum. Áætlað er, að viðreisnarskattur og það, sem kemur við niðurfellingu varasjóðshlunninda, muni nema 12–13 millj. kr.

Þriðji kaflinn er um eignaraukaskatt. Hér er um mjög óvenjulegan skatt að ræða. Hér er um við ræða skatt á eignir, sem skattþegnum hefur verið leyft að eignazt, eftir að þeir höfðu greitt allar skyldur og skatta. Slíkan skatt er auðvitað ekki hægt að taka nema einu sinni og undir mjög óvenjulegum kringumstæðum. Má segja, að slíkar kringumstæður séu fyrir hendi nú, þar sem um er að ræða mjög óvenjulegan stríðsgróða tveggja ára, og jafnframt er um það rætt að leggja nýjar byrðar á þjóðina alla. Gert er ráð fyrir, að till eignaaukning, sem er umfram 50000 kr. og orðið hefur á árunum 1940–1941, komi undir eignaraukaskatt, sem byrjar með 5% og færist upp í 25%, þegar eignaraukningin er komin upp í 2 millj. kr. Áður en skatturinn er lagður á, skal draga frá eignaaukningunni skatta og útsvar, lagt á árið 1942, sem er ekki nema sjálfsagt, því annars gæfi það ekki rétta hugmynd um eigur skattþegns. Í öðru lagi er gert ráð fyrir, að nýbyggingarsjóður sé ekki skattlagður, og í þriðja lagi, að tapsfrádráttur sá ekki skattlagður. Geri ég ráð fyrir, að mönnum finnist full sanngirni, ati þetta hvort tveggja sé gert.

Það er að vísu álitamál, hvernig eigi að verja þessum tekjum. Stj. hefur lagt til, að þeim verði varið til að reisa hús yfir ráðuneytin, hæstarétt og helztu stofnanir ríkisins, en það er ljóst, að íslenzka ríkið, ef svo má að orði kveða, hefur ekki þak yfir höfuðið. Með þessu móti væri þó einhver sýnilegur vottur um þessa álagningu, ef þessar tekjur væru ekki gerðar að eyðslueyri til misjafnlega þarfra hluta. Áætlað hefur verið, að tekjur af þessum skatti yrðu um 3300000 kr.

Að síðustu ætla ég að minnast með nokkrum orðum á IV. kaflann, um verðlagsuppbót á laun. Lagt er til, að greidd verði 80% verðlagsuppbót í stað 100%, eins og nú er. Eins og verðlagsuppbótin er nú, er þetta lækkun, sem nemur um 121/2% á heildartekjur launþega, en sú fórn, sem launþegar færa með þessu, lækkar, eftir því sem vísitalan lækkar. Launþegar munu yfirleitt hafa fengið grunnlaunauppbót 25–60%, en það er ákaflega mikill munur á því, hvort verðlagsuppbótin er lækkuð eða grunnkaupið, því að þegar mestöll verðlagsuppbótin er horfin og þar með sú fórn, sem launþegar færa, halda þeir óskertu grunnkaupi sínu. Það er öllum kunnugt, að þetta, sem hér er farið fram á, er ekki einsdæmi. Þetta hefur viðgengizt í Svíþjóð, þar sem jafnaðarmannastjórn hefur verið við völd um langan aldur. Að vísu hafa verið gerð um það frjáls samtök, en nú mun það hafa verið lögfest, a.m.k. að einhverju leyti.

Við, sem sitjum hér á litlu, afskekktu landi, verðum að gera okkur það ljóst, að úti í heimi, þar sem háð er barátta milli stórveldanna upp á líf og dauða, þar stendur engum fyrir svefni, hvernig fer um hag litillar þjóðar norður við Íshaf. Við verðum að berjast okkar eigin baráttu. Þjóðin veit, að hún er í hættu stödd vegna óvenjulegra orsaka, og talað er um, að allir verði að færa fórnir til þess að bægja frá þeirri hættu, sem yfir vofir. En er þetta nokkur fórn á við það, að atvinnuvegirnir stöðvíst? Er þetta nokkur fórn á við það, að sparifé þjóðarinnar verði að engu? Er þetta nokkur fórn á við það, að hér ríki neyð í stað nægta?

Þetta frv. gerir ráð fyrir, að allir leggi fram nokkurn skerf, en það er engin fórn. Þetta er aðeins friðþæging, sem þjóðin leggur fram til þess að ná aftur því jafnvægi í þjóðarbúskapnum, sem tapazt hefur af andvaraleysi og vanmati á þeim óvenjulegu örðugleikum, sem forsjónin hefur knúið í fang landsmanna.