10.04.1943
Neðri deild: 96. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (988)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Lúðvík Jósefsson:

Ég skal reyna að lengja ekki mál mitt fram yfir það, sem þörf er á. En mér finnst ég verða að segja nokkur orð í tilefni af þeim ræðum, sem hér hafa farið fram, sérstaklega út af þeirri brtt., sem ég ásamt hv. þm. Siglf. (ÁkJ) flutti við 2. umr. þessa máls um afnám skattfrelsisákvæða núgildandi skattal. hjá nokkrum aðilum. Í því sambandi hafa þeir hv. þm. N.-Ísf. (SB) og hv. 7. þm. Reykv. (SK) lagt hér fram skrifl. brtt. um það að fella algerlega út úr frv. 7. gr., þá gr., sem afnemur skattfrelsi nokkurra félaga. Og við málflutning sinn hafa þessir hv. þm. lagt sérstakt kapp á að reyna að telja mönnum trú um það, að þessi brtt. okkar hefði miðað að því að minnka mjög framlög til nýbyggingarsjóðanna, og þetta hefði því verið árás á útgerðina í landinu og mundi leiða til þess, að nýbyggingarsjóðirnir gætu ekki haldið áfram að vaxa og því væru minni líkur til þess, að skipastóllinn yrði endurnýjaður. Þetta er með öllu rangt túlkað hjá þessum hv. þm. Og ef íhugað er, um hvað þessi brtt. okkar hv. þm. Siglf. var, kemur þetta mjög vel í ljós. Eitt af ákvæðum þessarar till. okkar er það, að afnumið verði skattfrelsi almennra hlutafélaga, sem starfa við hvers konar rekstur í þessu landi. Þar er um að ræða fjölda félaga, sem græða feikna mikið á verzlun eða öðrum viðskiptum. Þessi hlutafélög hafa hlotið þau hlunnindi fram yfir einstaklinga, sem reka samsvarandi rekstur, að þau hafa notið skattfrelsis á 1/5 hluta af tekjum sínum, ef þau hafa lagt það fé í nýbyggingarsjóð. Þetta er það, sem við leggjum til, að verði afnumið, að þessi félög njóti sérstakra ívilnana fram yfir aðra, sem sams konar atvinnurekstur stunda. Og þetta sjá menn, að getur ekki skert framlög til nýbyggingar fiskiflotans.

Þá er hið annað atriði í okkar brtt., það, að í stað þess, sem gilt hefur fram að þessu, að einstaklingar hafa ekki fengið leyfi til að leggja nema 1/5 hluta af hreinum tekjum í nýbyggingarsjóð, þá lögðum við til, að þeir mættu leggja 1/3 af hreinum tekjum í nýbyggingarsjóði skattfrjálst. Og með þessu verður réttur þeirra einstaklinga, sem fást við smáútgerð, — og einstaklingsrekstur útgerðar er alveg sérstaklega smáútgerð, — til þessara skatthlunninda eftir till. okkar eins mikill og hlutafélaga, sem reka sams konar atvinnu. Og hvaða ástæða hefur verið til þess, að 5 eða 7 menn, sem hafa myndað með sér hlutafélag um útgerð, eigi að hljóta einhver sérstök skatthlunnindi fram yfir það, þó einn vesæll smáútvegsmaður reki sinn bát? Ég sé ekki betur en þessi eini maður eigi að fá sömu skatthlunnindi eins og hinir 5 eða 7 menn, sem myndað hafa hlutafélagið með sér. Hér er því um sanngirnismál og samræmingu að ræða og eins um að auka framlagið til nýbyggingarsjóðanna.

Og þá er annað atriði, að þannig hefur það. verið fram að þessu, að útgerðarhlutafélög hafa fengið skattfrjálsan 1/6 hluta hreinna tekna, en þau hafa ekki þurft að leggja nema helming af þessu í nýbyggingarsjóð. Þessir aðilar hafa því ekki lagt nema 1/3 hluta af hreinum ágóða útgerðarinnar í nýbyggingarsjóð. En samkv. till. okkar er lagt til, að þessir aðilar eigi, ef þeir vilja njóta sömu skatthlunninda og þeir hafa áður notið, að leggja 1/3 hluta af hreinum ágóða í nýbyggingarsjóð, eða tvöfalt meira en fram að þessu. Nýbyggingarsjóðirnir munu því aukast af þessu, en ekki minnka. Sú eina takmörkun, sem hér er sett um vöxt nýbyggingarsjóða, er aðeins, að þeir, sem hafa komið þeim sjóðum upp í 1 millj. kr., njóti ekki sömu skattfríðinda. Og mér er sagt, að það séu aðeins tveir aðilar í þessu landi, sem svo er ástatt um. Þessari takmörkun er því aðeins stefnt gegn tveim aðilum. En gagnvart öllum hinum aðilunum, sem útgerð stunda, verka þessi ákvæði þannig, að réttindin aukast til þess að leggja í nýbyggingarsjóði. Svo að það er ekki umhyggja fyrir vexti nýbyggingarsjóðanna, sem hefur verið að verki hjá þeim mönnum, sem staðið hafa gegn þessu ákvæði, heldur þykir þeim hart, að þau tvö félög, sem öflugust eru og ríkust, skuli ekki geta haldið áfram að leggja í nýbyggingarsjóði.

Þá er hér annað atriði, sem ég get ekki hlaupið fram hjá, en það eru brtt. þess efnis, að það fé, sem sparast á þennan hátt fyrir ríkið, eigi að renna til alþýðutrygginganna heldur en til annarra sjóða eins og raforkusjóðs. Ég verð að segja, að þessir skattar, sem á þennan hátt fást í ríkissjóðinn, fást alveg sérstaklega frá útgerðinni. Nú er vitanlegt mál, að ein sú breyt., sem stendur fyrir dyrum, og sem skiptir kannske hvað mestu, hvað snertir fjárframlög úr ríkissjóði, er einmitt breyt. á alþýðutryggingal. til hagsbóta sjómönnum. Þannig er sem sagt ástatt, að nú er greidd mjög mismunandi há trygging fyrir þá menn, sem farast á sjó, eftir því hvort þeir farast af stríðs völdum eða vegna hinna almennu sjóslysa. Með þetta er almenn óánægja, og flestir eru á því, að það verði að hækka bætur fyrir almenn sjóslys. Og þessi breyt. stendur fyrir dyrum á alþýðutryggingal. og krefst mikilla framlaga úr ríkissjóði. Og ég sé ekki betur en sjómenn séu vel að því komnir, þótt þeir fengju að njóta þeirra auknu tekna, sem af þessu fengist.