08.04.1943
Neðri deild: 93. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Ég hefði kunnað betur við, að hæstv. fjmrh. væri viðstaddur, því að ég vildi víkja nokkrum orðum að honum. Þegar núverandi stj. tók við völdum, flutti hæstv. ráðh. allmargar ræður til þjóðarinnar um nauðsyn þess, að allir legðust á eitt, og háska þann, sem af mundi hljótast, ef þetta tækist ekki. Mörgum brá þess vegna í brún, þegar hæstv. stj. lagði fram þetta frv. sitt. Mönnum þótti þar kveða við annan tón en í sáttaræðum hæstv. ráðh. Þeim þótti hnefinn nokkuð greinilega reiddur á loft og þá fyrst og fremst að verklýðssamtökunum. Mönnum þótti að vonum hart, ef úrbótaráðstafanir hæstv. stj. yrðu eingöngu fólgnar í því að svipta verkamenn dýrmætasta rétti sínum, réttinum til samtaka og samninga við atvinnurekendur. Yfir þingið og fjhn. dundu því mótmæli úr öllum áttum. Fjhn. tók nú að vinna að málinu og einsetti sér að stuðla að því eftir mætti að finna samkomulagsgrundvöll. Hún hefur nú lagt fyrir þingið till. sínar um samkomulag til lausnar þessum vandamálum, og nú fær hún ávitur fyrir hjá hæstv. stj., sem talað hefur svo fagurlega um þegnskap og sameiningu allrar þjóðarinnar, og af munni hæstv. fjmrh. heyrum við nú, að ríkisstj. geti ekki unað við neina þá lausn, sem ekki feli í sér kúgun verklýðsfélaganna og lögfestingu kaupgjaldsins við. ákveðnar vísitölu, ásamt 12% kauplækkun þegar í stað. Þegar fjhn. Nd. er ákveðin í því að leggja till., sem hún álitur vænlegar til samkomulags, fyrir hv. d., þá lýsir hæstv. ríkisstj. yfir því, að slík lausn sé óviðunandi, og hæstv. fjmrh. lýsir yfir því, að með þessu sé verið að heimta af stj., að hún beygi kné sín fyrir verkalýðssamtökum þessa lands. Við þekkjum þennan tón og kunnum illa við hann. Okkur þykir hann bera of greinilegan keim af hroka ríka mannsins gagnvart hinum fátæka. Þessum mönnum virðist þykja það sjálfsagt, að verklýðssamtökin búi við ófrelsi, af því að í þeim eru fátækir menn. Það hefur áður komið fram hér á þingi, að Alþýðusamband Íslands er í augum hæstv. ríkisstj. ekki eins fínt félag og t.d. verzlunarráðið eða SÍS. Hæstv. fjmrh. kallar það m.a.s. „að beygja kné sín“ að leita samkomulags við verklýðsfélögin, en hæstv. stj. telur það hins vegar ekki eftir sér að brjóta l., ef um það er að ræða að þóknast verzlunarráðinu eða SÍS. Hún telur ekki eftir sér að beygja kné sín fyrir þeim samtökum. Í alþýðusambandinu eru ef til vill ekki eins fínir menn, þeir ganga ekki í eins fínum fötum, búa ekki í eins fínum villum. En það eru nú samt þeir, sem skapað hafa villurnar og framleitt auðinn, sem hinir státa af. Það eru þeir, sem flytja hingað vörurnar, er heildsalarnir hafa gróða sinn af. Við mundum að vísu ekki telja hæstv. fjmrh. og ríkisstj. í heild of góð til að beygja kné sín fyrir alþýðusambandinu, en við erum þó alls ekki að fara fram á neitt slíkt, heldur það, að verklýðsfélögin séu látin njóta jafnréttis. Við förum fram á það, að tekið sé eins mikið tillit þessara stærstu samtaka þjóðarinnar og annarra samtaka. Það er þetta, sem við eigum við með orðinu lýðræði, Við höfðum reyndar talið, að þótt vilji hæstv. stj. sé ekki betri en raun ber vitni um, þá væru hyggindi hennar meiri en svo, að hún vildi fara að efna til styrjaldar við þessi samtök, því að það hlyti að kosta nýja baráttu, ef fara ætti að kúga þau, og sú barátta mundi fara fram bæði utan þings og innan. Frelsi verklýðssamtakanna til að ráða sjálf málum sínum er þeim dýrmætara eru allir fjársjóðir, og þau munu ekki láta hann af hendi baráttulaust. Verklýðssamtökin hafa fullan hug á að knýja það fram, að þessi réttur þeirra sé viðurkenndur, og þau hafa afl til að knýja það fram.

