21.10.1943
Efri deild: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (1013)

96. mál, eyðing svartbaks

Bjarni Benediktsson:

Það er nú að vísu rétt, sem hv. þm. Dal. (ÞÞ) sagði, að þetta mundi ekki hafa áhrif á laxagönguna strax á fyrsta ári, en nú hefur mér skilizt, að l. um eyðingu svartbaks hafi verið í gildi frá 1936, og það frv., sem hér er um að ræða, hefur þar að auki staðið í nokkur ár eða a. m. k. frá 1941, svo að ef fyrirmælin um eyðingu svartbaks hafa veruleg áhrif, ættu þau að hafa komið fram. En þar, sem gömlu l. um eyðingu svartbaks hefur verið framfylgt, eins og hér fyrir sunnan, er hann mikið til eyddur, þó að í öðrum héruðum, eins og Dalasýslu, hafi þeim verið illa framfylgt. Það er annað mál. Enn hafa ekki komið álit sérfræðinga, en æskilegt væri að fá álit fuglafræðinga um orsakasambandið í þessu efni.