09.04.1943
Neðri deild: 94. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Félmrh. (Jóhann Sæmundsson):

Ég vil víkja nokkrum orðum að ræðu hv. þm. V.-Sk. Hann hélt því fram, að tölur þær, sem ég fór með í ræðu minni í gær, hefðu verið mikið út í loftið, eftir því sem mér skildist. Þó vildi hann ekki slá því alveg föstu og vildi, að ég birti þær. Það ætla ég líka að gera.

Hann sagði vígalega, að ég hefði alveg gengið fram hjá vegavinnukaupinu. En það hefur oft verið sagt hér í hv. d., að það hafi fimmfaldazt, og það er rétt. En hitt vita og allir, að flestir þeirra, sem vegavinnu vinna, eru úr sveit og litlu þorpunum. Ég hef hér skýrslu frá vegamálaskrifstofunni. Samkv. henni voru unnin 174256 dagsverk í vegavinnu árið 1941 af 3204 mönnum. Meðalkaup varð kr. 18.39. Það er tekið yfir heildina, en í skýrslunni er tekið fram, að nálega 1/5 hluti þessara manna hafi verið unglingar á aldrinum 12–16 ára. Síðasta ár voru 5200 menn í vegavinnu; af þeim voru 3700 úr sveit, en 1500 úr kauptúnum. Nú vil ég ekki segja, að kaupgreiðslur hafi runnið til bænda í réttu hlutfalli við tölu sveitamanna í vinnunni, þar eð vitað er, að þeir vinna aðallega í vegavinnu haust og vor og hafa því skemmri vinnutíma en þeir, sem eru úr kauptúnum, sem eru oft allt sumarið. En ég vildi leggja áherzlu á þetta, af því hv. þm. taldi mig vilja hafa rangt við.

Þá vil ég benda hv. þm. á eitt, um mjólkina. Ég sagði í gær, að meðalverð til bænda fyrir mjólk síðasta ár hafi verið um 87.72 aurar pr. lítra. En í Tímanum frá 20. marz s.l. er skýrsla frá forstjóra mjólkursamsölunnar, þar sem sagt er að samsalan hafi fengið kr. 1.16 að meðaltali fyrir hvern mjólkurlitra og skilað kr. 1.14 til félaga bænda. En þó þetta standi í Tímanum og sé fallegt, þá haggar það ekki þeirri staðreynd, að til bændanna sjálfra runnu ekki nema 87.72 aurar. Það er svo margt á milli þess, sem greitt er til félaga bænda og bændanna sjálfra, eins og t.d. Flóabúið, flutningar á milli og margt fleira. Ég veit, að 51/2 eyrir gengur til mjólkurstöðvarinnar og að hún er eign bænda. En mér dettur ekki í hug að telja þetta greitt til bænda. Ef þetta er kallað að fara óheiðarlega með tölur, þá veit ég ekki, hvernig á að fara heiðarlega með þær. Ég hef a.m.k. ekki farið vísvitandi með rangt.

Hv. þm. hélt því fram, að kaupgjaldið mundi verða hærra í sumar en áður. Þetta er rétt, ef dýrtíðin helzt óbreytt. En afleiðingin verður auðvitað sú, að afurðaverðið hlýtur að hækka í haust. Okkur ber því saman um það, að verðlag landbúnaðarafurða hljóti að hækka í haust að öðru óbreyttu, og því ber að lækka dýrtíðina að mínu áliti.

Það er fróðlegt að geta um þau áhrif á gildi peningaeigna þjóðarinnar, sem lækkun dýrtíðarinnar hefur í för með sér. Um síðustu áramót munu innieignir þjóðarinnar hafa verið um 375 millj. kr., varlega áætlað. Ef vísitalan væri nú lækkuð ofan í 220 stig, þá yxi kaupmáttur þessarar upphæðar um 20%, eða 75 millj. kr. Þetta þýðir, að þjóðin getur keypt vinnuafl fyrir 75 millj. meira en ella. Hvert stig í vísitölunni kostar 160 þúsund. Hver 5 stiga lækkun sparar því 8 millj. Ég bið hv. dm. að gera sér í hugarlund, hversu ódýrari hitaveitan mundi verða, ef vísitalan væri lækkuð niður í 220. Hið sama mætti segja um rafvirkjanir og margt fleira. Við mundum fá 20% meiri vegi og fleiri brýr.

