18.10.1943
Neðri deild: 33. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í B-deild Alþingistíðinda. (1129)

99. mál, lax- og silungsveiði

Flm. (Garðar Þorsteinsson):

Herra forseti. Efni þessa frv. er það, að samþ. sé undanþága frá ákvæðum l. um lax- og silungsveiði til þess að heimila þar veiði á beitusíld og smásíld, sem sú veiði hefur verið stunduð að staðaldri, innan 500 metra frá árósum, þar sem það nú er óheimilt eftir ákvæðum l. um lax- og silungsveiði.

Þó að þetta frv. sé orðað almennt, þá hef ég ekki í huga nema einn stað á landinu, sem svo sérstaklega stendur á um, að í fjöldamörg ár hefur verið veidd beitusíld þar í marz og apríl, og það er við árósa Svarfaðardalsár. Það hefur veiðzt þarna smásíld og loðna á þessum tíma og komið sér mjög vel, sérstaklega vegna þess, að á þeim tíma hefur ekki fengizt nein beita þar önnur og smásíld veiðist yfirleitt ekki á þeim tíma á Akureyrarpolli. Dalvíkingar hafa notað sér þessa veiði mikið, en eftir að laxveiðilöggjöfin var sett og veiðifélag var stofnað við Svarfaðardalsá, var kært yfir því, að þarna var veidd þessi smásíld við árósinn. Og samkvæmt 1. var ekki hægt að komast hjá því að sekta fyrir þetta og banna veiðina. En frv. miðar að því að leyfa þessa veiði. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið frá mönnum, sem kunnugir eru göngu lax- og silungs, þá er talið, að ekki sé hætta á því, að þetta spilli fyrir göngu þeirra fisktegunda. Silungur gengur ekki upp í ána um þetta leyti árs og lax því síður.

Það liggja hér fyrir samþykktir frá Fiskifélagi Dalvíkur og Verklýðsfélagi Dalvíkur, þar sem skorað er á þm. að vinna að því, að þessi breyt. verði gerð á l. Og ég vona, ef sú n., sem fær málið til athugunar, sem ég hygg, að ætti að vera sjútvn., kemst að þeirri niðurstöðu, að þessi undanþága sé ekki hættuleg gagnvart göngu lax og silungs í ána, að þá nái þetta frv. fram að ganga nú á þessu þingi.