09.04.1943
Neðri deild: 94. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í B-deild Alþingistíðinda. (928)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Mér skildist á hæstv. félmrh. í fyrstu ræðu hans, að þegar hann var að gera sér grein fyrir því, hvað vinnukostnaður hjá bændum hefði aukizt mikið frá því fyrir stríðið, þá hefði hann reiknað með því, að þeir sjálfir og skyldulið þeirra, sem vinnur með þeim að búskapnum, fengi í grunnkaupshækkun hlutfallslega svipað eða eins mikið og verkamenn hér í Rvík, í Dagsbrún, hefðu fengið. Þetta álít ég, að geti ekki leitt til sanngjarnrar niðurstöðu, þegar á það er litið, eins og ég og fleiri höfum bent á, að kauphækkun annars staðar á landinu, og einkum í sveitum, hefur orðið hlutfallslega miklu meiri heldur en hér í Rvík. Við getum hugsað okkur, að það hljóti að vera erfitt fyrir bónda t.d., sem á börn, sem eru að vaxa upp og vinna hjá honum, að greiða þeim aðeins kauphækkun tilsvarandi við þá, sem orðið hefur hér í Rvík, þegar allt í kring í sveitunum vinna menn, sem hafa fengið meira en helmingi meiri grunnkaupshækkun frá því fyrir stríð heldur en verkamenn hér í Reykjavík. Ég tel, að þarna sé brunninn þráður í taug hæstv. félmrh. Hæstv. félmrh. vildi, að mér virtist, telja ríkisstj. það til gildis, að hún vildi borga bændum verðlækkun á kjötbirgðum frá fyrra ári að 3/4 hlutum. Ég held, að það sé ekki hægt að telja þetta neitt sérstaklega þess vert, að orð sé á því gert sem rausn í þessu efni, þegar litið er á það, að útreikningar hæstv. ríkisstj. og samanburður á verði og kaupgjaldi eru byggðir á því, að bændur hafi fengið fullt verð fyrir þessar afurðir árið, sem leið, og það sé því ekki hægt að telja það hlunnindi, þótt staðið sé við að láta þá hafa það. Ég tel, að það a.m.k. mundi raska þessum útreikningum hæstv. ráðh. og útkoman verða enn óhagstæðari fyrir bændur, ef þetta atriði væri tekið með í reikninginn, en þessi till. ríkisstjórnarinnar, að hún vill láta bændur bera hluta af þessum byrðum, verðlækkuninni. En hæstv. ráðh. mun ekki hafa tekið það með í útreikningum sínum.

Hæstv. félmrh. talaði um það, að ef vísitala lækkaði, þá ykist verðgildi peninganna, sem bændur kynnu að eiga. En það gildir um allar stéttir jafnt í þjóðfélaginu, svo að ekki verður álitið, að bændur einir eigi að taka á sig byrðar þess vegna.

Þá flutti hv. 2. landsk. þm. (ÞG) ræðu hér áðan. Áður hafði hann látið nægja að grípa fram í, þegar ég var að tala, en svo flutti hann loks ræðu, þegar ég hafði að mestu lokið mínum ræðutíma við þessa umr. En ég vænti, að hæstv. forseti leyfi mér nokkra aths.

Hv. 2. landsk. hélt því fram, að það væri ekki hægt að byggja á útreikningum mínum um meðaltalstímakaup í dagvinnu. Sagði hann, að ég hefði í gær talið það hafa hækkað um 65%, en í dag hefði ég talið það hafa hækkað um 76%. Hvort tveggja er þetta rétt. Ef við aðeins tökum kauphækkanir utan Rvíkur, í 39 félögum, þá eru það 76% að meðaltali, en ef við tökum fjölmennasta félagið með, Dagsbrún, þá verður hækkunin 65%. Hækkun grunnkaupsins hefur orðið minni í Rvík heldur en annars staðar, sem dregur meðaltalshækkunina niður. Ég varð þess líka var, að hv. 2. landsk. þm. treysti sér ekki til að hrekja útreikning minn á neinn hátt. Ég gerði glögga grein fyrir mínum útreikningi, og ég geri ráð fyrir, að flestir hv. þm. hafi skilið þetta, — auðvitað að hv. 2. landsk. þm. undanskildum. Hann segir, að verkamenn fái ekki auknar tekjur við styttingu vinnudagsins, bara meiri hvíld daglega. En eiga þá ekki bændur að fá tilsvarandi fríðindi? Getur ekki verið gott fyrir þá og gagnlegt að fjölga tómstundum sínum einnig? Ef verkamenn stytta vinnudaginn um 20%, þá þurfa bændur að fá á móti því 25% hækkun á afurðaverði, til þess að vera jafn vel settir, því að framleiðsla þeirra minnkar um 20%, og til þess að jafna það, þurfa þeir að fá 25% hækkun á því, sem þá er eftir.