Ég teldi æskilegt, að það kæmi fram, hvort hæstv. ríkisstj. ætlar að gera það að fráfararsök, ef verklýðssamtökin í landinu verða ekki beygð undir kúgunarokið. Ég skil till. fjhn. svo, að með þeim sé leitazt við að ná samkomulagi stéttanna og afstýra deilum, sem annars gætu komið upp, en mér virðist allt annað felast í till. hæstv. stj. Auk þess sem ég fordæmi algerlega þá kúgunarstefnu, sem kemur fram í till. hæstv. stj., vil ég spyrja bana: Með hvaða valdi ætlar hún að framkvæma þessa stefnu? Hér er raunverulega um tvær stefnur að ræða, og önnur hvor hlyti að verða ofan á.

Það kann að vera, að ýmsir aðrir hefðu fundið betri lausn málanna en við, sem starfað höfum í fjhn. Við höfum gert það, sem við gátum bezt, og ekki reynzt færir um að finna betri lausn með því að þurfa að taka tillit til allra þeirra aðila, sem hér koma til greina. Það er talað um það af miklum fjálgleik, að menn verði að hefja sig yfir togstreitu stéttanna og láta þau sjónarmið ráða, sem miðast við almenningsheill. En ég vil vekja athygli á því, að þessar stéttir eru einmitt þjóðin sjálf, almenningsheill er heill verkamanna, bænda o.s.frv. Það er hægt að skapa kúgunarvald, innlent eða erlent, en það er ekki hægt að skapa raunverulega lausn vandamálanna nema með samkomulagi stéttanna tveggja eða fleiri. Landinu hefur að vísu löngum verið stjórnað með kúgun. Verkalýðsstéttin hefur orðið að þola áþján og ofbeldi yfirstéttarinnar. En við vonum, að þeir tímar séu nú á enda. Verklýðsstéttin er orðin svo öflug, að hún þarf ekki lengur að sætta sig við kúgunina. Og vilji menn ekki leita eftir erlendu kúgunarvaldi, þá er ekki um annað að ræða en leita samkomulags við verkalýðsstéttina. Stéttirnar verða sjálfar að koma sér saman. Það er að vísu ekki að svo stöddu hægt að afnema togstreitu stéttanna, því að hún er sjálfur grundvöllur þess þjóðfélagsskipulags, sem við eigum við að búa. Baráttunni milli þessara stétta mun halda áfram, á meðan grundvöllur þjóðfélagsskipulagsins er það, að litill minni hluti á framleiðslutækin og lifir á vinnu meiri hlutans. Þessi togstreita er frá sjónarmiði verkamanna og bænda barátta um líf þeirra og frelsi. Í þessari baráttu hafa oft verið færðar þær dýrustu fórnir, sem hægt er að færa. Hitt er annað mál, hvort þessum stéttum finnst á hverjum tíma ástæða til að heyja þá baráttu af fyllsta vægðarleysi. Margir telja, að nú sé á ferðum sérstakur voði fyrir þjóðina, ekki fyrst og fremst vegna dýrtíðarinnar, heldur vegna sterkra áhrifa, sem flæða hér yfir. Og það yrði að teljast mikill ábyrgðarhluti að fara nú að efna til ófriðar milli stéttanna, á meðan ekki er sýnt, að ein eða fleiri þeirra séu nógu sterkar til að stjórna landinu, þar til lausn væri fengin. Fyrir rúmu ári var reynt af hálfu þeirra, sem telja sig fulltrúa bændastéttarinnar, að beita hörðu við verkalýðsstéttina, og við vitum, hvernig fór. Nú er svo ástatt, að engar