10.04.1943
Neðri deild: 96. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 748 í B-deild Alþingistíðinda. (986)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. — Ég skal ekki lengja umr. mikið. En ég vil þó út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. (EOl) sagði hér um fyrirætlanir útgerðarmanna, sérstaklega stærri útgerðarmanna, segja nokkur orð. Hann sagði, að það mætti vita það, að þessir menn, ef þeir kæmu efnaðir frá stríðinu, mundu hætta að gera út, þegar ekkert græddist á því lengur fyrir þá. Mig undrar mjög að heyra þessi orð, þegar ekki eru liðin meira en 3 ár síðan svo að segja hver einasti útgerðarmaður á Íslandi var búinn að eyða öllum sínum eigum í taprekstur. Það er sem sé allt of vitað mál, til þess að um það þurfi að deila, að útgerðarmenn hafa yfirleitt þá aðferð, að þeir láta fyrirtæki sín ganga ár eftir ár með tapi ef taprekstur verður að vera, heldur en að stöðva rekstur þeirra. Og þetta er venja góðra og gegnra atvinnurekenda á öllum sviðum. Þeir taka náttúrlega við gróðanum, þegar hann gefst, en þeir gefast ekki upp fyrr en í fulla hnefana. Og það hefur gengið jafnvel svo langt hjá Íslendingum, að fjöldi manna, sem hefur átt dálitið hlutafé í fyrirtækjum, hefur haldið uppi fyrirtækjunum með öllum eigum sínum. Og ég veit dæmi þess, að menn hafa látið allt að fimmfaldri hlutafjárupphæðinni af öðrum eignum sínum í fyrirtækin, áður en þeir skoruðust undan því að halda uppi atvinnurekstrinum. Þeir hafa látið allar eigur sínar ganga þannig til þurrðar og margir orðið gersamlega gjaldþrota. Og það er ákaflega hart að heyra slíkar ásakanir frá mönnum, vitandi algerlega hið gagnstæða. Því að reynsla okkar Íslendinga fullsannar þetta, sem ég hef sagt. Og þessi árás á útgerðarmenn hér á Alþ. er þessari stofnun að mínu áliti til mikillar minnkunnar, því að það er vitað, að það er einmitt þessi atvinnurekstur, sem gengur í svo miklum bylgjum, sem hefur undanfarið og mun í framtíðinni gera þjóðfélagið þess megnugt að halda uppi menningarlífi í landinu og standast áföll, sem eflaust eiga eftir að koma. Ég held, að það sé orðið mjög almennt mál þeirra manna, sem afla sér brauðs á sjónum, að framtíð þeirra sé því betur tryggð sem atvinnufyrirtækin eru efnaðri. Og þetta er ekki nema eðlilegur skilningur sem hvert barn á að skilja, að ef það fyrirtæki, sem maður vinnur við, er illa stætt, þá verður atvinnurekstur þess minni, og má búast við, að mönnum, sem vinna við það, verði sagt upp starfi. Ég á oft tal við sjómenn. Og ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að enginn þeirra sjómanna, sem ég hef átt tal við um atvinnurekstur við sjávarsíðuna nú upp á síðkastið, sé á öðru máli en þessu. Allir óska þeir þess að geta stundað atvinnu sína hjá fjárhagslega sterku fyrirtæki, og þeir telja það þá beztu tryggingu fyrir afkomu sinni í framtíðinni. Þeir menn, sem grafa vilja undan þessum fyrirtækjum fjárhagslegan grundvöll þeirra eða óska þess, að þau auðgist ekki, þeir eru beinlínis að stofna til þess að koma fjölda fólks á þessu landi á vonarvöl og skapa eymd og kvíða og e.t.v. algerðan sult. Ég segi þetta bara sem staðreynd. Ég ætla ekki að fara að halda skildi fyrir þá, sem spjótum er nú beint að, en ég vil aðeins, að hæstv. Alþ. liti á þetta mál sem algert þjóðmál.

Ég hef gerzt meðflm. að þeirri brtt., sem hv. þm. N.-Ísf. (SB) hefur lýst og flytur ásamt mér, um að fella niður 7. gr. frv. eins og það nú er orðið, sem er sumpart af því, að þessi 7. gr. stefnir að því að rýra fjárhag þessa mikla atvinnurekstrar, sem ég hef nú verið að ræða um. En í öðru lagi stafar það af því, að ég hef orðið fyrir alveg sérstökum vonbrigðum, hvað snertir afstöðu Sósfl. til þessarar till. Eins og ég lýsti hér í stuttri ræðu í gær, er ég alls ekki ánægður með þær leiðir, sem valdar hafa verið til þess að koma niður dýrtíðinni, og hef talið aðrar leiðir heppilegri, sem ég lýsti í ræðu minni þá. En ég féllst á af tveimur ástæðum að veita þessu frv. stuðning. Í fyrsta lagi af því að ég taldi nauðsynlegt, að eitthvert spor yrði stigið í þá átt að koma dýrtíðinni niður og að styðja ríkisstj. í því að ná einhverjum árangri á því sviði. En í öðru lagi fannst mér það svo mikils vert á þessari þrætusamkomu, að heil nefnd, skipuð mönnum úr öllum þingflokkum, hafði komizt að samkomulagi, sem mér fannst spá góðu, og ég vildi, að það samkomulag yrði að l. Þess vegna ákvað ég að fylgja brtt. hv. fjhn. En nú hef ég orðið fyrir tvöföldum vonbrigðum. Þetta samkomulag hefur orðið að verulegu leyti og ekki sízt fyrir það, að Sósfl., sem fær annar s oft hörð orð hér í d., hefur reynzt mjög orðheldinn flokkur í málefnum hér, og ég hef aldrei orðið fyrir neinum vonbrigðum af því, að menn úr þeim flokki hér á þessari samkomu hafi ekki haldið orð sín. Ég hef því orðið fyrir tvöföldum vonbrigðum, þegar þessi flokkur hefur brugðizt í því samkomulagi, sem náðist í hv. fjhn.