24.11.1943
Sameinað þing: 35. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

27. mál, fjárlög 1944

Brynjólfur Bjarnason:

Hv. hlustendur. Ég mun nota þetta tækifæri til að gera grein fyrir afstöðu Sósfl. og verklýðshreyfingarinnar til þeirra mála, sem efst eru á baugi. — Fólkið í landinu er sundrað, af því að atvinnustjórnmálamenn, sem vitandi eða óafvitandi eru í þjónustu fámennrar yfirstéttar, spara engar blekkingar, rangfærslur og skröksögur til að koma sundrungu af stað, æsa bændur gegn verkamönnum, verkamenn gegn bændum, fiskimenn gegn öðrum vinnandi stéttum og aðra vinnandi menn gegn þeim o. s. frv. — Þessi þokkalega iðja tekst vonum betur, vegna þess að sundrungarpostularnir hafa að heita má einokunaraðstöðu um blaðakost í fjölmörgum byggðarlögum landsins. — En fólkið í landinu á að taka höndum saman, — af því að allir þeir, sem lifa á afrakstri vinnu sinnar, hafa sameiginlega hagsmuni, hvaða störf sem þeir stunda og hvar í sveit sem þeir dvelja og hvaða blöð sem þeir lesa. Og sundrungin mun hverfa, kraftarnir munu verða samstilltir, jafnharðan og fólkið fær ráðrúm til að hugsa, tækifæri til að afla sér réttra heimilda og hættir að ljá Marðartungunum eyra.

Í þetta skipti hafði ég hugsað mér að gera vandamál dýrtíðarinnar einkum að umtalsefni. Helztu atriðin í stefnuskrá þeirri gegn dýrtíð og upplausn, sem Sósfl. birti fyrir síðustu kosningar, voru þessi:

1. Að komið yrði fastri skipan á verð landbúnaðarafurða, með samkomulagi framleiðenda og neytenda.

2. Að lækkaðir verði eða afnumdir tollar á nauðsynjavörum og þar með verði allt vöruverð í landinu lækkað til stórra muna.

3. Að gerðar verði gagngerðar ráðstafanir til að koma í veg fyrir okurálagningu og þá einkum á vörur til útgerðar.

4. Að gerðar verði ýmsar aðrar ráðstafanir til þess að bæta hag fiskimanna, hlutarsjómanna og bátaútvegsmanna á kostnað stríðsgróðamannanna.

Fyrir atbeina Sósfl. var gerð tilraun til að ákveða verð á landbúnaðarafurðum með samkomulagi. Og þetta tókst með samkomulagi 6 manna nefndarinnar.

Það hefur mikið verið rætt og ritað um störf þessarar nefndar og miklu verið logið, og er því nauðsynlegt fyrir almenning að gera sér sem gleggsta grein fyrir því, hvernig hún komst að niðurstöðum sínum.

Fyrst var ákveðið, að tekjur meðalbónda, sem selur alla framleiðslu sína á innlendum markaði, skyldu miðast við meðaltekjur verkamanna, iðnaðarmanna og sjómanna (þó ekki þeirra, sem hafa áhættuþóknun). Samkvæmt þessu skyldi svo verðið á afurðum bóndans ákveðið, þegar annar framleiðslukostnaður er fundinn. Meðaltekjur þessara atvinnustétta reyndust að vera 12400 kr. 1942 og voru áætlaðar 15500 kr. 1943 samkvæmt skattaframtölum.

Því næst var áætlaður aðstöðumunur bóndans og kaupstaðarbúans, og varð að samkomulagi að reikna meðalbóndanum 14500 kr. árstekjur, og væri afkoma hans þá í samræmi við meðaltekjur launþeganna. — Þess ber þó að gæta, að þessar tekjur fær meðalbóndinn ekki nema hann fái vísitöluverð fyrir allar afurðir sínar.

