20.10.1943
Neðri deild: 34. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

51. mál, ítala

Páll Zóphóníasson:

Ég þakka fyrir það, að hv. frsm. landbn. vill taka til athugunar seinni aths. mína. En ég held, að hann þurfi að taka til greina þá fyrri líka, því að þótt hann skilji það, að hann eigi við jarðeigendur með orðinu „landeigendur“, þá nota aðrir orðið um lóðaeigendur. T. d. í Nesjahreppi í A.-Skaftafellssýslu, þar sem helmingur af hreppsbúum býr í þorpi, eiga sumir þeirra land, en aðrir ekki. Og þar, sem landþrengsli eru mikil í einhverjum hreppi, þar þarf að gera ítölu — eins og í þessum hreppi —, og það mundi ekki ná nokkurri átt, að kaupstaðarbúar eða þorpsbúar í þessu tilfelli, sem eiga lóðir undir húsum sínum og kringum þau og hafa ekki annað land, eigi að koma á fund með atkvæði um það, hvernig réttur manna til beitilanda skuli skiptast með ítölu, þegar líka tekið er tillit til þess, að sums staðar er um það bil helmingur af fjáreign manna eign þeirra manna, sem hafa ekki neitt land fyrir það nema með því að láta það í óleyfi ganga á öðrum. Nei, — í öllum kringumstæðum eru það eigendur beitilandanna, sem um það eiga að ráða, hvort og hvernig ítala er gerð, en ekki allir landeigendur, eins og ég hef útskýrt. Þess vegna vil ég mjög leggja með því, að þetta atriði verði athugað líka, því að það er ekki sama landeigandi og jarðeigandi.