08.11.1943
Efri deild: 44. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (1140)

99. mál, lax- og silungsveiði

Þorsteinn Þorsteinsson:

Það er náttúrlega engin ástæða til að gera þetta að kappsmáli, til hvorrar nefndarinnar málinu verði vísað, en eins og hv. 1. þm. Eyf. gat um, þá hafa þessi mál um lax- og silungsveiði jafnan gengið í landbn., og er enn meiri ástæða til þess nú í þessari hv. d. en var í hv. Nd., þar sem hér liggur nú fyrir erindi frá fiskræktarfélagi Svarfdæla, sem snertir eingöngu lax- og silungsveiði, og verður einnig að líta á upplandið í þessu sambandi, en ekki eingöngu ósana. Ég játa, að sjútvn. er e. t. v. vel skipuð og mikilvirk, en mér finnst þetta eiga að vera í sömu skorðum og það hefur alltaf verið.