Samkvæmt þessu á verðið til bændanna að vera sem hér segir:

Fyrir lítra af mjólk kr. 1,23. Fyrir kíló af dilkakjöti kr. 6,82 og fyrir tunnu af kartöflum 106 krónur.

Útsöluverð á þessum vörum í Reykjavík, án meðgjafar, ætti þá að vera, fyrir lítra af mjólk kr. 1,53 og fyrir kíló af kjöti um það bil kr. 8,50.

En með þeim uppbótum, sem greiddar voru í sumar, hefði lítri af mjólk átt að kosta kr. 1,18 — eða vera 22 aurum lægri en áður, en kjötið aftur nokkru hærra en áður.

Hvert mundi nú verðið á þessum vörum hafa orðið, ef verðlagsnefndirnar hefðu ákveðið það? Ef verðið á mjólk og kjöti hefði verið ákveðið í samræmi við verðhækkun frá í fyrra, hefði kjötkílóið kostað yfir 10 kr. og mjólkin áreiðanlega yfir 2 kr. lítrinn. Formaður kjötverðlagsnefndar hefur lýst því yfir í blaðinu „Bóndinn“, að ef tillit hefði verið tekið til útflutningsins við verðákvörðunina, mundi kjötkílóið hafa kostað 11–12 kr. En það var einmitt á þennan hátt, sem kjötverðið var ákveðið í fyrra, enda þótt fullar uppbætur væru greiddar á útflutt kjöt úr ríkissjóði.

Samkvæmt undangenginni reynslu er því alveg víst, að verðlagsnefndirnar hefðu að minnsta kosti ákveðið það verð, sem ég hef nefnt. Það er alveg víst, að verð á kjöti og mjólk til neytenda hefur stórkostlega lækkað vegna samkomulagsins í 6 manna nefndinni. Hitt er svo annað mál, hvað bændur hefðu fengið í sinn hlut, ef þeir Ingólfur á Hellu og Sveinbjörn Högnason hefðu fengið að vera einvaldir. Um það geta þeir bezt dæmt af eigin reynslu, með því að bera saman verðið til neytenda og það, sem þeir hafa sjálfir fengið undanfarin ár. — Ég fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa um, að ef styrjaldarleiðin hefði verið farin, mundi það hafa orðið til stórkostlegs tjóns fyrir bændur, engu síður en neytendur, þegar reikningarnir hefðu verið gerðir upp að lokum, eins og ég skal víkja nánar að síðar.

Það, sem vannst með samkomulaginu í 6 manna nefndinni, er þó ekki fyrst og fremst fólgið í þessum bráðabirgðaárangri, — lægra verði til neytenda og tryggari afkomu bænda.

Þetta samkomulag var fyrst og fremst pólitískur sigur fyrir alþýðuna í landinu. Samkvæmt þessu samkomulagi eru hagsmunir bænda og verkamanna tvinnaðir saman. Hagsmunaandstæðurnar milli þeirra, sem á allan hátt hefur verið reynt að blása að, eru nú ekki lengur til. Ef kaup verkamannsins lækkar, lækkar verð á landbúnaðarafurðum. Ef atvinnuleysi verður í bæjunum, lækkar einnig verð á landbúnaðarafurðum. Ef tekjur launþega minnka vegna kauplækkunar eða atvinnuleysis, lækka tekjur bændanna að sama skapi, — nákvæmlega að sama skapi. Ef kjör launþega batna, kaupið hækkar, atvinnan eykst, batnar hagur bændanna, verðið á afurðum þeirra hækkar, tekjur þeirra aukast að sama skapi. Til þess að bæta hag sinn verða bændurnir að berjast við hlið verkamanna fyrir hærra kaupi og aukinni atvinnu. — Meðan samkomulagið er í gildi, hljóta bændur og verkamenn að standa hlið við hlið í baráttunni fyrir sameiginlegum hagsmunum. Og megi það verða sem lengst í gildi — með nauðsynlegum leiðréttingum —, ekki aðeins meðan stríðið stendur, heldur líka framvegis.

