07.04.1943
Neðri deild: 92. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (903)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Jón Pálmason:

Mér þykir rétt að víkja nokkuð að því stóra máli, sem fyrir liggur. Ekki beint til þess að afmarka sjónarmið míns flokks eða skýra frá störfum fjhn. þennan 11/2 mán., sem hún hefur unnið að þessum málum, heldur til að skýra nokkuð tillögur þær, sem fyrir liggja, eins og þær koma fyrir.

Þetta er nú búið að vera höfuðmál hér á Alþ. í tvö ár. Það hefur valdið deilum milli flokka, og það hafa fallið á því ríkisstjórnir. Þetta hefur og verið höfuðmálið á því þingi, sem nú er að enda, og það hefur verið reynt að leita samkomulags um það, bæði með till. til stjórnarmyndunar og á annan hátt. Það er því ekkert undarlegt, þótt enn sé mikill ágreiningur um þetta mál, og það má því þykja nokkrum tíðindum sæta, að ein n. hér á Alþ. skuli hafa getað komizt að sameiginlegum niðurstöðum um þetta mál, sem sem allir nm. sætta sig við. Þessar till. fjhn. hafa nú verið skýrðar af hv. fjhn. og hæstv. fjmrh.

Ég skal byrja á að fara út í nokkur atriði í frv. stjórnarinnar, sem einkum hefur verið deilt um.

Eins og frv. kom frá stjórninni, þá voru I.—III. kafli þess nýjar skattaálögur, en fjhn. hefur orðið sammála um að fella niður I. og III. kaflann. Hv. frsm. minntist á, að sumir gætu e.t.v. hugsað sér að láta ákvæði þessara kafla standa, en ég er því mjög mótfallinn.

I. kafli er um það að afnema öll réttindi hlutafélaga til þess að draga frá tekjum sínum varasjóðstillag, áður en skattur er á lagður. Samkv. skattal. frá 1935 var hlutafélögum veittur réttur til þess að draga þannig frá 50% af varasjóðstillagi sínu, en með skattal. frá því í fyrra var þessi hluti lækkaður niður í 20%. Nú á að afnema þessi réttindi með öllu. Sem sagt, það á að afnema möguleikana til þess að hlutafélög verði stofnuð framvegis, og nú eru mörg hlutafélög til, sem eiga engan varasjóð. Hér er svo langt gengið, að ég get alls ekki hugsað mér að samþykkja slíkt. Varðandi II. kafla frv. hefur fjhn. dregið út úr honum svonefndan skyldusparnað, en það áttu að vera frá 400 kr. til 2000 kr., sem einstaklingur legði fram til þessa, er átti svo að vera geymslufé, er síðar yrði skilað aftur.

Fjhn. hefur litið svo á, að ef ætti að koma á skyldusparnaði, meðan á verðbólgunni stendur, þá verði að fara aðrar leiðir en að taka það fé með sköttum. Ég hygg og, að fæstir treysti því, að þessu fé yrði skilað aftur. Ef ríkissjóður kemst í vanda, þá verður þetta fé tekið fyrr en annað og tæplega skilað sömu aðilum. En um leið og fjhn. hefur lagt til að fella niður þetta ákvæði um skyldusparnað, þá hefur hún lagt til, að lágmarkið á skattskyldum tekjum verði hækkað. Það leiðir af sjálfu sér. Ef átt hefði að samþykkja þetta ákvæði um skyldusparnað, þá hefði þurft að breyta því mjög frá því, sem er í frv., svo meingölluð eru ákvæðin. T.d. ef maður á að greiða 400 kr. í þennan skatt, á hann að fá allt greitt aftur, en sá, sem á að greiða 401 kr., á aðeins að fá 25% eða 100.25 kr. Annars skal ég ekki fara lengra út í þetta, en eins og hv. frsm. fjhn. hefur skýrt frá, þá er ekki samkv. till. n. gert ráð fyrir, eftir áætlun stj., að þessi upphæð nemi meiru en 2 millj. kr. af 11 millj. alls, samkv. þessum kafla. Annars virðast þessar áætlanir svífa nokkuð í lausu lofti, enda erfitt að gera áætlanir eftir sköttum frá fyrra ári, því að þetta er svo miklum breytingum undirorpið.

