08.11.1943
Efri deild: 44. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 664 í B-deild Alþingistíðinda. (1046)

51. mál, ítala

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefur legið fyrir hv. Nd., verið athugað þar af landbn. og fengið smávegis breyt. þar og er nú komið hér upp í Ed. frá Nd. Þetta er í raun og veru þarft frv., því að það hefur verið töluverðum erfiðleikum bundið að koma fram ítölu, en með þessu frv. virðist ráðin nokkur bót á því.

Landbn. hefur athugað frv., eins og það kom til hennar, og getur yfirleitt verið því samþykk, þótt e. t. v. hefði mátt fara betur um nokkur atriði. En hún vildi ekki fara að gera breyt., þar sem það var ekki bráðnauðsynlegt, til þess að vera ekki að hrekja frv. í Nd. aftur. T. d. er það nafnið á frv.: Lög um ítölu. Það hefði farið betur að hafa það: Lög um ítölu búfjár í haga eða beitiland. En í raun og veru skiptir það ekki miklu máli. Við vildum ekki fara að gera sérstaka till. um það, enda mætti við 3. umr. gera það, ef á annað borð verður þá farið að gera breyt. við frv. Enn fremur mætti bæta því við, að í 2. gr. er gert ráð fyrir, að „ábúendur og jarðeigendur“ mæti á fundi og geri kröfu um ítölu. Gæti svo viljað til, að tvö atkvæði yrðu greidd fyrir eina jörð, en þar sem ekki eru teknar aðrar ákvarðanir þar en leggja málið fyrir sýslufund, þá skiptir það litlu máli, hvort greidd eru tvö atkv. eða eitt, en yfirleitt mun ekki mikil hætta á því. Það verður undantekning, ef báðir mæta vegna sömu jarðar.

Einnig vil ég minnast á eitt atriði í 4. gr. frv., þar sem talað er um, að þegar fundarályktun hefur farið fram í viðkomandi sveitarfélögum, þá skuli oddviti sýslun. kalla fund svo fljótt sem ástæður leyfa. Þetta virðist benda til þess, að krefjast mætti aukafundar, en það gæti orðið dýrt, ef þeir eru oft haldnir. Ég held þó ekki, að það sé bein ástæða til að breyta orðalaginu, því að það er sýslun. sjálf, sem metur þetta, og ólíklegt, að það geti ekki fallið saman við aðalfund, og lít ég þannig á, að ekki þurfi að setja af stað sérstakan fund, ef önnur mál gera það ekki nauðsynlegt. Ég vildi bara benda á þetta, en annars tel ég ekki ástæðu til að gera breyt. á frv. og legg því til, að það verði samþ. eins og það liggur fyrir við þessa umr.