Þetta er mikill sigur fyrir stefnu Sósfl. og að sama skapi örlagaríkur ósigur fyrir Framsfl., sem á undanförnum árum hefur lagt alla stund á að fylkja bændum með stóratvinnurekendum bæjanna gegn verkamönnum, til þess að lækka kaup þeirra og láta kné fylgja kviði gegn samtökum þeirra.

Þess vegna hafa framsóknarmenn gert allt, sem í þeirra valdi hefur staðið, til þess að koma í veg fyrir þetta samkomulag og til þess að rjúfa það, eftir að það komst á.

Hermann Jónasson lýsti því yfir á Alþingi fyrir skemmstu, að dýrtíðarlögin hefðu verið samþ. í vor í trausti þess, að ekkert samkomulag mundi nást í 6 manna nefndinni.

Með samkomulaginu er bændum sýnd allmikil rausn í samanburði við aðrar atvinnustéttir. Meðalbóndanum er reiknað kaup, sem er talsvert miklu hærra en kaup almennra verkamanna í Reykjavík og tvöfalt hærra en kaup margra verkamanna úti um land, vegna þess að miðað er við meðaltekjur, ekki aðeins verkamanna og sjómanna, heldur líka hátt launaðra iðnaðarmanna. (Auk þess var sérstaklega tekin til greina eftirvinna, sem bóndinn kann að vinna, enda þótt atvinna minnki í kaupstöðunum, og hafi áhrif til lækkunar á afurðaverð hans) .

Framsóknarmenn treystu því, að fulltrúar verkamanna mundu ekki sýna bændum slíka rausn, og þó einkum þegar þess er gætt, að til þess að bændur geti notið sæmilegra lífskjara, verður verðið á landbúnaðarafurðum að vera geipihátt, samanborið við verðlag á sams konar vörum annars staðar í heiminum. Það verður að vera geipihátt vegna þess ófremdarástands, sem íslenzkur landbúnaður er í og Framsfl. ber ábyrgð á og vill viðhalda.

En þeim framsóknarmönnum brást bogalistin. Verkamenn töldu þetta ekki eftir bændum. Það getur aldrei orðið verkamönnum til tjóns, að hagur bændanna batni, heldur þvert á móti, og kaup þeirra hækkar og lækkar í samræmi við verðlag á landbúnaðarvörum samkvæmt vísitölu. Verkamenn voru ekki svo skammsýnir að láta pólitískum ævintýramönnum takast að æsa til ófriðar milli sín og bænda út af smásmugulegum metingi um krónuna og eyrinn — einmitt þegar báðum stéttunum reið mest á að samræma hagsmuni sína og taka höndum saman. Og þeir vænta sömu víðsýninnar af bændum.

Þá hafa framsóknarmenn gert ítrekaðar tilraunir til að rjúfa samkomulagið, eftir að það komst á. Þeir byrjuðu með því að hækka útsöluverð á mjólk upp í kr. 1,70 í Reykjavík, eða ákveða það 17 aurum hærra en það átti að vera samkvæmt samkomulaginu; án þess þó að bændur ættu að fá einum eyri hærra. Þessir 17 aurar áttu að fara í einhverja dularfulla hít.

Sósíalistar komu í veg fyrir þetta með því að flytja frumvarp á Alþingi um að leggja útsöluverð landbúnaðarafurða undir verðlagseftirlitið, meðan samkomulagið er í gildi. Framsóknarmenn þutu nú út um allar sveitir til þess að hóa mönnum saman til að mótmæla þessu, og tókst það meira að segja á einstöku stað, með því að ljúga menn fulla. Þetta átti að vera alveg einstök árás gegn bændum, enda þótt hér væri um að ræða sameiginlegt hagsmunamál framleiðenda og neytenda, að koma í veg fyrir okur, sem er báðum stéttunum til tjóns. Þetta frumvarp hefur nú verið afgr. einróma sem lög frá Alþingi. Framsóknarmenn greiddu því líka atkvæði, að því óbreyttu, sem máli skiptir. Þetta dæmi ætti að kenna bændum landsins þá varúð að trúa aldrei einu orði af málflutningi Tímans og framsóknarerindrekanna, fyrr en þeir hafa fengið tækifæri til að afla sér óyggjandi heimilda.