Viðvíkjandi III. kafla, sem n. hefur einnig lagt til, að verði felldur niður, þá er það að segja, að hann er ekki hugsaður sem dýrtíðarráðstafanir, heldur sem skattaálag til þess að byggja hús yfir ráðuneytin, hæstarétt og helztu stofnanir ríkisins. Hann getur því að ósekju fallið út úr frv. og á þar alls ekki heima. Ef samt ætti að fara að ganga inn á þá braut að gera með skatti eignarnám hjá mönnum, þá verður einhver rík ástæða að vera fyrir hendi, gildari ástæða en við höfum fengið að heyra frá hæstv. ríkisstj. Greinar þessa kafla virðast svífa svo mjög í lausu lofti hjá henni, að ég get ekki fallizt á að fara inn á þessa skattaleið, enda yrði ég þá a.m.k. að fá eitthvað meira til þess að festa hendur á en nú er í þessum furðulegu till. Það er mjög erfitt að ákveða, hvað sé eignaaukning. Við vitum það t.d., að allt búfé er nú metið með margföldu verði miðað við það, sem var fyrir stríð. En það er mikill vafi á, að þar hafi nokkur eignaaukning átt sér stað, hafi ekki verið um fjölgun að ræða. Sama máli gegnir um aðrar eignir, sem hafa hækkað í verði af völdum verðbólgunnar. Það er vafi á, að þar sé um nokkra eignaaukningu að ræða. T.d. ef tveir menn ættu sitt húsið hvor, sem hvort um sig væri metið á 100 þús. kr., og annar seldi sitt hús á 200 þús. kr., þá er þó vafi á, að hann sé nokkru ríkari en hinn, sem á hús sitt áfram, með því að svo mikil óvissa er ríkjandi um allt peningaverð eftir stríðið. Ég get fullyrt, að það yrði erfitt að ákveða, hvað væri raunveruleg eignaaukning í þessu sambandi, því að það er ekki hægt að miða við það, þótt eignir hafi margfaldazt í verði að krónutali.

Eins er með verzlanir. Þær eignir, sem þær eiga í vörubirgðum, eru nú með margföldu verði, miðað við það, sem var fyrir stríð, en mikill vafi á, hvað á að telja eignaaukningu, af því að það hlýtur að fara mjög eftir því, við hvaða verði vörurnar seljast, sem eftir verða, er verðlækkunin skellur á að stríðinu loknu. Allur þessi útreikningur hlýtur því að verða nokkuð hæpinn, og ég varð mjög undrandi á að sjá svona till. koma nú frá hæstv. ríkisstj. Að ætla sér að reisa stórhýsi nú í verðbólgunni og setja till. um það inn í frv. um dýrtíðarráðstafanir.

