20.10.1943
Neðri deild: 34. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (1036)

51. mál, ítala

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls benti ég á nokkur atriði, sem ég taldi, að þyrfti að breyta. Sé ég nú, að hv. n. hefur tekið þær aths. mínar til greina. Þó hygg ég, að hún hafi gleymt einu atriði og að þörf sé að taka það til athugunar milli 2. og 3. umr. N. talar um landeigendur. Við hvað á hún þar? Í sveitum, þar sem engin þorp eru, er þetta skýrt. En í hreppum, þar sem þorp eru, er talsvert öðru máli að gegna. Þar eru menn, sem eiga litla landbletti eða lóðir, kannske eins og 100 fermetra. Þetta geta talizt landeigendur. Og þá er spurningin, hvort allir landeigendur, hvað lítið land sem þeir eiga, eiga að fara með heilt atkvæði á fundum, þegar um er rætt ítölu í beitiland. Ég held, að það mundi ekki verða vel séð, t. d. í Ólafsfirði, þar sem er eitt hreppsfélag og 9/10 eru í þorpinu og eiga lítinn landskika eða lóðarblett, en aðeins 1/10 hluti á jarðir og beitiland, ef hver af þessum 9/10 mættu fara með eitt atkvæði, þegar um væri að ræða ítölu í beitilandið. Ég held, að þurfi að breyta þessu þannig, að í staðinn fyrir „landeigendur“ komi: jarðeigendur. Þetta vildi ég biðja n. að athuga betur.

Þá er annað atriði. Í allmörgum hreppum eru menn, sem hafa dálítið land til umráða, svo að þeir geta að nokkru leyti lifað á kvikfjárrækt, þó ekki alveg, heldur verða að miklu leyti að styðjast við annað, svo sem sjávarútveg. Þeir hafa einatt rétt til beitilands, oft þó takmarkaðan. Um þessa menn þarf sérákvæði, ef þeir eiga að geta fengið nokkurn íhlutunarrétt um, hvernig ítalan skiptist. Þeir eru ekki jarð- né landeigendur og teljast ekki ábúendur jarða. Ég veit, að þegar n. gáir að þessu, þá sér hún, að tillit þarf að taka til þeirra, sem hafa slík smábýli, og mun þess vegna koma með brtt. í sambandi við það við 3. umr.