Forustumenn Mjólkursamsölunnar í Reykjavík hafa unnið markvíst að því að koma af stað fjandskap við neytendurna í Reykjavík með óþolandi og fruntalegri framkomu. Við sósíalistar erum þeirrar skoðunar, að ráðið til þess að bæta úr þessu, til þess að eyða allri úlfúð milli framleiðenda og neytenda, til þess að gera dreifingarkostnaðinn sem minnstan og meðferð mjólkurinnar sem bezta, sé að neytendur taki að sér rekstur mjólkurstöðvarinnar og beri sjálfir alla ábyrgð á dreifingu mjólkurinnar. Við álitum, að þetta sé hagur jafnt framleiðenda og neytenda. Út úr þessu einfalda máli hafa framsóknarmenn hafið ofstopafulla æsingaherferð og logið svo miklu til, að firnum sætir. Þeir hafa skrökvað því, að vinnandi fólk í sveitum geri það líka.

Kaup verkamanna hækkar og lækkar með vísitölu. Út frá þeim forsendum væri samt mjög skakkt að álykta, að verkamenn varði ekkert um, hvort dýrtíðin er mikil eða lítil. Kjör fiskimanna eru því lakari sem dýrtíðin er meiri, meðan þeir verða að búa við samningsbundið fiskverð. Og mikill hluti alþýðunnar í landinu eru fiskimenn. Og það er öllum til tjóns, ef bátaútgerðin þarf að dragast saman.

Stefna ríkisstj. er að greiða niður dýrtíðina með framlögum úr ríkissjóði og falsa þannig vísitöluna, á meðan hún hefur ekki bolmagn til að lækka kaupið á annan hátt, en eins og kunnugt er frá tillögum stjórnarinnar í vor, er það heitasta áhugamál hennar.

Þegar ríkisstjórnin hækkaði verð á tóbaki og áfengi til þess að lækka verð á kjöti og mjólk, þá minnkar dýrtíðin ekki vitund vegna þess. Það er auðskilið, að það vörumagn, sem neytendur kaupa, er nákvæmlega jafndýrt eftir sem áður, nema menn dragi úr kaupum nautnavaranna, en þá nær ráðstöfun ríkisstjórnarinnar ekki tilgangi sínum.

En vísitalan lækkar. Og kaupið lækkar, — og til þess er leikurinn gerður.

Því er borið við, að þetta sé gert til þess að hjálpa fiskimönnum. En það hjálpar fiskimönnum harla lítið, og það mun óhætt að fullyrða, að það bætir trauðla afkomu nokkurs sjómanns. Fiskimenn greiða ekki kaup samkvæmt vísitölu. Fiskimenn varðar ekkert um vísitöluna út af fyrir sig. Það, sem þá varðar um, er raunveruleg lækkun dýrtíðarinnar.

Hverjir fá þá milljónirnar, sem ríkið hnuplar af verkamönnum og öðrum launþegum í þessu skyni? Því er auðsvarað. Ekki eru það fiskimenn og ekki bændur, heldur eru það atvinnurekendur og þá fyrst og fremst stóratvinnurekendur. Þeim eru gefnar milljónafúlgur á kostnað verkamanna með lækkuðum kaupgreiðslum. Til þess eru refirnir skotnir. — Það er auðskilið, að ef þessar ráðstafanir væru gerðar til þess að hjálpa fiskimönnum, þá væri miklu ódýrara og hagkvæmara að greiða féð beint til þeirra, því að þá lenti það allt hjá réttum aðilum.