Gizkað er á, að útsvörin í ár verði um 20 millj. Þau ganga til að mæta útgjöldum bæjanna, sem eru mest rekstrarútgjöld. Mikið af þeim er greidd vinnulaun. Þau mundu öll lækka um 20%. Eins er um húsabyggingar. Öllum ber saman um, að hús séu nú afar dýr. Mikill hluti kostnaðarins er vinnulaun: Ef við lækkum dýrtíðina niður í 220, þá fáum við 20% meira vinnuafl á öllum sviðum fyrir sömu peninga. En ef við lækkum ekki dýrtíðina, þá munu ókomnir tímar súpa af því seyðið. Þeir munu þurfa að standa undir greiðslum hennar vegna árum saman. Og það munu verða erfiðir tímar. En ef við lækkum vísitöluna niður í 220, þá er hún aðeins orðin 7% hærri en síðasta ár, er meðalvísitalan var 206. En ef vísitalan verður látin haldast óbreytt í sumar, 262 stig, til hausts, þá er hún 27% hærri en meðalvísitalan síðasta ár. M.a.s. var vísitala fyrrihluta síðasta árs ekki nema 183 stig, svo að vísitala 262 væri 43% hærri, ef miðað væri við fyrrihluta síðasta árs. Ef ég geng út frá 27% mismun, þá ætti kjötið að vera kr. 9.50 í haust, en mjólkin ætti að geta verið óbreytt, þangað til kjötið kemur á markaðinn. En ef gengið er út frá 183 stigum, eða 43% mismun, þá yrði kjötið kr. 10.72 í haust eftir sömu verðlagsreglum. Slík hækkun á kjötinu mundi hækka vísitöluna um 8–12 stig, eftir því, hvort miðað væri við 27% eða 43%. Síðan mundi mjólkin hækka og hefjast á ný gamla kapphlaupið milli kaupgjalds og verðlags. Og verði sami leikurinn leikinn í haust og í fyrra, þá mun vísitalan ekki verða langt frá 400 stigum um næstu áramót.

Er nokkuð vit í þessu? Það mundi reka að því, að atvinnuvegirnir mundu stöðvast, og atvinnuleysi koma. Þá gæti fólkið ekki lengur keypt kjöt, og væru bændur þá nokkuð betur staddir með hátt verð á kjötinu, ef neytendurnir gætu ekki keypt það?

Menn tala um tvær leiðir í þessum málum, leið skynseminnar og leið neyðarinnar. En ætli kaupmáttur neyðarinnar yrði ekki heldur lítill. Það eina, sem kemur að nokkru gagni, er að lækka verðlagið.

Þá vil ég svara hv. 2. þm. Rang. nokkrum orðum. Það hefur margt breytzt hér síðan í ágúst í fyrra, er samþ. var hér þál. sú um verðuppbætur á landbúnaðarafurðir, sem oft hefur verið minnzt á. Litlu síðar, eða 1. september, skrifaði þessi hv. þm. grein í Morgunblaðið, þar sem hann talar um, að samkvæmt gamalli, íslenzkri venju eigi kaupamaður yfir sláttinn að hafa vikukaup sem samsvari einu sauðarverði, og talar hann um, að kaup muni þá vera 200–250 krónur á viku. Þá reiknar hann út, hvað kjötverðið þurfi að hækka mikið, til þess að sauðurinn leggi sig á þessu verði. Eftir nokkra daga er svo þessi hv. þm. orðinn form. kjötverðlagsnefndar.

