10.04.1943
Neðri deild: 96. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 739 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Stefán Jóh. Stefánsson:

Herra forseti. — Við 2. umr. var gerð grein fyrir afstöðu Alþ. til þessa máls. Þótt þetta frv. sé öðruvísi en við hefðum kosið, munum við ekki bera fram brtt., heldur bíða, unz það fer til Ed. Gat ég þess einnig að Alþfl. mundi bera fram brtt. varðandi skattakafla frumvarpsins eins og það var upprunalega, og bíða þær umr. Ed. Þarf ég því ekki að fjölyrða frekar um þetta mál.

Út af brtt. á þskj. 710 vil ég lýsa yfir, að ég get fallizt á hana fyrir hönd Alþfl. Við fluttum till., sem gekk í sömu átt, en hún var felld. En þótt hún væri felld eins og hún var borin fram, get ég greitt þessari atkvæði.

Að öðru leyti má kannske vænta þess, að fram komi skrifl. brtt., og sé ég því ekki ástæðu til að fjölyrða meira en orðið er um þessar brtt., sem fyrir liggja. Þær eru fæstar stórvægilegar né raska verulega efni frv. frá því, sem það var eftir 2. umr.

En ég sé ekki ástæðu til þess að samþ. brtt. hv. 2. þm. Rang. (IngJ) um það, að sá tekjuauki, sem fengist með þeim breyt., sem ákvarðaður var í nótt við 2. umr. á þeim almennu ákvæðum um útreikning skattsins í sambandi við varasjóðina, rynni frekar til raforkusjóðs en til alþýðutrygginganna, — án þess að ég ætli að mæla nokkuð gegn því, að raforkusjóður hafi peninga til umráða, jafn þarft hlutverk og honum er ætlað. Ætla ég þó, að ekki verði um það deilt, að í framtíðinni verði, eftir því sem frekast er kostur, endurbættar alþýðutryggingarnar með auknum fjárframlögum. Og sé ég því ekki ástæðu til þess, að horfið verði frá því ráði, sem upphaflega var í sambandi við þetta mál ákveðið um þær. Ég sé ekki, að raforkusjóður standi þar feti framar en alþýðutryggingarnar, án þess að ég ætli nokkuð að gera lítið úr hlutverki raforkusjóðs. En mér finnst undarlegt, úr því að hv. þd. samþ. í nótt, að þessi tekjuauki skyldi vera bundinn við eins gott fyrirtæki eins og alþýðutryggingarnar, að það megi ekki standa deginum lengur sá tekjuauki, sem alþýðutryggingarnar fá með þessu móti. Það kann að fara svo, að afstaða Alþfl. til þessa frv. fari eftir því, hvaða brtt. verða að lokum samþ. við frv. En þó get ég sagt það þegar, að ef nokkrar brtt. við frv. ná fram að ganga, sem gera það frá sjónarmiði okkar alþýðuflokksmanna verulega óaðgengilegra heldur en það er nú, mundi það geta orðið til þess, að við vildum ekki ljá því samþykki okkar. Við erum ekki ánægðir með frv. eins og það er. En við vonum, að það geti tekið umbótum í hv. Ed., þegar það verður afgreitt þar. En við viljum ekki, nema því verði spillt frá því, sem nú er, bregða fæti fyrir, að hv. Ed. geti fengið það til athugunar og lagfæringar, eftir því sem þar standa efni til.