Þá kem ég að IV. kafla frv., sem er aðalatriði þess. Hann fjallar um það, að ekki skuli greiða nema 80% dýrtíðaruppbót á laun eða kaup fyrir hvaða starf, sem er. Þetta er aðalatriðið, af því að það eru höfuðtill. til þess að lækka dýrtíðina, og við það eru bundnar allar þær till., sem á eftir fara. Hér er um að ræða till., sem margir gætu talið sanngjarna, en á þessu eru þó stórvægilegir gallar, og þeir hafa skýrzt betur fyrir þjóðinni á síðasta ári heldur en áður. Ég vil taka undir það með hv. frsm. fjhn., að ég álít, að hér sé verið að fara aftan að siðunum, þegar þing eftir þing og ár eftir ár á að gera þær kröfur til Alþ., að það fari að blanda sér inn í samninga milli verkamanna og atvinnurekenda, meðan þar er fullur friður á. Ég álít, að þarna sé komið inn á mjög hættulega braut, ef á að blanda sér þannig í hag alls almennings í landinu. Ef til þess er ætlazt, að lögfest verði verð á landbúnaðarafurðum og kaupgjaldi. Ég tel það mjög hæpið, sem hér er farið fram á um það efni, og álit, að Alþ. fari út fyrir það verksvið, sem það á að hafa. Varðandi þetta sýnist ekki ástæða til fyrir mig að efast um það, hvort það væri löglegt af Alþ. að taka upp á slíku, þar sem tveir af okkar æðstu og elztu dómurum eru nú í ríkisstj. En okkur, ólögfróðum alþýðumönnum, sýnist það allvafasamt, að Alþ. færi inn á þá braut að blanda sér í frjálsa samninga milli manna. Ef ég hefði ráðið til mín vinnumann fyrir ákveðið kaup og þar um væri fastur samningur, þá teldi ég það óeðlilegt, ef Alþ. færi að skipa mér, að ég mætti ekki greiða þessum manni nema ákveðinn hluta af því kaupi, sem um var samið. En það er einmitt það, sem hér hefur verið að gerast, að sumir menn hafa álitið, að það væri réttmætt að grípa inn í á þann hátt, að Alþ. færi með lögum að fyrirskipa, að samningar, sem gerðir hafa verið á frjálsan hátt milli manna, skyldu ekki gilda. Aðferðin um lækkun uppbótar með lögboði getur gengið, að því er snertir starfsmenn ríkisins, af því að þeir búa undir þeim lögum, sem Alþ. á hverjum tíma setur. En það er öðru máli að gegna, þegar um er að ræða frjálsa samninga milli atvinnurekenda og verkamanna, sem hvorugir hafa beðið Alþ. um aðstoð til þess að breyta þeim samningum. Það væri um það náttúrlega allt öðru máli að gegna, ef mál væru komin á það stig, að launadeilur ættu sér stað milli atvinnurekenda og verkamanna, sem ekki væru sýnilegar líkur til, að leystar yrðu á annan hátt en með lagasetningu. Þá gæti komið til mála að grípa inn í með löggjöfinni. En meðan svo er ekki, finnst mér slíkt óeðlilegt. Og mér finnst þessi skoðun mín hafa fengið dálítinn stuðning, þrátt fyrir mikla lögfræði hæstv. ríkisstj. og annarra manna, sem fylgja stefnu hæstv. ráðh. í þessu máli, því að sjálf ríkisstj. hefur tekið þennan kafla frv. aftur og lagt fram nýjar brtt. um sitt eigið frv., þar sem þetta er að öllu leyti fellt úr. Nú má vera, að mörgum finnist, að hv. fjhn. sé að ganga út á einhverja hættulega eða vafasama leið, þegar hún leggur til, að það skuli leita samninga við stéttarfélögin um það að breyta til frá þessum samningum, sem gerðir hafa verið. Þar er ekki um mjög mikið að ræða, aðeins breyt. á launakjörum fyrir einn mánuð, maí, sem mundi nema 130–140 kr. á þeim mánuði fyrir venjulega verkamenn hér í Rvík. Ég hef gengið út frá því, að ef þessar till. hv. fjhn. verði samþykktar hér af þeim flokkum í þinginu, sem sérstaklega telja sig vera forsvarsmenn verkalýðsstéttarinnar og þeirra stéttarfélaga, sem hún hefur myndað með sér, þá sé um leið fengin víssa fyrir því, að umrætt samþykki fáist.

Þá kem ég að V. kafla frv. hæstv. ríkisstj. og öllum þeim brtt., sem eru í sambandi við hann. Það er sá kafli, sem snýr að hag bændastéttarinnar í landinu. Um efni hans virðist hafa verið einna mestur ágreiningur, ekki eingöngu milli hæstv. ríkisstj. og hv. fjhn., heldur og að öðru leyti milli flokka og manna í umr. hér í þinginu og í blöðum undanfarnar víkur og mánuði. Í þeim till., sem hæstv. ríkisstj. leggur fram í sínu frv., varðandi landbúnaðinn, þá teljum við sumir í fjhn., að það sé gengið mjög alvarlega á rétt bændastéttarinnar og gengið svo langt í því efni, að ekki sé hugsanlegt, að slíkar till. nái samþykki hér á Alþ., sem betur fer. Þar er ætlazt til þess, að fært verði niður verð á landbúnaðarafurðum mjög verulega með lagaákvæði, og það er ekki svo um búið, að það sé ætlazt til, að sú verðlækkun sé bætt upp nema að litlu leyti. Varðandi mjólkina er gert ráð fyrir, að verðlækkunin verði úr kr. 1.75 í 1.23 á lítrann og það sé bætt upp í hálfan mánuð, en svo sé því hætt. Þetta er till., sem ég hygg, að enginn fulltrúi íslenzkra bænda geti sætt sig við. Enn fremur er það í frv. hæstv. ríkisstj., að það eigi að halda áfram með það, þar til vísitalan kemst niður í 200 stig, að lækka t.d. mjólk um 1% fyrir hvert stig, sem vísitalan lækkar um. Þetta mundi þýða það, að ef t.d. kaupgjald lækkaði, miðað við vísitölu, úr 220 stigum um 41/2%, þá þýddi það, að mjólkurverðið til bændanna ætti að lækka um 10%. Hæstv. fjmrh. hefur fatazt illa, þegar hann ætlast til þess, að nokkur alþm. taki það til greina, að hér sé verið að sýna réttlæti í afgreiðslu máls, miðað við jöfnuð milli stétta, eins. og hann talar svo hátíðlega um.