Nú hefur ríkisstjórnin skipað nýja dýrtíðarnefnd, og í henni eiga sæti 3 fulltrúar frá Alþýðusambandinu og 3 frá Búnaðarfélaginu. Það mun hafa verið tilætlun ríkisstj., að nefnd þessi semdi um kauplækkun verkamanna og lækkun á afurðaverði til bænda. En Alþýðusambandið lýsti því yfir, um leið og það skipaði fulltrúa í nefndina, að af þeirra hálfu mundi ekki einu sinni verða rætt um þá hluti. Engu verður um það spáð, hvort nefndin kemst að sameiginlegri niðurstöðu. En það er mjög mikilsvert, að fulltrúum bænda og verkamanna gefist kostur á að bera ráð sín saman.

Hverjar eru þá tillögur Sósfl. til þess að sporna við vexti dýrtíðarinnar og vinna bug á henni?

Í fyrsta lagi: Mikil lækkun eða algert afnám tolla á nauðsynjavörum og þar með lækkun á öllu verðlagi í landinu. Tollarnir í ár munu varla verða minni en 50 milljónir króna. Þegar álagning er talin með, er hér um gífurlega upphæð að ræða. Með afnámi tollanna mætti lækka vísitöluna mjög mikið, en þó dýrtíðina miklu meira, því að aðeins lítill hluti tollanna kemur verulega fram á vísitölunni. Aðrar vörur mætti svo lækka í verði að sama skapi sem framleiðslukostnaður, dreifingarkostnaður og nauðsynleg álagning lækkar.

Fyrir launþegana er þetta mjög hagkvæm aðferð til að draga úr dýrtíðinni, því að það lækkar dýrtíðina meira en vísitöluna og verður því um leið til þess að leiðrétta vísitöluna.

Ein af höfuðorsökunum, sem veldur dýrtíðinni, er hinn gífurlegi heildsalagróði, sem leggst á vöruna og dafnar í skjóli verzlunarhaftanna. Hér gagnar ekkert verðlagseftirlit, allra sízt þegar því er stjórnað af heildsölunum sjálfum. Til þess að ná til þessa gróða þarf að gera mjög róttækar og víðtækar ráðstafanir, sem ekki eru framkvæmanlegar nema alþýðusamtökin hafi stjórnartaumana fast í sinni hendi. — En meðal þeirra ráðstafana, sem mest eru aðkallandi og Sósfl. mun leggja sérstaka áherzlu á, er að hjálpa fiskimönnum til þess að fá vörur til útgerðar, beitu, olíu, veiðarfæri o. s. frv., með hagkvæmu verði. Um þetta hafa fulltrúar sósíalista í milliþinganefnd í sjávarútvegsmálum lagt fram ýtarlegar tillögur, sem mun verða tækifæri til að rekja nánar síðar. Eitt ljósasta dæmið um okrið á útgerðarvörum og hina svokölluðu baráttu ríkisstj. gegn dýrtíðinni eru olíumálin. Undir verndarvæng ríkisstj. hefur álagning og dreifingarkostnaður olíunnar verið allt að 200%. Sósfl. berst fyrir því, að gerðar verði ráðstafanir til þess, að fiskimenn geti tekið dreifingu olíunnar í sínar hendur og fengið hana með kostnaðarverði miðað við innkaupsverð. En það horfir því miður ekki vænlega um þessi mál á þingi. Sjálfstfl. — eða réttara sagt forustumenn hans — ætlar sýnilega að gera málstað olíufélaganna að sínum málstað. Og öll sólarmerki benda til þess, að Framsfl. ætli að gera olíumálin að verzlunarvöru.