stéttanna hafa reynzt þess megnugar að mynda stjórn. Til þess er kraftajafnvægi stéltanna of mikið, og þetta jafnvægi hlýtur að haldast, á meðan því er ekki breytt fyrir átök stéttanna sjálfra. Við í fjhn. höfum í till. okkar aðeins verið að reikna með raunverulegum kraftahlutföllum stéttanna í landinu. Við höfum ekki sérstaklega verið að ber jast fyrir hagsmunum sérstakra stétta, heldur höfum við reynt eftir megni að komast að því, um hvað þessar stéttir gætu komið sér saman og hvað þær gætu sætt sig við á núlíðandi tímum. Við höfum vafalaust hver um sig sína ákveðnu skoðun á þessum till., og hver um sig mundi óska þess, að þær væru öðruvísi. En þessar till. fjhn. eru einmitt komnar fram með tilliti stéttanna, það er þjóðarinnar. Það hefur verið sagt, að þjóðin biði eftir till. til úrlausnar. Ég held, að þessar till. fjhn. séu þær, sem þjóðin getur sætt sig við, eins og nú stendur á. Í sambandi við þessar till. n. hefur verið talað um það, að með þeim sé of langt gengið, að því er snertir uppbætur til bænda. Ég skal ekki draga dul á það, að ég hefði viljað hafa þetta atriði nokkuð öðruvísi. En ég vil spyrja hv. þm. og hæstv. ríkisstj.: Ef sett væru l. á þessu þingi, sem bændastéttin teldi, að væru skerðing á rétti hennar, með hverju ætti þá að framfylgja þeim l.? Bændur framleiða mest af þeim mat, sem við lifum á, meðan aðrar þjóðir í Evrópu eiga að búa við skort og fólk deyr jafnvel úr hungri hundruðum þúsunda saman. Vilja menn stofna til illdeilna við bændur á slíkum tímum? Mér virðist það ekki ráðlegt. Ég stakk upp á því í fjhn., að leitað væri álits bænda um það, hvort ekki væri rétt að leggja uppbæturnar til þeirra í sjóð, sem notaður væri þeim til styrktar að stríðinu loknu, en fulltrúar þeirra vildu ekki fallast á það. Og á meðan skoðanir bænda eru ekki öðruvísi, sé ég ekki, hvernig verkalýðsstéttin eða þingið eða þá ríkisstj. ættu að taka sér vald til að kúga þá. Við getum verið misjafnlega ánægðir með þessa lausn, sem náðst hefur. Ég tel t.d., að fulltrúar bænda hafi spennt bogann of hátt. En ég tel jafnfráleitt að beita bændastéttina ofbeldi og verkalýðsstéttina.

Þá kem ég að því atriði í þessum till., sem er algert nýmæli í okkar l. Þar er ríkisstj. sem sé fyrirskipað að leita samkomulags við Alþýðusambandið og fá það til að fallast á, að verðlagsuppbót fyrir maímánuð sé reiknuð eftir vísitölunni í. maí, en ekki mánuði áður, en það mundi þýða 12% lækkun á launum verkamanna í maí. Með þessu væri farið fram á, að verkamenn afsöluðu sér þessu af frjálsum vilja, en það er fórn. Fyrir mann, sem hefur svo sem 1100 kr. að lifa af á mánuði, er það ekki lítil fórn að afsala sér á annað hundrað kr. mánaðarlega. Og ekki er farið fram á, að þetta sé bætt upp. En hins vegar er ríkisstj. heimilað að leggja 3 millj. kr. í sérstakan sjóð, atvinnutryggingarsjóð, sem notaður verði til að tryggja verkamenn fyrir atvinnuleysi.