Síðari till. hæstv. ríkisstj., sem eru þannig til komnar, eins og hæstv. fjmrh. réttilega tók fram, að þær eru færðar í búning eftir þeim viðtölum, sem fram hafa farið milli fjhn. og hæstv. ríkisstj., síðan frv. var lagt fram og fjhn. fengu það til meðferðar, — þær eru því í raun og veru till., sem ekki eru upphaflega hugsaðar af hæstv. ríkisstj., heldur hafa komið fram í þeim viðræðum, sem farið hafa fram milli einstakra manna um málið. En þær eru þó þannig, að þær eru ekki aðgengilegar fyrir okkur, sem skiljum hag íslenzkra bænda, þannig að það geti náð nokkurri átt að ætlast til þess, að þær verði samþykktar. Í fyrsta lagi er í þessum till., að það eigi að hætta eftir lítinn tíma að borga þá milligjöf, sem niðurfærslan á mjólkinni kostar. Og enn á að gilda sama ranglætið varðandi frekara verðfall í sambandi við lækkun á vísitölunni. Það á enn fremur að byggja á verði landbúnaðarafurða 1939, bæta þar við 40% sem grunnverðsuppbót og láta svo verðið lækka samkvæmt vísitölu. Þetta er í alla staði svo óaðgengileg till., að það var alveg fullt samkomulag um það í fjhn., að þetta gæti engin sanngirni stutt. Ég segi fyrir mig, að því fer fjarri, að ég gæti hugsað mér slíka reglu gildandi. M.a. er það að segja, að þó að þessi regla geti að nokkru leyti gilt, ef hún er borin saman við einstök stéttarfélög, sem hafa samið um kaupgjald, þá fer því ákaflega fjarri, að hún sé neitt nærri því að svara til þess kostnaðarauka, sem hefur orðið við framleiðslu landbúnaðarafurða síðan 1939. Kaup við þá framleiðslu hefur aukizt þannig, að það hefur ferfaldazt til sexfaldazt síðan 1939. Vegavinnukaup, sem er það kaupgjald í landinu, sem mest áhrif hefur á kaupgjald við framleiðslu í sveitum, hefur fimm- til sexfaldazt á þessu tímabili. Og kaupið við landbúnaðarvinnu fer að mestu eftir því kaupgjaldi. Þegar ríkið sjálft býður fimmfalt til sexfalt kaup í hverri einustu sveit á landinu fyrir vegavinnu á við það, sem það var 1939, þá eru það nokkuð furðulegar till., sem koma frá hæstv. ríkisstj., og sýnir, að hún hefur ekki mikla þekkingu á því, sem á sér stað í íslenzkum sveitum, að þær afurðir, sem framleiddar voru við þann tilkostnað, skuli hækka aðeins um 40% að grunnverði frá því, sem var 1939, og eftir vísitölu þar ofan á.

Þegar alls þessa er gætt, þá virðist mér það liggja ljóst fyrir, að allir kaflar í frv. hv. stj., jafnvel hver einasta gr., er svo gallað, að hún ætti ekkert að furða sig á því, þó að örðuglega gangi að fá samþykki fyrir slíku hér á Alþ. Tvo aðalkafla frv. hefur stj. sjálf tekið aftur og þar með aðalatriði frv., og síðari till. hennar taka hinum fyrri ekki mikið fram. Ég er nú líka viss um, að ekki er til einn einasti þm., sem fáanlegur væri til að samþykkja frv. hæstv. ríkisstj. eins og það var lagt fram og ég efast um, að nokkur vildi samþykkja það með breyt., þegar stj. hefur tekið aftur og endursamið tvo aðalkafla þess, þá einu kafla, sem hægt er að nefna dýrtíðarráðstafanir.

