07.04.1943
Neðri deild: 92. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Fjmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Þetta eru að ýmsu leyti mjög örlagaríkar umr., og er því skylt að láta þær fara fram af stillingu og fullri alvöru. Þingið verður fyrst og fremst að reyna að gera sér grein fyrir, hvert stefnir, ef ekki tekst að finna eðlilega lausn á þessum vandamálum. Þjóðin öll bíður með mikilli eftirvæntingu þeirrar lausnar, en undir henni er hagsæld þjóðarinnar á næstunni komin og ef til vill sjálfsforræði hennar að nokkru leyti. Ófriðurinn hefur valdið miklum örðugleikum, en hið meðfædda sundurlyndi þjóðarinnar veldur því, að ekki hefur verið við þeim spornað eins og skyldi. En ekki stoðar að sakast um orðinn hlut og ekki heldur að berja sér á brjóst og segja, að við getum ekki ráðið við erfiðleikana, það verði að láta allt skeika að sköpuðu. Slíkt vær í uppgjöf. Það væri skortur á karlmennsku. Erfiðleikarnir eru viðráðanlegir og jafnvel auðveldir viðfangs, ef þau sjónarmið eru látin ráða, sem varða almenningsheill, og ef allir eru samtaka um að breyta eftir beztu vitund. Erfiðleikarnir eiga rót sína að rekja til þess ástands, sem ófriðurinn hefur valdið. Um það eru allir sammála. Hagsmunasamtök, flokkar og stéttir keppast nú við að tryggja sér sem mest af ímynduðum verðmætum, sem ófriðurinn hefur haft í för með sér. Sú keppni hefur gert þessa aðila tortrygga, hvern í annars garð. Einmitt þess vegna er nauðsynlegt að hefja sig yfir sjónarmið stéttahagsmuna og flokkatogstreitu. Til þess þarf fórnarlund og víðsýni. En því miður virðist viljinn til þessara hluta ekki vera mjög mikill. Enginn vill sleppa því, sem hann hefur, því að menn vilja ekki trúa því, að þrumurnar, sem heyrast í fjarska, séu í raun og veru fyrirboðar ofviðrisins. Fár kann sig í góðu veðri heiman að búa. En of seint er að búa sig, þegar óveðrið er skollið á.

Ríkisstj. er ljóst, að þjóðarnauðsyn er á því, að samkomulag náist í þessu máli, og þess vegna hefur hún nú borið fram nýjar till. í stað IV. og V. kafla frv. Treystir hún því, að þetta megi verða til þess að samræma sjónarmiðin og auðvelda samkomulag. Í brtt. er gert ráð fyrir, að í staðinn fyrir 12% kaupskerðingu og 10% lækkun allra landbúnaðarvara komi lækkun vísitölu í 220 stig fyrst um sinn. Verð á landbúnaðarvörum skal ákveðið þannig, að lagt verður til grundvallar verð, sem á þeim var í janúar, febrúar og marz 1939, að viðbættri 40% grunnverðsuppbót og vísitölunni 220. Hins vegar skal frá byrjun næsta mánaðar eftir gildistöku l. ekki greidd hærri verðlagsuppbót á laun en samsvarar framfærsluvísitölunni 220. Þetta hvort tveggja gildir aðeins til bráðabirgða, eða þar til verð á landbúnaðarframleiðslu hefur verið ákveðið samkv. sérstakri vísitölu. Verð á landbúnaðarafurðum er nú fundið með því að gera ráð fyrir, að laun verkamanna hafi hækkað um 51% frá 1939. Í þeim útreikningi, sem þar kemur til greina, er ekki tekið tillit til orlofsl., sem munu samsvara 4% launahækkun. Síðan í desembermánuði hafa egg og aðrar vörur lækkað um 41/2 stig, og önnur verðlækkun gæti numið 2 stigum. Ef þetta er tekið til greina og fleiri atriði, sem jafngilda verðlækkun, koma út 46 stig, sem draga verður frá 172, sem er vísitalan eins og hún hefur orðið hæst. Með því komumst vér niður í 226 stig í einu átaki, ef svo mætti segja. Þau 6 stig, sem á vantar, til þess að vísitalan komist niður í 220, ættu varla að verða erfið viðfangs, ef stj. fengi nokkurt olnbogarúm í þessum efnum. Smásöluverð ætti þá að verða sem hér segir: á mjólk kr. 1,23 hver lítri, á kjöti kr. 5,24 hvert kg., á smjöri kr. 11,95 hvert kg. og annað eftir því.

Eins og tekið er fram í tillögunum, á að verðbæta mjólkina til 14. maí og greiða 3/4 hluta verðmunarins á kjötbirgðunum með framlagi úr ríkissjóði.

Þessar tillögur voru afhentar fjárhagsnefnd skriflega 27. marz í þeirri von, að samkomulag næðist á þessum grundvelli. En eins og sjá má af tillögum fjárveitinganefndar, er langt frá því, að nefndin hafi getað átt samleið með stjórninni, og sama er að segja um stjórnina gagnvart tillögum nefndarinnar.