Ég álít eðlilegast, að svona sjóður yrði stofnsjóður til að tryggja verkamenn gegn atvinnuleysi í sambandi við alþýðutryggingarnar. Það var ákveðið, þegar alþýðutryggingarlögin voru sett á árunum, að einn þáttur þeirra skyldi vera atvinnuleysistryggingar. Var gengið út frá því, að ríkið legði fram allt að 75 þús. kr. í þennan sjóð. Þetta framlag hefur aldrei verið greitt, því að lögin voru svo illa úr garði gerð, að þessi þáttur þeirra hefur aldrei komið til framkvæmda. Nú er talað um það með hverri lýðræðisstjórn, að ef menn vilji viðhalda lýðræði og mannréttindum eftir styrjöldina, þá verði að útrýma atvinnuleysinu, koma algerlega í veg fyrir, að það komi aftur. Þetta þykir sjálfsagt hjá hverri þjóð, þar sem lýðræðisskipulag er, og nú er unnið að því ýmist að koma upp atvinnuleysistryggingum eða endurbæta þær, sem fyrir hafa verið. Ég hafði ekki búizt við því, að íslenzka þjóðin vildi vera eftirbátur annarra lýðræðisþjóða í þessu efni. Ég hef gengið út frá því, að ef Bretland og önnur lönd, sem hart verða úti í þessari styrjöld og verða að borga stríðskostnað, sem nemur upphæðum, sem okkur óar við að nefna, geta lagt út í að skapa fullkomnari alþýðutryggingar en nokkru sinni fyrr, þá geti íslenzka þjóðin, sem hefur grætt á þessari styrjöld, skapað fullkomnari tryggingar hjá sér en nokkur önnur þjóð, ef menn vilja tryggja alla borgara þessa lands gegn sjúkdómum, atvinnuleysi og hverju öðru böli, eftir því sem hægt er með þjóðfélagslegum tryggingum.

Alþýðutryggingunum var komið á eftir óskum verkalýðssamtakanna. Það hefur verið óskað eftir, að þær yrðu fullkomnari. Það er óskað eftir tryggingum gegn atvinnuleysi, sem séu vel úr garði gerðar. Ef verkamennirnir eiga nú á árinu 1943 að borga úr sínum vasa 12% af launum sínum, þá er sanngjarnt, að því fé sé varið til að stofna sjóð, sem gangi inn í alþýðutryggingarnar, og verði slíkur stofnsjóður í samræmi við l. eins og þau mundu verða, ef þeim yrði breytt þannig, að þau yrðu notuð, sjóður, sem verkamannasamtökin eða atvinnuleysissjóðir þeirra ættu aðgang að, ef til þess kynni að koma, að borga þyrfti tryggingarfé vegna atvinnuleysis Enginn óskar síður eftir því en verkamannastéttin, að til þess þurfi að koma, að atvinnuleysissjóðirnir yrðu notaðir til að borga úr þeim einhvern hungursskammt, til þess að verkamenn geti dregið fram lífið, meðan þeir eru atvinnulausir. Það er ósk verkamannastéttarinnar að hafa næga atvinnu, — alltaf næga atvinnu. Hitt er aðeins neyðarráðstöfun, ef það versta skyldi verða, ef þjóðarheildin skyldi bregðast þeirri skyldu sinni að sjá svo um, að þjóðfélagið verði þannig eftir stríðið, að allir, sem vilja vinna, geti fengið vinnu.

Ég vil strax taka af öll tvímæli um það, ef einhver skyldi vera með ótta um, að þess háttar sjóðir, sem tryggja verkamenn gegn atvinnuleysi, yrðu notaðir, ef verkamenn væru atvinnulausir vegna verkfalls. Slíkt kemur ekki til mála. 71. gr. l. um verkföll hljóðar þannig með leyfi hæstv. forseta:

„Staðfestur atvinnuleysissjóður má ekki veita atvinnuleysisstyrk:

1. Til manna, er taka þátt í verkfalli eða verkbann nær til.“

Mín hugmynd með þessum sjóði er, að honum sé varið til að skapa tryggingu gegn atvinnuleysinu, og við vitum, að þar sem slíkir sjóðir eru til, er þeim venjulega ekki eytt, heldur eru þeir hafðir sem bakhjarl. Þeir eru myndaðir af framlögum ríkis, bæja og verkamanna og eru svo sterkir, að þeir eru oft lánaðir út að nokkru leyti til ýmissa gagnlegra framkvæmda.