Þessi hv. þm. segir, að ég hafi sagt annað en ég sagði í ræðu minni. Ég sagði, að verð á mjólk hefði 3,6-faldazt síðan 1939 og kjötverðið 5- faldazt frá sama tíma, og áætlaði þá, að bændur fengju kr. 5.80 fyrir hvert kg. Þetta hefur 3.6- faldazt, en ostur, rjómi og smjör margfaldazt, — ég hef ekki nákvæmlega reiknað það út. Ég taldi, að verð á ull hefði 6,5-faldazt síðan 1938, en það var síðasta árið, sem verð var normalt, því að nokkuð af ullinni var selt með stríðsverði 1939. Gærur sagði ég, að hefðu 4,5-faldazt frá því 1938. Svo taldi ég ekki fleira upp, því að þetta eru aðalvörurnar. Sem sagt, verðið 1942 var frá 3,6-6,5 sinnum verðið 1939. Þarna er hvergi sagt, að verð til bænda hafi fimmfaldazt. Að vísu, ef lagðar eru saman þessar tölur, þá fást 10, og meðaltalan 5, en það má ekki gera. Og mér dettur ekki í hug að hv. þm. hafi komizt að niðurstöðu sinni á þennan hátt. Ég tók það fram í dag, að kaupgjald það, sem bændur hafa þurft að greiða, hefði stórhækkað síðan fyrir stríð, en þó aðallega á síðasta ári. Ég hef reiknað, að kaup til bænda og þeirra skylduliðs hefði hækkað með sömu vísitölu og kaup Dagsbrúnar. Þetta gagnrýndi hv. þm. V.-Húnv. með nokkrum rétti, en þó var gagnrýni hans ekki með öllu rétt, því að skyldulið bænda á flest skepnur og fær háa afurðaverðið.

Þetta er orðið lengra mál en ég ætlaði. Ég vil þó enn einu sinni leggja áherzlu á það, að hv. Alþ. geri raunhæfar tilraunir til að lækka vísitöluna.

Ég get ekki stillt mig um að minnast á till., sem nokkrir hv. þm. hafa borið fram. Ég skil ekki vel eitt í þessu og þarf að biðja um skýringu. Eins og sjá má á þskj. 705, þá á 6 manna n. að finna vísitölu framleiðslukostnaðarins og hafa skilað störfum fyrir 1. september. Svo hefur ríkisstj. heimild til að verja 3 millj. kr. til að lækka dýrtíðina, borga með henni, eftir þessu ákvæði, sem hljóðar svo: „Nú ákveður ríkisstjórnin að nota heimildir þessara laga (sbr. 5. lið) til þess að koma fram lækkun á framfærsluvísitölu, og skal hún þá leita samkomulags við félagssamtök verkamanna og bænda“ o.s.frv. Mér skilst, að samkv. þessu megi ríkisstj. ekki nota þessar 3 millj. nema með því að spyrja um leyfi þessara aðila. Svo kemur í lokin: „Enn fremur er ríkisstjórninni heimilt að auka framlag ríkisins til framkvæmdasjóðs frá því, sem þegar er ákveðið, um 3 millj. kr., og skal því fé sérstaklega varið til framkvæmda, sem vinna gegn atvinnuleysi.“

Svo var nú það. L. um framkvæmdasjóð ríkisins eru þannig, að af tekjuafgangi ríkisins 1941 átti ríkisstj. að leggja í hann 8 millj. kr. og einnig 3/5 af tekjuafgangi 1942, og fé þetta átti að geyma í Landsbanka Íslands. Ef enginn tekjuafgangur verður 1942, sem fjmrh. telur vafasamt, þá verður vandi að fá þessar 3 millj., eða hvar á að taka þær í aukaframlag? Mér skilst að ríkisstj. sé heimilt að láta ríkissjóð græða 3 millj. kr. meira en von er til, að hann geti gert, ef staðið er við allar skuldbindingar hans, og svo á að nota þetta fé gegn atvinnuleysinu. Ef framkvæmdir gegn atvinnuleysinu eiga að byggjast á þessu ákvæði, þá er ég hræddur um, að lítið verði úr þeim.