11.10.1943
Neðri deild: 30. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (1067)

88. mál, lendingarbætur í Vogum

Flm. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Í grg. þessa frv. er í aðalatriðum tekið fram það, sem máli skiptir fyrir hv, þdm., til þess að þeir hafi rétta aðstöðu til að taka afstöðu og ákvörðun um þetta mál. En vegna þeirra, sem miður eru kunnugir staðháttum þarna í Vogum, skal ég drepa á það, að úti fyrir þessari væntanlegu höfn, ef frv. verður samþ., þar sem nú eru hafnleysur, eru einhver allra beztu fiskimið landsins, og ég geri ráð fyrir, að það sé öfgalaust að segja, að hæpið sé, að innan Faxaflóa liggi aðrir staðir betur við lendingarbótum en einmitt þessir staðir.

Það er alllangt síðan fram fóru rannsóknir á kostnaði við hafnar- og lendingarbætur á þessum stöðum, og þegar áður en heimsófriðurinn brauzt út, lágu fyrir um þetta ýtarlegar áætlanir, framkvæmdar af vitamálastjóra eða undir hans stjórn.

Með þessu frv. er farið fram á það, að auðið verði að hefjast handa í þessum efnum, og þó er hér ekki stílað hærra en svo, að reist verði mannvirki, sem fyrir stríð var áætlað að mundu kosta um 350 þús. kr. Það er álit þess manns, sem almennt er vitnað til í þessum efnum sem kunnugasta manns á þessu sviði, vitamálastjóra, að þessir staðir, sem hér ræðir um, liggi óvenjulega vel við hafnarmannvirkjum. Staðhættir þar eru þannig, að þar má með tiltölulega litlum kostnaði framkvæma mannvirki, sem geta orðið hlutfallslega að mjög miklu liði. Útgerð á þessum stað er nú ekki mjög mikil, enda eru hreppsbúar ekki nema um 300 manns. Og það er rétt að segja frá því, að hafnarskilyrði eru nú ekki betri þarna en svo, að þeir bátar, sem þar eiga heimilisfang, hafa neyðzt til að leita út fyrir hreppinn til skjóls fyrir útgerðina. En ef þessar lendingarbætur verða gerðar, sem frv. fjallar um, þá er víst, að þarna mun rísa upp blómleg útgerð, og ég hygg, að mjög margir fleiri en hreppsbúarnir þar mundu þá gera út fiskibáta sína frá þessum stað.

Það er einnig álit kunnugra manna og þar á meðal vitamálastjóra, að ef þessar lendingarbætur verða framkvæmdar, þá sé ráðin bót á mikilli þörf þeirra báta, sem fiska við Faxaflóa, fyrir athvarfshöfn. En þessi staður yrði tvímælalaust langlíklegasta athvarfshöfn við Faxaflóa. Þó hygg ég, að þessar lendingarbætur geti ekki fullnægt útgerðarmönnum í þessu efni, sem þar ræðir um. En hér er þá ekki heldur um neinn ákaflega mikinn kostnað að ræða eftir till. frv., samanborið við þær tölur, sem hæstv. Alþ. fjallar um. Og hvort sem landshöfn kemst á þarna syðra eða ekki, þá er ekki fyrir gýg unnið með þeim mannvirkjum, sem hér er farið fram á styrk til að framkvæma.

Ég minni aðeins á, að bæði þessi hreppur og aðrir nærliggjandi hreppar hafa verið mikil tekjulind ríkissjóði, án þess þó að ríkissjóður hafi borið vegna þeirra mikla bagga. Það tel ég einnig, að mæli með því, að ríkið veiti styrk í þessum efnum.

Vænti ég þess, að hv. þd. taki þessu máli með skilningi, og vil leyfa mér að mælast til þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og sjútvn.