17.11.1942
Sameinað þing: 1. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í B-deild Alþingistíðinda. (9)

Rannsókn kjörbréfa

Gunnar Thoroddsen:

Ég vil, áður en ég ræði þetta mál, spyrja hv. frsm. minni hl., hvort þetta bréf er skrifað til Alþingis eða til skrifstofu Tímans eða til hans persónulega. Í öðru lagi vil ég biðja hann að lofa mér að sjá bréfið. (SkG afhendir GTh bréfið). Í bréfinu stendur ekkert, til hvers það er, og tel ég trúlegast, að það sé sent, eins og annað fleira góðgæti, til skrifstofu Tímans.

Ég veit, að Framsfl. hefur fallið það ákaflega þungt að missa Snæfellsnessýslu úr greipum sér við þessar kosningar. Það er ósköp eðlilegt, að menn harmi horfna vini, sérstaklega þegar þeir eru dyggir og trúir flokksmenn. Er eðlilegt, að menn haldi vinsamlegar líkræður í því tilefni. En það er ekki venjulegt, að í líkræðum sé last og rógur um aðra. Í þessu tilfelli hefur út af þessu brugðið. Og harmagráturinn út af missi þessa liðsmanns Framsfl. hefur í málgagni þessa flokks og í munni þessa formælanda, sem hér talaði síðast, snúizt upp í hinar svæsnustu árásir a þingmann kjördæmisins og kjósendur í þessu kjördæmi. Í mörgum blöðum af Tímanum, sem út hafa komið síðan um kosningar, hefur getið að líta þennan óhróður. Ég þarf ekki að rifja upp, hver þessi mikla sök er, sem þarna hefur verið drýgð. Það hefur verið hent ekki lítið gaman að þessum skrifum. Það var talað um síldarmjöl og brennivín og að ein gömul kona hefði fengið passíusálma! Allt er þetta ósannað mál, og aðstandendur þessa blaðs vita líka sjálfir, að þetta er uppspuni og annað ekki. En það er ósköp ömurlegt, að menn skuli þurfa að leita huggunar í þessum hlutum í sorg sinni. Yfir þessari kosningu hefur þó engin kæra borizt. Þess vegna er dálítið undarlegt, að nokkrir þm., undir framsögu og forustu hv. þm. V.-Húnv., skuli taka upp hjá sér að koma hér fram á Alþingi með eitthvert óstaðfest sendibréf. Ég veit, að ef menn þekktu vottorðsgefandann, þann sem undir ritar, þá hefðu þeir aldrei misboðið svo virðingu Alþingis að lesa það hér upp.

Í rauninni þarf ég ekki mörgum orðum um þetta að fara. Ég lýsi yfir að gefnu tilefli, að það tvennt, sem um mig er sagt í þessu „vottorði“, er uppspuni frá rótum. Hins vegar æski ég þess, eins og minni hl. kjördeildar, að þessu bréfi verði vísað til kjörbréfan. til rannsóknar. Og ég ætlast til, að ekki verði sofnað á þessu, heldur mikið rannsakað ofan í kjölinn. Ég mun og gera ráðstafanir til að svara þessum álygum á réttan hátt. Það er ekki rétt að tefja tíma þingsins með þessu máli, en ég vildi aðeins láta þessar aths. koma fram. Ég hef ekki sjálfur talið ástæðu til að svara skrifum Tímans að undanförnu, þó að þau hafi beinzt nokkuð að mér persónulega og kosningu minni á Snæfellsnesi, þar sem borið er á Snæfellinga, að þeir séu mútuþegar og brennivínsberserkir og þar fram eftir götunum. Hins vegar er ekki hægt að sitja hjá, þegar einn af þingmönnum þessa flokks leyfir sér að koma með þessar gróusögur inn í þingsalina. Orð þessi vil ég ekki hafa fleiri, en styð till., sem kom fram frá frsm. minni hl. kjörd., að þessu „vottorði“ verði vísað til frekari rannsóknar hjá kjörbréfan. og sú rannsókn fari fram.