Ekki er það minna um vert fyrir fiskimenn, að þeim sé útvegaður skipakostur til þess að þeir geti sjálfir flutt fiskinn til Englands. Fyrir því er Sósfl. nú að berjast á Alþingi.

Flestum fiskimönnum mun vera það ljóst, hversu blygðunarlaust þeir eru féflettir með fisksölusamningnum. Hinn verðmæti bátafiskur er seldur á sama verði og miklu verðminni fiskur, sem stórútgerðarmenn afla. Enginn fulltrúi fiskimanna hefur fengið að koma nálægt þessum samningum. Það er höfuðnauðsyn, að fiskimenn láti ekki bjóða sér slíkt lengur. En ef engin fullnægjandi leiðrétting fæst á þessum málum, mun Sósfl. leggja til að jafna metin t. d. með því að kaupa gjaldeyri á lægra verði af stríðsgróðamönnum, sem hafa útflutning með höndum, og nota mismuninn til þess að greiða hærra verð fyrir fisk hlutarmanna og smáútvegsmanna. Sósfl. mun leggja megináherzlu á baráttuna fyrir því, að öllum hlutarmönnum verði tryggt viðunandi lágmarkskaup.

Ég hef nú í fáum dráttum rakið stefnu Sósfl. í dýrtíðarmálunum. Og þetta er stefna alþýðunnar í landinu. Og alþýðan, verkamenn, fiskimenn, bændur og menntamenn þurfa að taka höndum saman til þess að framkvæma þessa stefnu. Hverjar eru leiðirnar til þess?

Þessa dagana kemur saman í Reykjavík ráðstefna að tilhlutun Alþýðusambandsins til þess að ræða um stofnun bandalags alþýðustéttanna. Ef menn gera sér grein fyrir stefnu Framsfl., Alþfl. og Sjálfstfl. á grundvelli reynslunnar og fallast á, að hún sé í höfuðdráttum eins og ég hef lýst henni, þá er ekkert undarlegt, þótt forustulið afturhaldsins í þessum flokkum vilji ekki taka þátt í þessum samtökum og reyni á allan hátt að kæfa þessa tilraun til sameiningar fólksins í fæðingunni. — Ég hvet allan almenning til að lesa uppkastið að stefnuskrá fyrir þessi samtök, sem Alþýðusambandið hefur gefið út. Það er í 7 greinum: Barátta gegn dýrtíðinni, fyrir hagsmunum verkamanna, fiskimanna og bænda, fyrir auknum alþýðutryggingum og margháttuðum félagslegum og menningarlegum framförum, fyrir sjálfstæði Íslands, fyrir tryggingu atvinnunnar eftir stríðið og sókn fram til betra þjóðskipulags.

Það er ekkert í þessari stefnuskrá, sem hver íslenzkur alþýðumaður getur ekki fallizt á. Og allt eru þetta aðkallandi mál. Afdrif þeirra umbótamála, sem lögð eru fyrir Alþingi, eru undir því komin, hvaða afl er til með þjóðinni til að hrinda þeim í framkvæmd, enda þótt afturhaldið spyrni við broddum. Tökum t. d. hinar aðkallandi umbætur alþýðutrygginganna. Sósfl. hefur á undanförnum þingum lagt fram frumvörp um gagngerðar umbætur á tryggingarlöggjöfinni. Árangurinn varð sá, að skipuð var milliþinganefnd í fyrra til þess að endurskoða lögin og samþykkt viljayfirlýsing á þinginu um mikilsverðar umbætur á elli- og örorkutryggingunum. Og ríkissjóður lagði fram 3 milljónir króna, sem væntanlega skyldu ganga til atvinnuleysistrygginga. Milliþinganefndin hefur nú skilað fyrsta áliti sínu. Leggur hún fram frv. um mjög veigamiklar breytingar á slysatryggingunum og sjúkratryggingunum. Lagt er til, að fé það, sem varið er til slysabóta, verði margfaldað frá því, sem nú er í hinni almennu slysatryggingu, og óvinnufærum eftirlifandi aðstandendum veittur lífeyrir. Seinna mun nefndin leggja fram tillögur sínar um elli-, örorku- og atvinnuleysistryggingar. Það er mikil nauðsyn á, að hið vinnandi fólk í landinu eigi sér allsherjarsamtök til þess að hrinda slíkum sameiginlegum hagsmunamálum sínum áleiðis með sameinuðu félagslegu afli. Ég nefni þetta aðeins sem dæmi.

