09.12.1942
Efri deild: 11. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 1353 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

Fyrirspurnir um stjórnarráðst. o. fl.

Kristinn Andrésson:

Mig langar til að gera tvær fyrirspurnir utan dagskrár. Fyrri fyrirspurnin er til hæstv. ráðh. um það, hvort ríkisstjóri Íslands njóti ekki sérstakrar verndar gegn aðkasti í dagblöðunum. Tilefni þess, að ég spyrst fyrir um þetta, er það, að í Tímanum 8. þ. m. birtist grein eftir hv. þm. S.-Þ., þar sem mér skilst, að farið sé ótilhlýðilegum orðum um ríkisstjóra, þar sem sagt er, að hann hafi gerzt verndari uppivöðsluseggja í þjóðfélaginu.

Hin fyrirspurnin er viðvíkjandi því, að nýlega hefur komið út á forlagi Ísafoldarprentsmiðju Gylfaginning með nútímastafsetningu, gefin út af Vilhjálmi Þ. Gíslasyni. Ég vil spyrja hæstv. ráðh., hvort hann hafi veitt þessu athygli, hvort þetta heyri ekki undir sömu lög og útgáfan á Hrafnkötlu og hvort ekki ætti að höfða mál gegn útgefandanum. Ef sá hæstv. ráðh., sem hér er viðstaddur, treystir sér ekki til að svara þessu, þá óska ég eftir, að hæstv. dómsmrh. gæti verið hér viðstaddur, svo að hann gæti heyrt þessar fyrirspurnir.