26.10.1943
Neðri deild: 38. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

45. mál, hafnarbótasjóður

Sigurður Bjarnason:

Ég get verið hv. sjútvn. þakklátur fyrir afgreiðslu þessa máls. Brtt. n. raska engu aðalefni eða tilgangi frv.

Fyrri lið í fyrri brtt. hv. n. get ég vel sætt mig við, að í stað orðsins „kauptúnum“ komi: kaupstöðum, — það gerir verksvið sjóðsins víðtækara. Það var ekki tilgangur okkar flm. að útiloka kaupstaðina. Enn fremur felli ég mig við að fella niður síðari hluta 1. gr., þar sem kemur fram stefnuyfirlýsing um starfsemi sjóðsins, og það því fremur sem í 4. gr. er ákveðið, að ekki megi veita fé úr honum fyrr en Alþ. hafi sett nánari ákvæði um þær fjárveitingar.

Ég get enn fremur fallizt á þá breyt., sem hv. n. vill gera á 2. gr., að binda ekki fjárframlag til sjóðsins við tekjuafgang ríkissjóðs 1943, heldur orða þetta ákveðnar. Í þeirri brtt. felst náttúrlega fullkomin trygging fyrir því, að féð verði lagt fram. Ég hafði að vísu búizt við, að nógu tryggilega væri um hnútana búið í 2. gr., þar sem svo er fyrir mælt, að fé skuli lagt fram úr framkvæmdasjóði ríkisins, ef tekjuafgangur hrökkvi ekki fyrir hinni tilteknu upphæð, þannig að sjóðurinn væri allar götur tryggur með framlag sitt. En ég get fallizt á þessa brtt. hv. n., sem miðar að því að tryggja sjóðnum fé, hvernig sem allt veltur.

Ég vænti svo, að þetta frv. fái greiða afgreiðslu. Það er mikið nauðsynjamál fyrir þjóðarheildina að létta undir með stöðum, sem liggja vel við góðum fiskimiðum, en búa við lítil hafnar- og lendingarskilyrði að öðru leyti.