Ég er alveg sannfærður um, að allur þorri fiskimanna og bænda vill skipa sér í slík samtök. Þó að afturhaldssöm forusta í svokölluðum bændasamtökum spyrni við broddum, þurfa bændur ekki að láta segja sér fyrir verkum, hvar í sveit þeir skipa sér. Þeir eiga að taka sig saman, hver í sínu héraði og senda fulltrúa til að taka þátt í samstarfi hins vinnandi fólks, og þeir eiga að beita sér fyrir þátttöku félagasamtakanna sem heild. Öll félagssamtök halda sínu fulla sjálfstæði, þótt þau taki þátt í bandalaginu. Hér er aðeins um frjálst samstarf að ræða.

Ef hið vinnandi fólk í landinu ber gæfu til að skipa sér í eina sveit, þá er það ekki einungis sterkasta aflið í landinu, heldur eina aflið í landinu, sem nokkurs má sín. Þá eru öll gjöld tryggð í höndum alþýðunnar. Þá hyllir undir glæsilegustu aldahvörfin í Íslandssögunni.

„Nú er grafinn sá lýður frá liðinni tíð, er sig lægði í duftið og stallana hóf.“ Verkamenn munu ekki framar sætta sig við hörmungar atvinnuleysisins, við bágindi fátækraframfærslunnar, við sultarlaun fyrir 10 stunda vinnudag, eins og þeir gerðu fyrir stríð. Bændur munu heldur ekki sætta sig við örbirgðina og fásinnið framar. Þeir krefjast sambærilegra kjara við hið vinnandi fólk við sjávarsíðuna. Fiskimenn hljóta einnig að krefjast sams konar trygginga fyrir öruggri og mannsæmandi afkomu.

Þessar kröfur fólksins um betra og fyllra líf, meiri menningu og réttlátari skiptingu þjóðarteknanna eru mikið fagnaðarefni. Það ber að fagna þeim vegna þess, að þær eru réttlátar, vegna þess að fólkið hefur rétt til að gera slíkar kröfur. Auðæfi Íslands og tækni nútímans getur veitt öllum Íslendingum næg skilyrði til þess að lifa menningarlífi og búa við góð kjör. Við þurfum aðeins að kunna að skipa mannfélagsmálum okkar eins og mönnum 20. aldarinnar sæmir. Bændur hafa sagt a — við viljum lifa eins og menn, og það er vel — , en þá verða þeir einnig að segja b — við viljum koma þeirri skipan á landbúnaðarframleiðsluna og vinna ásamt verkalýðnum að þeirri gerbreytingu á þjóðskipulaginu, sem tryggir okkur öllum þjóðfélagslegt öryggi í framtíðinni. Hver maður með fullu viti sér, að það er skammgóður vermir að ætla sér að byggja framtíð sína og barna sinna á uppbótum úr ríkissjóði eða samningsbundnu verði, sem er helmingi hærra en vörurnar kosta komnar frá útlöndum. Það verður að koma landbúnaðinum í það horf tækni og skipulags, sem gerir hann fyllilega samkeppnisfæran við aðrar atvinnugreinar í landinu og sams konar framleiðslu annars staðar í heiminum. Annars er öll barátta fyrir kjarabótum unnin fyrir gýg. Þetta er leiðin til þess að lækka framleiðslukostnað landbúnaðarins og verðið á landbúnaðarafurðum, ekki á kostnað bænda, heldur með sameiginlegan hag neytenda og bænda og allra landsbúa fyrir augum. Þetta er eitt allra mikilvægasta verkefnið í baráttunni gegn dýrtíðinni.