Hv. 2. landsk. þm. segir, að grunnkaupshækkunin sé „litið yfir 16%“ eða „milli 16 og 24%“ að meðaltali, ef borið er saman kaup fyrir 8 stunda vinnu nú við 10 stunda kaup áður. En það er sýnilegt, að um þetta veit þessi hv. þm. jafn litið eins og allt annað í þessu máli. Og ég ætla að gera tilraun til að uppfræða hann ofurlitið um það atriði, þó að ég efist reyndar mjög um árangurinn. Ég skal þá segja honum það, að verkamenn í þessum oft nefndu 40 verkamannafélögum fá nú að meðaltali í grunnkaup 32% hærri fjárhæð fyrir 8 stunda vinnu heldur en þeir fengu fyrir 10 stunda vinnu áður. Svo kemur vísitöluhækkunin þar ofan á. Til þess að fá sömu fríðindi, þurfa bændur að fá 25% hækkun á afurðaverði sínu. Og þá verður nákvæmlega sama niðurstaðan um afurðaverðið, hvor aðferðin sem er notuð. Ég get ekki gert að því, þó hv. 2. landsk. skilji þetta ekki — ég ber enga ábyrgð á því. Og ég tel alls ekki sanngjarnt, að ég skuli fá hér skammir og fúkyrði, þó að hann botni ekkert í þessu máli. Hann hefur ekki hrakið neitt af því, sem ég sagði, enda getur hann það ekki. En ég skal víðurkenna það, að þó það sé allt rétt, sem ég hef um þetta sagt og reiknað út nú, þá getur orðið að byggja þessa útreikninga á allt öðrum grundvelli og niðurstaðan orðið önnur, ef stefna sósíalista kemst í framkvæmd. En samkv. brtt. frá þeim, sem hér liggja fyrir, virðast þeir ætla að stefna að því, að í framtíðinni verði verkamönnum greitt mismunandi hátt kaup, eftir því, hvað þeir hafa haft miklar tekjur næsta ár á undan. Því að ef þetta á að gilda um bændur, að þeir eigi að fá mismunandi afurðaverð í ár eftir því, hvað þeir hafa haft miklar tekjur í fyrra, þá hlýtur þetta að eiga að gilda um verkamenn líka, að þeir fái mismunandi hátt kaup fyrir hverja vinnustund, eftir tekjum sínum árið á undan. Svona vilja sósíalistar hafa þetta — það getur vel verið heppilegt(!) — Þó hef ég nú ekki til fulls áttað mig á því, hvernig það verkar fyrir atvinnulífið í landinu og þjóðarheildina. En þeir hafa náttúrlega athugað þetta gaumgæfilega, ekki er að því að spyrja. En komist þetta í framkvæmd, yrði að byggja útreikninga kaupgjaldsins á öðrum grundvelli og útkoman yrði önnur. En þetta er nú ekki komið til framkvæmda enn, og þess vegna hef ég byggt útreikninga mína á því, sem nú gildir. Og ég held því fast fram, að þeir séu réttir.

Hv. 2. landsk. þm. sagði, að ég sýndi verkamönnum óvild, og hann notaði um það ljótari orð, sem ég vil ekki hafa eftir. En hvað hef ég gert hér í umr., sem bendir til þess, að mér sé illa við verkamenn? Jú, ég las upp úr skýrslum, sem Alþýðusamband Íslands gaf út 1939 og nú í ár, og ég reiknaði með, að eitthvað væri hægt að byggja á þessum skýrslum, eða að þær væru réttar. Ég leyfði mér að byggja útreikning minn á þeim. Einnig hef ég leitt í ljós í þessum umr. það, sem verkamannaleiðtogarnir, og þá ekki sízt sósíalistar, hafa bæði í blöðum og á mannfundum kallað sigra verkalýðsins, Ég hef oft séð greinar í blöðum, þar sem talað hefur verið um það sem mikinn sigur verkamanna, þegar þeir fengu hærra kaup. En nú virðist þetta vera skoðað svo, sem það sýni óvild gagnvart verkamönnum, ef bent er á, að verkamannastéttin vinnur þessa stóru sigra. Nú má ekki reikna út, hvað þeir hafa fengið miklar kauphækkanir. Ég á nú satt að segja hálf-erfitt með að skilja, að þetta, sem ég hef nefnt, lýsi sérstaklega slæmum hug í garð verkamanna. Orðbragð þessa þm. (ÞG) í ræðunni hér áðan er eitt af mörgum dæmum um það, að þegar sumir menn komast í rökþrot í umræðum á þingum og mannfundum, þá grípa þeir oft til slíks, enda kom það glöggt í ljós, að hv. 2. landsk. þm. var í slæmu skapi, þegar hann flutti ræðu sína. Það var kannske eðlilegt; hann hafði farið illa út úr orðaskiptum hér í dag við tvo Alþfl.-þm. um sérstakt atriði, og við hv. þm. V.- Sk. Og svo að síðustu gat hann ekki fært hin minnstu rök fyrir því, að útreikningar mínir væru rangir, enda hefur hann ekki reynt það, þótt hann langi til þess. Allt þetta mótlæti hefur farið í taugarnir á honum og komið fram í munnsöfnuði hans. En þetta orðbragð gerir mér ekkert til og haggar ekki einum staf í útreikningum þeim, sem ég hef birt, eða þeim rökum, sem ég hef fært fram.