09.04.1943
Neðri deild: 94. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Frsm. (Ásgeir Ásgeirsson):

Herra forseti. — Hv. þm. Mýr. hefur haft framsögu um brtt., sem hann segir, að bornar séu fram til þess að koma á friði milli ríkisstj. og fjhn. Af hálfu fjhn. er ekki um neinn ófrið að ræða. Þar eru 5 þm., sem hafa drýgt það afbrot að vera sammála, þar sem þingheimur hefur ekki náð samkomulagi. Ég hygg, að enginn nm. þurfi að biðja afsökunar á því. Ég vil halda því fram, að n. hafi í till. sínum reynt að koma því heim, hvað hægt væri að fá samþ. í þingi af því, sem ríkisstj. lagði til í frv. sínu. Ef n. hefur dregið úr tili. stjórnarinnar, þá er það til þess að reyna að koma þeim heim við vilja þingsins. Ég sé því enga ástæðu til að nefna þetta sáttatill. Ef hún væri það, þá ætti hún að benda á millileið. En hv. þm. sýndi ekki, á hvern hátt þessi till. ætti að vera til sátta.

Hæstv. ríkisstj. hefur fundið ýmislegt að till. fjhn., en þó ekki ýkja mikið. Ríkisstj. segist vilja kaupa niður dýrtíðina. Í þessari tili. er lagt til, að til þess sé varið 3 millj. kr. Fjvn. nefnir sömu upphæð. Þar er munurinn enginn. En það er sá munur á till. fjhn. og þessara manna, að í till. fjhn. er ríkisstj. heimilað að borga niður afurðaverð, en í þessari till. er gert ráð fyrir, að hún þurfi til þess sérstakt leyfi. Þarna er ekki um millileið að ræða, heldur er ríkisstj. aðeins sniðinn þrengri stakkur. Hæstv. ríkisstj. hefur fundið það að till. okkar, að hún geri hæpið, að hægt sé að koma vísitölunni niður nema í 230. En með þessari till. yrði ekki heldur hægt að koma henni lengra niður. Svo að þá er ekki þetta til að miðla málum eða sætta. Í okkar till. er gert ráð fyrir því, að þegar sú n., sem á að finna vísitöluna, hefur lokið starfi sínu, þá skuli niðurstaða hennar gilda, ef n. er sammála. Ríkisstj. heldur því fram, að meiri hluti eigi að ráða. En í þessari till., á þskj. 705, þá á það ekki einu sinni að gilda, þótt n. sé sammála.

Ef það er hætta á því að ríkisstj. geti ekki sætt sig við till. fjhn., þá er Ekki nema enn síður von til þess, að hún geti sætt sig við þessar till.

Ég læt svo þetta nægja. Ég hef farið yfir aðalatriðin, en auk þess, sem ég hef rakið, eru mörg önnur atriði í till. enn ónákvæmari en í till. fjhn. Ríkisstj. mun því enga ástæðu hafa til að þakka þessa milligöngu. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki verið mjög hörð á till. fjhn. Aðfinnsla hennar er meira á orðalagi en hún sýni, að þær séu svo mjög ólíkar till. hennar. Og þó að hæstv. ríkisstj. hafi tilkynnt, að hún muni athuga afstöðu sína, ef brtt. er samþ., þá eru ekki líkur til þess, að hún grípi til neinna örþrifaráða. Við höfum bent ríkisstj. á, að ef n. er ekki sammála, þá hefur stjórnin vald samkv. l. til að gera sínar ráðstafanir gegnum verðlagsnefnd, begar fram á haust er komið. Þá mætti líka ætla að ríkisstj. mundi koma fram með till., og þá væri ástæða til að fara að gera úrslitakröfur til þingsins. En ég skil ekki, að hún muni gera það núna, áður en athuganir þær, sem gert er ráð fyrir, hafa farið fram.

Ég þykist vita, að ríkisstj. muni ekki mikla fyrir sér smábreyt. eins og að gr. hefur verið breytt í 8 frá 18, og nafninu á skattinum hefur verið breytt úr viðreisnarskatti í verðlækkunarskatt. Það kom til athugunar að kalla hann litla skatt til að gera hann vinsælan, en við höfðum á honum þetta nafn, af því að okkur fannst það bezt lýsa tilganginum.

Við leggjum áherzlu á þetta: að samkomulagsleiðin er ekki reynd til þrautar. Ef það yrði árangur af þeim tilraunum, þá mundi spretta upp það samkomulag í þjóðlífinu, sem mest er þörf á. En náist ekki samkomulag, þá vita menn, um hvað er barist, og mörkin verða skýrari. Það, sem nú á að greiða atkv. um, er skýrt. En margt, sem kemur fram í umr., eru atriði, sem ekki eiga heima við þessar umr.

Loks vil ég geta þess, að við erum samþ. því, að brtt. stjórnarinnar og brtt. við þær séu bornar upp á undan till. okkar.