Og það verður að láta hendur standa fram úr ermum, vegna þess hvað landbúnaðurinn er orðinn langt aftur úr. Á þinginu í fyrra var samþykkt þingsályktunartillaga frá Sósfl., þar sem Búnaðarfélaginu er falið að láta fara fram víðtækar rannsóknir til undirbúnings gagngerðri nýskipun í íslenzkum landbúnaði. Bændur verða að ýta á eftir því, að þetta verk verði unnið vel og samvizkusamlega. Í sambandi við dýrtíðarlögin lagði Sósfl. til, að ríkissjóður legði fram 3 milljónir króna sem byrjunarframlag í sjóð til eflingar íslenzkum landbúnaði til samfelldra ræktunarframkvæmda, til stofnunar byggðahverfa, til vélakaupa til sameiginlegra nota og til stofnunar fyrirmyndarbúa. Framsókn og Sjálfstæðið felldu þessa till. — Nú flytja sósíalistar breytingartillögu við fjárlögin, þar sem lagt er til, að 4 milljónum verði varið í sama skyni, jafnframt því sem veittar verði 10 milljónir til byggingar nýrra fiskiskipa, beint úr ríkissjóði, auk þess fjár, sem er í nýbyggingarsjóðunum.

Báðar þessar tillögur felldu gömlu þjóðstjórnarkempurnar, framsóknarmenn, sjálfstæðismenn og alþýðuflokksmenn — allir í sameiningu við 2. umr. fjárlaganna.

En þetta er aðeins einn þáttur þess, sem gera þarf til þess að tryggja framtíð fólksins í byggðum landsins. Ef auðvaldsskipulagið á að halda áfram, dugar engin tækni. Atvinnuleysið og kreppurnar, sem auðvaldsskipulaginu fylgja, bitna á bændum og fiskimönnum, með öllum sínum þunga, engu síður en verkafólkinu. Framleiðsluáætlun í landbúnaðinum getur ekki samrýmzt auðvaldsfyrirkomulaginu. Og án áætlunarframleiðslu — ekkert öryggi. Skipulagslaus framleiðsla fyrir ótryggan markað hlýtur að hafa í för með sér kreppur, hrun og örbirgð. Engin verðsamtök megna að koma í veg fyrir það. Þess vegna verða bændur og fiskimenn að taka höndum saman við verkafólkið í baráttunni fyrir gerbreytingu á þjóðskipulaginu. Annars er allt samkomulag þessara stétta til þess að tryggja afkomu sína á sandi byggt.

Með tilstyrk verkalýðssamtakanna hefur hagur bænda batnað til muna. Þeir, sem sjóinn stunda í verstöðvum landsins, eiga kröfu til þess, að þeim sé einnig tryggt, að þeir beri úr býtum fyrir vinnu sína það, sem þeim ber í samanburði við aðra. Til þess eiga þeir vísan öruggan stuðning verklýðssamtakanna. En verkamenn ætlast jafnframt til þess, að þeir njóti fulltingis bænda og annarra smáframleiðenda til þess að bæta kjör sín, til þess að tryggja þeim stöðuga atvinnu og efnahagslegt öryggi. Alveg sérstaklega hafa verkamenn þó rétt til að ætlast til þess af bændum, að þeir veiti ekki fjandmönnum þeirra lið, hvort sem þeir kalla sig framsóknarmenn eða eitthvað annað. Eða með öðrum orðum: Þess er vænzt, að bændur gangi ekki í sveit gegn sjálfum sér og stétt sinni.

Hamingja lands vors er undir því komin, að hinum vinnandi stéttum auðnist að taka höndum saman.