Ríkisstjórnin álítur, að tillögur fjárhagsnefndar nái hvergi þeim árangri, sem nauðsynlegur er í dýrtíðarmálunum. Ef nefnd sú, sem tillögurnar gera ráð fyrir, verður ekki sammála, þá verður enginn vísitölugrundvöllur lagður fyrir verð landbúnaðarvara. Þegar framlagið úr ríkissjóði fellur niður 15. sept., hljóta vörurnar að hækka aftur og dýrtíðin aftur að færast í núverandi form eða verra, en milljónum króna kastað út til þess eins að selja mjólk og kjöt ódýrara í 4–5 mánuði. Lækningin væri engin. Það vær í líkt því að ætla sér að lækna sjúkling með því að gefa honum deyfandi meðul nokkra daga til að draga úr verkjunum.

Önnur aðalstoð tillagnanna er sú að stofna 3 millj. króna atvinnutryggingarsjóð, og reglugerð fyrir sjóðinn skal sett af mþn. í samráði við Alþýðusamband Íslands, sem mun vera heldur óvenjuleg aðferð. Sjóðurinn út af fyrir sig getur engin áhrif haft á lagfæringu dýrtíðarinnar, nema siður sé, að því leyti að í hann rennur það fé, sem annars færi til dýrtíðarráðstafana.

Annars verður ekki annað séð en sjóðurinn sé stofnaður til þess að sætta launþegana við þá fórn, sem þeim er ætlað að færa á altari dýrtíðarinnar í eitt skipti fyrir öll, en það er 12% lækkun á eins mánaðar kaupi. En til þess að það takist og áður en það er gert, er ríkisstjórninni skipað að ganga fyrir kné allra stéttarfélaga í landinu og biðja þau að fallast á að færa slíka fórn, svo að afstýra megi hruni atvinnuveganna. Ef félögin hins vegar fallast ekki á að gera þetta, hlýtur þessi hluti tillagnanna að falla niður, og er þá ekki um að ræða neinar ívilnanir af hendi launþega til að lækka dýrtíðina. Fari svo um verðlagsnefndina, eins og ég nefndi áður, þá eru allar ráðstafanir samkv. till. fjárhagsnefndar að engu orðnar, en tilraunin hefur kostað ríkissjóð 6–7 milljónir króna.

Hér er verið að kaupa frest og kaupa hann háu verði, án þess að um nokkra varanlega úrlausn sé að ræða á því vandamáli, sen hér er um að fjalla.

Ég tel óþarft að fjölyrða um þau atriði frumvarpsins, sem nefndin vill niður fella. Ef ekki á að láta allt reka hér á reiðanum, heldur reyna að hafa einhvern hemil á verðbólgunni, er full nauðsyn fyrir hvaða ríkisstjórn, sem situr, að hafa til umráða talsvert mikið fé í því skyni.

Það er ekki líklegt, að slíkt fé fáist nema með nýjum sköttum. Núverandi tekjustofnar ríkisins munu varla gera mikið fram yfir áætluð gjöld.

Ég held því fram af ríkri sannfæringu, að till. ríkisstjórnarinnar séu jákvæður grundvöllur, sem skjótlega mundi sýna varanlegan árangur í baráttunni við dýrtíðina. Og árangurinn mundi ná án nokkurra teljandi fórna frá nokkurri stétt. Ef þetta er rétt, sem ég fullyrði, að sé, er þá ekki verið að deila um aukaatriði, er ekki verið að deila um það, hvernig beri að halda á austurstroginu, meðan bátinn fyllir smátt og smátt?

Ef eitthvað er gert nú, sem verður að engu gagni, eða ef ekkert er gert í því trausti, að ástandið verði til haustsins ekki verra en það er nú, þá hefur dýrmætur tími farið til ónýtis, og verðbólguhugarfarið grípur um sig aftur með vaxandi krafti. Fólkið missir trúna á það, að nokkuð verði gert til bjargar. Það missir trúna á þing og stjórn.

Kreppan er á leiðinni. Allar verklegar framkvæmdir eru að stirðna undir þunga verðbólgunnar. Byggingariðnaðurinn er að stöðvast. Allir draga saman seglin, sem eitthvað þurfa að láta framkvæma. Útvegurinn berst í bökkum, og erfiðleikarnir verða honum að líkindum brátt ofviða. Enginn veit enn, hvort hægt verður að starfa að síldveiði í sumar. Verzlunin og iðnaðurinn hlýtur að dragast stórlega saman. Allt atvinnulíf landsmanna stynur undir þunga dýrtíðarinnar.

Ef skriðunni verður leyft að halda áfram, ef ekkert verður gert fram til haustsins, ef engar skynsamlegar og raunhæfar ráðstafanir verða gerðar nú þegar gegn dýrtíðinni, þá mun mörgum í landinu þykja orðið þröngt fyrir dyrum, þegar komið er fram undir veturnætur.