21.09.1943
Neðri deild: 20. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (1030)

51. mál, ítala

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins benda n., er fjallar um þetta mál, á tvö atriði. Svo er ákveðið í frv., að allir þeir, sem búfé eiga í hreppnum, skuli kallaðir á fund, er afráða á um ítölumat. En ég er ekki viss um, að þetta sé rétt, t. d. í þorpum, þar sem margir eiga örfáar kindur, hest eða kú eða hvort tveggja. Þar, sem svo er, virðist mér málið fyrst og fremst snerta landeigendurna sjálfa, sem e. t. v. eiga ekkert búfé, og þyrfti að taka þetta til athugunar. Hitt atriðið er það, að vel sé ákveðið, hvað láta skal margar kindur móti einum hesti eða kú. Það væri afar mikilsvert að koma því í lög eða reglugerð, hversu stórar einingarnar skuli vera og það sama gildi á öllu landinu.