Hæstv. fjmrh. segir, að þessar 3 millj. kr. séu betur komnar, sé þeim varið til að berjast móti dýrtíðinni. Við skulum ekki gleyma því, að fleira þarf að gera nú sem stendur heldur en aðeins að eyða fé til að kaupa niður dýrtíðina. Það þarf líka að leggja grundvöll að okkar þjóðfélagi eins og það á að verða eftir stríðið. Þegar bændur fá persónulega útborgað það, sem fer til að kaupa niður dýrtíðina. eða a.m.k. meiri hlutann af því frá sjónarmiði þeirra, sem sækja þeirra mál fastast, þá finnst mér ekki ósanngjarnt af hálfu verkalýðsins, að það, sem verkamenn verða að greiða úr sínum vasa, fari til að tryggja menn gegn atvinnuleysi að styrjöldinni lokinni.

Ég skal svo láta útrætt um þann kafla, sem mest hefur verið deilt um í sambandi við þetta mál, en snúa mér ofurlítið að þeim kafla, sem ætlazt er til að fella niður eða breyta.

Eins og form. n., hv. þm. V.-Ísf., skýrði frá í framsöguræðu sinni, höfum við 3 komið okkur saman um, þegar séð yrði um afgr. þessa máls, ef það fer á þann veg, sem brtt. gera ráð fyrir, að leggja til, að skipuð verði sérstök mþn., sem hafi lokið störfum fyrir 15. ágúst, til þess að gera till. um breyt. á skattalöggjöfinni, sérstaklega viðvíkjandi eignaaukaskatti. Uppgjör stríðsgróðans hefur ekki farið fram hér á landi, þó að þessi dýrtíðarlög verði samþ. Það geta verið mismunandi skoðanir um það, hvort það eigi að fara fram nú eða síðar á þessu ári, á þinginu, sem byrjar nú eftir nokkra daga. Ég býst við, að það hafi ekki sérstaklega mikla þýðingu, hvort verður gert, en það er engum vafa bundið, að í sambandi við þetta uppgjör og þann eignaraukaskatt, sem hlýtur að verða lagður á, þegar reikningarnir verða gerðir upp eftir öll þessi stríðsgróðaár, þá koma fram mjög eindregnar kröfur af hálfu verkamannastéttarinnar um, að fé, sem þarna fæst, verði varið til þess að tryggja betur þeirra afkomu en verið hefur. Ég skal engu spá, hvort hægt er nú að ná samkomulagi um þær till., sem verkalýðshreyfingin mundi geta sætt sig við. Ég þarf ekki að lýsa skoðun minni gagnvart því. Ég hef gert það svo oft. Ég vil aðeins segja frá því, að ég hef lagt fram í fjhn. till., sem ég álít persónulega, að væru réttlátar, till., sem búa þannig um hnútana viðvíkjandi endurbyggingarsjóðunum, að tryggt sé, að þeim verði ekki varið í taprekstur, heldur verði hægt að byggja fiskiflotann upp fyrir þá seinna meir. Ég lagði fram till. um mjög mikinn eingaraukaskatt, sem að okkar áliti ætti að gefa 10–20 millj. kr. Samkomulag varð ekki um þessar till. í n. Meiri hl. n. var á því, að rétt væri að fresta stærstu atriðum þessa máls, og það er mín skoðun, að eins og nú horfir við, sé heppilegast að halda fast við það, sem n. leggur til.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að því, sem einn hv. meðnm. minn, hv. þm. V.- Húnv., minntist á viðvíkjandi útreikningnum um hækkun hjá verkamönnum og bændum. Það er ekki til að vekja deilur um það, heldur til hins, að bæði sjónarmiðin, sem fram komu í n., komi greinilega fram í d.