Hæstv. stj. verður því að láta sér það lynda, þó að fjhn. hafi farið inn á nokkuð aðrar leiðir heldur en þær, sem felast í slíku frv. Hún getur ekki furðað sig á því eftir að hafa sjálf gerbreytt frv. sínu, þó að þm. sjái slíka vankanta á síðara frv. hennar, sem sumir eru þeir sömu.

Ég skal svo gera nokkurn samanburð á till. stj. og fjhn. um kaupgjald og afurðaverð. Við nm. teljum það vænlegast til árangurs varðandi breytingu á samningum um kaupgjald og laun að leita samþykkis þeirra aðila, sem breytingin bitnar á. Um það eitt er að ræða að borga eftir lækkaðri vísitölu í maímánuði, og mundi það nema 12.2% lækkun frá aprílvísitölu, miðað við 230 stig. Leiðtogar stéttasamtakanna eru flestir hér á Alþ., og ef þeir samþykkja, þá verður samkomulagið auðsótt, annars ekki. Lögþvingunaraðferðin hefur verið reynd, og ég hygg, að hæstv. stj. reyndist hún örðug, eins og nú er ástatt í landinu.

Varðandi landbúnaðarafurðir er sá munur á till. stj. og fjhn., að í fyrsta lagi vill ríkisstj. setja tvær n. til að undirbúa rannsókn og gera till. um afurðaverð og gildi meirihlutavald í hvorum tveggja. Önnur sé 6 manna n., hin 3 manna n. Fjhn. leggur til, að sett sé ein d manna n. og tillögur hennar fái því aðeins gildi, að hún verði sammála. N. er hugsuð sem rannsóknar- og samningan. Að meirihlutavald sé látið ráða um svo mikilsvert atriði að ákveða heildartekjur allra landbúnaðarmanna í hlutfalli við tekjur annarra stétta, getur valdið alvarlegum árekstrum. Gæti svo farið, að litið væri á slíku að græða. Segjum, að fulltrúar bænda yrðu í minni hluta, eða fulltrúar launamanna yrðu í minni hl. Hvorir um sig mundu sætta sig illa við ákvörðun meiri hl. og málið standa óafgreitt eftir sem áður. Með kröfunni um, að nm. verði sammála, eru þeir því knúðir til að leita í hví efni ýtrustu tilrauna. Hér veltur á miklu að ná árangri, og ef stilltir og gáfaðir menn veljast í n., má ákveðið reikna með góðum árangri.

Annars verð ég að segja það, að varðandi hagsmuni bændastéttarinnar legg ég mest upp úr því að fá það viðurkennt af öllum flokkum þingsins, sem lengi hefur verið aðalkrafa mín, að bað fólk, sem vinnur að framleiðslunni í sveitum landsins, eigi að fá sama kaup fyrir vinnu sína eins og það fólk, sem er í stéttarfélögum bæjanna. Þetta getur því aðeins orðið, að allar afurðir búanna séu teknar til greina við þennan vísitöluútreikning, sem ætlazt er til, að n. geri. Þessi atriði eru ekki komin frá stj., heldur fjhn. og hefðu enda litla þýðingu, nema samkomulag fáist og viðurkenning flokka Alþ. Varðandi kjötbirgðirnar frá síðasta ári, þá er skammt á milli ríkisstj og fjhn. um heimildir til að lækka útsöluverð þeirra. En stjórnin vill ekki að ríkið greiði nema 75% af mismuninum, en fjhn. leggur til, að þetta sé greitt að fullu, sem er í samræmi við eldri þingsamþykktir. Hæstv. stjórn vill ekki virða þær.

Um mjólkina munar því, að ríkisstj. vill færa útsöluverð hennar úr 1,75 kr. pr. lítra í kr. 1,23 pr. lítra og borga mismuninn í hálfan mánuð, en hætta svo. En fjhn. leggur til að færa útsöluverðið í kr. 1,30 pr. lítra og bæta hallann að fullu, að svo miklu leyti sem lækkuð vísitala kemur ekki til greina. — Miðað við vísitölu 230, eins og n. gerir ráð fyrir og þýðir 12.2% lækkun á kaupi, ætti mjólkin að lækka líka um 12 2% eða 21 eyri hver lítri. Afganginn, 24 aura pr. lítra, ætlast n. til, að ríkissjóður greiði.

