12.04.1943
Efri deild: 97. fundur, 61. löggjafarþing.
Sjá dálk 755 í B-deild Alþingistíðinda. (998)

140. mál, dýrtíðarráðstafanir

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. — Það hefur enn ekki verið stungið upp á því, að þetta mál gengi til n. hér. Ég heyrði ekki, að hæstv. ráðh. legði það til, en ég tel sennilegt, að hv. þdm. finnist það mörgum eðlilegt, að þetta mál gengi til fjhn., og skal ég játa, að svo hefði verið undir öllum venjulegum kringumstæðum, en hitt kann að orka tvímælis, hvort það sé rétt eins og nú er komið. Hæstv. ráðh. gat þess, að síðustu deildafundir mundu verða á morgun, og deildin hefur því ekki nema einn dag til þess að afgreiða þetta. Mér skilst, að helzt þurfi að afgreiða það í kvöld eða fyrri hluta næsta dags, ef á að verða hægt að slita þingi á tilteknum tíma. Það virðist því vera formsatriði eitt að vísa málinu til n., en það hafa að vísu heldur engar raddir komið fram um það enn. En út áf því, að ekki skuli þýða að láta annað eins mál og þetta virðist vera ganga til n. vegna þess að hún getur ekki lagt í það neina teljandi vinnu sökum tímaskorts, vil ég ekki láta hjá líða að benda á, hvað þessari hv. d. hefur verið boðið í sambandi við þetta mál og önnur stórmál nú á þinginu og undanfarandi þingum: Ég man ekki betur en þetta mál hafi verið lagt fyrir Nd. 22/2 s.l. Það var svo fyrst afgreitt þaðan á laugardagskvöldið var, og nú á þessi deild að afgreiða það á einum degi. Svona hefur þetta verið á undanförnum þingum um ýmis stórmál, en hér er þó enn lengra gengið en áður, því að áður hefur þó verið samið um afgreiðslu slíkra mála innan þess þingmeirihluta, sem ábyrgðina hefur borið, en hér hefur ekkert slíkt samkomulag verið gert. Ef svo hefði verið gert, þá hefði ef til vill mátt segja, að þetta væri verjandi. En ég vil vænta þess, að hæstv. ríkisstj. hagi þessu nokkuð á annan veg í framtíðinni en á þessu þingi, að leggja því nær öll þýðingarmestu málin fram í Nd. Þótt ég ætli ekki nú að tala um afstöðu mína til einstakra atriða frv., verð ég að segja það, að hún hlýtur að nokkru leyti að byggjast á því, að ég lít svo á, að Ed. eigi ekki nema um tvo kosti að velja í sambandi við þetta mál. Annar er sá að taka við því eins og það kemur frá Nd. og skila því frá sér aftur sem næst óbreyttu, en hinn er sá að stuðla að því, að það nái ekki fram að ganga á þessu þingi, annað hvort með því að fella það eða þá með því að senda Nd. það aftur með þeim breyt. sem ætla mætti, að gætu valdið þar ágreiningi. Við 2. umr. þessa máls verður, eins og menn vita, greitt atkv. um hverja gr. frv. út af fyrir sig, og kemur þá afstaða þm. í ljós til hverrar einstakrar gr., og þótt einstök gr. félli, þá er ekki hægt að segja, að það sé svo mikil röskun á .frv., að óhugsandi sé, að Nd. geti sætt sig við hana. Og þó að frvgr. félli, væri ekki hægt að segja, að það væri slík röskun á frv., að ekki væri von um, að hv. Nd. gæti afgr. málið samt. En ef við viljum, að málið nái fram að ganga, sé ég ekki annað en við í þessari hv. d. séum algerlega útilokaðir frá að koma með nýjar till., því að það mundi þýða, að málið kæmi til hv. Nd., þegar fara ætti að slíta þingi, og allar líkur til, að nýjar till. mundu vekja nýjar deilur þar í d., svo að endirinn yrði sá, að málið yrði aftur að ganga til þessarar hv. deildar.

Það má segja, að þetta frv. sé ekki nema svipur hjá sjón í samanburði við það, sem var, þegar það var lagt fram í hv. Nd. Í hinu upphaflega frv. hæstv. ríkisstj. voru í raun og veru gerðar ráðstafanir til að lækka dýrtíðina, og þessu átti að ná með því að krefjast nokkurs af sem flestum borgurum þjóðfélagsins. Það er kunnugt, hvernig verklýðsfélögin og fulltrúar þeirra tóku þessu. Yfir Alþ. hefur rignt mótmælum frá þessum aðilum, og þingið hefur tekið þau mótmæli til greina. Virtust allir sammála um að taka úr frv. þau ákvæði, sem mótmælin höfðu vakið. Þegar svo var málum komið, reyndist það, að bændur vildu ekki heldur skerða hlut sinn á þann hátt, sem orðið hefði, ef frv. hefði náð fram að ganga óbreytt. Vilji þeirra í þessu efni var einnig tekinn til greina, og er því ekki annað eftir að frv. en heldur lítilfjörlegar ráðstafanir um framlög úr ríkissjóði og tilraunir að koma á samningum milli verkamanna og bænda, að því er snertir hlutfallið milli kaupgjalds og verðlags.

Eru þá þessi atriði, sem eftir eru af frv., þess virði, að það nái fram að ganga? Ég vil þegar lýsa yfir því, að því er mig snertir, og ég held, að því er snertir minn flokk, að þótt ekki sé hægt að segja, að mikið sé fengið með frv., er þó nokkuð fengið með því og von um, að það geti leitt til mikilsverðari árangurs. Afstaða mín markast af því, að ég vil greiða fyrir því þrátt fyrir allt, að frv. nái fram að ganga. En á þessu eru reyndar þau vandkvæði, að tíminn til að fjalla um málið er alveg farinn, eða því sem næst, og því mun ég ekki gera till. um, að málinu verði vísað til n. Ég tel, að slíkt yrði aðeins formsatriði, ef málið ætti þá ekki að sofna hjá n. Á það má líka minna, að fjhn. þessarar hv. d. hefur þegar fjallað um málið ásamt fjhn. Nd. Ég hefði raunar talið æskilegra, að sú samvinna hefði haldizt, en einn góðan veðurdag hætti hv. fjhn. Nd. þessari samvinnu án þess að ráðgast við okkur. En þó að málinu væri ekki vísað til fjhn. þessarar d., tók hún það fyrir á fundi í morgun. Annars hef ég litla trú á, að það sé til nokkurs, að n. fjalli frekar um málið.