Við höfum, eins og brtt. bera vott um, gengið til samkomulags hvorir við aðra. Hins vegar hafa nm. gert grein fyrir því í nál., hvernig þeir hafi reiknað þetta út. Hv. þm. V.-Húnv. vill halda fram, að hækkun á kaupi verkamanna sé upp undir 60–70%. Sannleikurinn er sá, að það sem deilt er um, er það, hvað leggja skuli til grundvallar, og við getum rifizt um það fram og aftur í þinginu. Ein af ástæðunum til þess, að. við leggjum til, að þessi n. verði sett, er einmitt sú, að þetta rifrildi er bezt komið í höndum fulltrúa beggja aðila, þar sem þeir geta lagt fram sín rök og deilt um þau. Hv. þm. V.-Húnv. reiknar þannig, að hann tekur tímakaupið eins og það var fyrir stríð. Hann tekur tímakaupið eins og það var fyrir stríð, kr. 1,45, og reiknar hækkunina út frá því. Þá var vinnutíminn 10 stundir, en nú 8, sem er þá það, sem er „normalt“ nú. Það þýðir það, að atvinnurekandi, sem ræður verkamann einn dag, ræður hann nú til að vinna í 8 stundir í stað 10 áður. Atvinnurekandinn gerir þetta m.a. vegna þess, að það er reynslan í öllum löndum Evrópu, að menn afkasti jafnmiklu á 8 stunda vinnudegi eins og 10. Það er því vitanlegt, að það verður 8 stunda vinnudagur, sem eftirleiðis verður miðað við í samningum, og það verður 8 stunda vinna, sem verkalýðurinn hefur til að lifa af. Það er því rangt að miða ekki útreikninginn við 8 stunda vinnudag. Grunnkaup Dagsbrúnarmanna er nú kr. 16.80, og er grunnkaupshækkunin því 16%. En ef svo er unnið lengur, unnin eftirvinna, þá er vinnudagurinn orðinn það langur, að það er skaðlegt heilsu manna og gefur verri vinnuafköst. Eftirvinnan gengur því út yfir heilsu manna og menningarstörf og ætti helzt ekki að eiga sér stað, og sums staðar eru slík vinnulaun undanþegin skatti. Þetta þurfa menn að athuga, þegar þeir reikna þetta dæmi. Meginið af verkamönnum hér í bæ vinna nú 8 tíma. Á þá að reikna með þeim kjarabótum, sem tveggja tíma yfirvinna mundi veita þeim, þegar þeir hafa ekki færi á að fá þá vinnu.

Hv. þm. V.- Húnv. áleit rétt að taka tillit til þess við ákvörðun á verði landbúnaðarafurða, að það hefði ekki verið hægt að selja nema nokkurn hluta af þessum vörum, en hitt yrði ónýtt. Þetta eru rétt rök frá hans sjónarmiði, en þau eru líka rétt frá sjónarmiði verkamannsins, sem vinnur í 8 tíma, því að honum finnst hart, að sér sé reiknað til kjarabóta á grunnkaupi sú vinna, sem hann vinnur ekki. Ég tek þetta aðeins fram, til að báðar skoðanirnar kæmu fram, en ekki til að vekja deilur um þetta atriði. Þetta var oft rætt í fjhn., og það verður líka rætt í 6 manna n., sem lagt er til að skipa til þess að reyna að finna samningagrundvöll í þessum málum. Ég held, að það sé því þýðingarlítið að vera að endurtaka fram og aftur sömu rökin á þessu stigi málsins.

Ég vil svo að endingu lýsa yfir þeirri skoðun minni viðvíkjandi því, hvernig bera skuli upp till., sem fram hafa komið. Ég álít, að fyrst eigi að bera upp brtt. fjhn. Þá fæst úr því skorið, hvort samkomulagsstefnan eða kúgunarstefnau skuli ráða í dýrtíðarmálunum. Það væri æskilegt, enda er það ósk allrar n., að aðrar till. en hennar verði teknar aftur til 3. umr. Það ætti ekki að neinu leyti að skaða.