Lækki vísitalan meira, vill, fjhn., að hlutföllin haldist eftir sömu reglu, en eftir tillögum stjórnarinnar ættu afurðir, eins og áður segir, að lækka um 10% ef kaupgjald lækkar um 4.5% á bilinu 230–200 stig í vísitölu.

Við teljum vænlegast til árangurs, að þetta sé gert með frjálsu samkomulagi. Ef forvígismenn verkamanna hér á Alþingi samþykkja þetta, er ástæða til að treysta því, að engar líkur séu til annars en verkamannasamtökin muni á það fallast og aðrir aðilar, sem hlut eiga að máli.

Varðandi landbúnaðarvörur er breytingin um kiötið frá því, sem er í till. ríkisstj. og A-till. fjhn., ekki önnur en sú, að mismunurinn, sem kjötið frá fyrra ári er fært niður um, skuli greiddur að fullu úr ríkissjóði, en aðeins að 3/4 samkv. till. ríkisstj., þó að því sé áður slegið föstu að greiða hann fyrr eða síðar allan, þ.e. að bændur fái það verð fullt, sem í haust var ákveðið á innanlandsmarkaði, og við það verður vitanlega að standa. Till. ríkisstj. um að greiða aðeins 3/4 er annaðhvort meiningarlaus eða með öllu óviðunandi.

Um útsöluverð munar litlu á till. n. og stjórnarinnar. En fjhn. Nd. hefur ekki getað fallizt á, — en skoðanir einstakra nm. um þetta eru nokkuð mismunandi, — að binda við sérstaka útreikningsaðferð. Útreikningsaðferð stjórnarinnar er sú, sem ég áður vék að, með verðgrundvöll frá 1939 að víðbættu 40%, auk vísítölu, þannig að því fer fjarri, að ég fallist á hana og þótt að svipaðri aðferð sé vikið í nál. fjárhagsnefndar, þá er það ekki í tillögum hennar, og hefur enga þýðingu til bindinga fyrir framtíðina. En að binda við þessa reglu, er sýnilega það, sem hæstv. ríkisstjórn ætlast til.

Hæstv. fjmrh. veik að því, að tillögur ríkisstj. væru til varanlegra bóta, en tillögur fjhn. að litlu eða engu nýtar. Hann gerir ráð fyrir að færa vísitöluna niður í 226 stig, en fjhn. í 230 stig. Líklega eiga þessi 4 stig að bjarga atvinnuvegum landins að dómi hæstv. ráðherra. Varanleikinn í tillögum hans og stjórnarinnar í heild á víst að felast í því að níðast á bændastétt landsins umfram allar aðrar stéttir. Fjhn. fellst eigi á þá leið og Alþ. væntanlega ekki heldur. — Að ekkert vinnist á, ef 6 manna nefndin verður eigi sammála, eins og hæstv. ráðh. vildi vera láta, er líka rökvilla Þó að svo færi, að verð landbúnaðarvöru yrði aftur fært upp í haust og hætt milligjöf, þá hefur vísitalan lækkað, ef eigi koma aðrar óviðráðanlegar orsakir til, og því eðlilegt að ákveða verðið í samræmi við þá vísitölu, sem þá er. Væri vísitalan í 230 í staðinn fyrir 262, ætti t.d. mjólkin að vera kr. 1.54 pr. lítrinn í stað 1,75, og annað eftir því. Allar röksemdir hæstv. ráðh. um varanleikann í tillögum stjórnarinnar og fánýtið í tillögum fjhn., eru því lítils virði, nema hann ætli að gegnumfæra þá stefnu hæstv. stjórnar að knýja niður verðið á afurðum landbúnaðarins gegn allri sanngirni og án samræmis við annað.

Háttv. frsm. veik að því, að framleiðslukostnaðurinn í sveitum mundi ekki lækka svo fljótt með lækkaðri vísitölu. Þetta er vítanlega rétt. Þótt vísitalan lækki í 230, hef ég enga von um lækkun frá því, sem er. En það gæti komið í veg fyrir þá hækkun, sem ella verður. Vegavinnukaup, t.d. norðan lands, hefur hækkað nærri um helming frá því í fyrra. Það lækkar í samræmi við lækkaða vísitölu að sjálfsögðu og hefur eðlileg áhrif á annað sveitakaup.

