10.04.1943
Neðri deild: 96. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (978)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Jón Pálmason:

Þess gerist ekki þörf að eyða miklum tíma í að ræða þetta mál frá því, sem komið er. Ég vil þó víkja örlítið að því deilumáli, sem síðasti ræðumaður talaði um, sem sé, að það væri í andstöðu við samkomulag fjhn. að fara að taka upp í breyttri mynd frv. stj. Í því sambandi skal ég lýsa yfir, að ég get alveg fallizt á brtt. þá, sem hér hefur síðast verið lýst, frá hv. þm. N-Ísf. og hv. 7. þm. Reykv., og það er fyrst og fremst af því, að hvað sem líður skoðun manna um þetta mál, álit ég, að skattaákvæði eigi alls ekki heima í frv. um dýrtíðarráðstafanir, hvort sem gr. er samþ. óbreytt eða með þeirri breyt., sem hv. 2. þm. Rang. leggur til. Það var talsvert um það rætt í fjhn. að fella þetta niður eins og till. hljóðar um, og ég geri ráð fyrir, að meiri hl. n. leggi til, að sett verði mþn. til næsta haustþings, sem undirbyggi þetta mál og önnur fleiri, sem snerta breyt. á skattal. En ég er í miklum vafa um, hvort sú brtt. verður samþ., þá vil ég leyfa mér að flytja við þessa gr. brtt., sem gæti staðið sem varatill., ef hin yrði felld. Hún er þannig, að orðin: „ef nýbyggingarsjóður er orðinn ein millj. kr.“ falli burt. Það hefur komið í ljós, að menn eru í vafa um, hvort menn eiga frekar að miða við þetta ákvæði eða tryggingarupphæð skipa, en í raun og veru er það sanngjarnt í þessu tilfelli, að það sé miðað við vátryggingarupphæðina, og þá kemur til greina, að það er ekki réttlátt, þegar um fleiri skip er að ræða hjá sama aðila, að þar gildi sama regla. Við getum hugsað okkur, að það kosti eina millj. eða kannske meira að byggja eitt skip, og þá er það ekki sanngjarnt að takmarka nýbyggingarsjóð, sem flestir leggja mikið upp úr, meira en það, að það verði fyrir vátryggingu skipanna.

Svo er eitt atriði, sem er athugunarefni, og það er það, hvort eigi að gera breyt. um, hvernig skuli frekar takmarka nýbyggingarsjóð. Út í það atriði fer ég ekki meir, enda gerist þess ekki þörf. Ég mun ekki heldur víkja verulega að þeim brtt., sem hér hafa verið fram lagðar. Fjhn. mun, að því er ég hygg, greiða atkv. á móti þeim flestum, því að flestar þeirra miða að breyt., sem ég tel til lítilla bóta á frv. frá því sem er. Hv. frsm. mun að sjálfsögðu gera nokkra grein fyrir því. Ég get þó ekki látið vera að minnast á eina till. frá hv. 6. landsk., snertandi mjólkurverðið. Hún fer fram á, að þar, sem mjólk er seld lægra verði en í Rvík, lækki það hlutfallslega og að öðru leyti verði farið eftir þeim ákvæðum, sem í frv. eru. Þetta er ákaflega óþægilegt í framkvæmd og einnig ósanngjarnt. Fjhn. hefur gengið út frá því í till. sínum, að þar sem mjólk er seld lægra verði en kr. 1.30, verði ekki skipt sér af verðinu, en ef hún er seld á verðjöfnunarsvæði utan Rvíkur hærra verði en 1.30, þá taka ákvæði frv. að sjálfsögðu til þess. Ég vil þess vegna mælast til þess, að þessi brtt. verði felld, því að bæði er hún ekki sanngjörn og þar að auki svo óþægileg í framkvæmd, að ég veit ekki, hvernig hv. flm. hugsa sér að framkvæma hana, þar sem um svo ákaflega breytilegt verð er að ræða víðs vegar út um land.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, en afhenda hæstv. forseta þessa skrifl. brtt. við 7. gr.