Hæstv. fjármálaráðh. taldi tillögur fjárhagsnefndar miða að því einu að kaupa frest um skamman tíma og kaupa hann háu verði. Svo er nú það. Hvert er þetta háa verð? Í fyrsta lagi allt að 2 milljónum króna til að lækka verð á kjöti fyrir neytendurna í landinu. Þetta er ekki eyðslueyrir, heldur tilfærsla á peningum, sem bændur fá með skatti á hátekjur, í stað þess að allir, sem neyta kjöts, borga þá sömu upphæð ella. Í öðru lagi allt að einni milljón króna til milligjafa til lækkunar mjólkurverðs. Um það er sama að segja. Ekki er það eyðslueyrir. Í þriðja lagi er svo framlag til atvinnutrygginga, 3 milljónir króna til að leggja í framkvæmdir til atvinnuaukninga í bæjunum eftir stríðið, þegar atvinnuleysi ber að höndum. Ekki er þetta eyðslueyrir. Stjórnin gæti kallað það geymslufé, og fjögurra manna n. á að setja reglugerð um hlutverk og meðferð á þessu fé í samráði við Alþýðusamband Íslands. Ég óttast þetta ekki neitt, en því er ef til vill öðruvísi háttað með hæstv. stjórn. Fyrir þessar upphæðir, sem þannig eru færðar til, fæst svo lækkuð vísitala, og það þýðir lækkuð gjöld ríkisins og stofnana þess, bæjar- og sveitarfélaga, samgöngufyrirtækja og allra atvinnuvega, og það án þess að launþegarnir fái verri aðstöðu. Þetta er dýru verði keypt, segir hæstv. ráðh.

Hæstv. fjmrh. var að tala um meðfætt pólitískt sundurlyndi í þessu sambandi og útmála hina ríku þörf, sem nú væri á því að standa saman og leggja til hliðar flokka og stéttahagsmuni. Það er nú næsta furðulegt fyrir háttv. alþm. að fá þetta sérstaklega framan í sig af því tilefni, að það skuli hafa komið einu sinni fyrir, að 5 manna n. með fulltrúum allra þingflokka hefur orðið á einu máli um afgreiðslu í viðkvæmasta og stærsta deilumáli, sem fyrir liggur. Það er eins og hæstv. stjórn sé þetta sérstaklega ógeðfellt, og í einu blaði stjórnarinnar er fjhn. skömmuð óbótaskömmum í dag og líkt við hreinustu spellvirkja. Þetta er víst af því, að n. hefur drýgt þá synd að komast að sameiginlegri niðurstöðu.

Ég verð nú að segja það, að okkur nm. kom það mjög á óvart, að hæstv. stjórn skyldi fyllast óánægju yfir því, að n. skyldi geta orðið á eina máli. Við töldum okkur vera að sýna viðleitni í þá átt að reyna til að bjarga því meðal annars fyrir hæstv. stjórn, að einhver árangur fengist. Ef við hefðum klofnað eftir flokkum, var hans ekki að vænta. Og nú mun hæstv. stjórn hafa um það að velja að fá ekkert samþykkt eða fá okkar tillögur samþykktar, lítið eða ekki breyttar.

Þær yfirlýsingar, sem fram hafa komið frá hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh.; um að þeir ætluðu sér eitthvað sérstakt, ef tillögur fjhn. yrðu samþykktar, hafa nú verið svo óljósar, að ég óska frá þeim ákveðinna skýringa. Hvað eiga þessir hæstv. ráðh. við? Ef þeir eiga við það, að þeir ætli að biðjast lausnar eða grípa til annarra róttækra ráðstafana, vegna þess að hætta sé á, að Alþ. komist að sameiginlegri niðurstöðu í þessu stóra og flókna vandamáli, þá verður það að leiða til opinberra reikningsskila frammi fyrir þjóðinni allri milli Alþ. og ríkisstj.

Hvað sem þessu líður, vænti ég þess, að háttv. d. komist að sömu niðurstöðu og fjhn.