15.11.1943
Efri deild: 48. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í B-deild Alþingistíðinda. (1145)

99. mál, lax- og silungsveiði

Hermann Jónasson:

Án þess að ég vilji blanda mér inn í þessar umr. með löngu máli, vildi ég aðeins, — ekki sízt vegna þess, að frsm. n., hv. þm. Dal. (ÞÞ), lét í ljós, að málið yrði athugað nánar til 3. umr., – vildi ég taka fram, að ég hygg, að undanþágur í þessu efni geti verið talsvert hættulegar. Það hefur borið á því, einmitt við Eyjafjörð, að dregið hafi verið fyrir undir því yfirskini, að verið væri að veiða loðnu og síld, en árangurinn hefur orðið sá, að jafnvel heilir bátsfarmar af bleikju hafa veiðzt. Það er vitað mál, að þarna norður frá kemur bleikjan einmitt seinni part vetrar upp í ármynnin og liggur oft lengi án þess að ganga upp í árnar, sennilega til þess að venjast ferska vatninu, og þá er það segin saga, að veiðin er eyðilögð með þessum hætti. En það er uppistaðan í veiðilöggjöf okkar að veiða ekki í sjónum þann fisk, sem gengur í árnar, þegar hann er kynþroska, og eykur þar kyn sitt, og þess vegna er það stórkostlegt tjón að veiða fiskinn í sjónum. Af þessari ástæðu vil ég vara við þessu og bið menn að minnast þess, að þeir, sem áhuga hafa á því að rækta upp árnar norður frá, hafa tjáð sig vera því mótfallna.

Mér er satt að segja ekki kunnugt um, að síld og loðna séu sérstaklega í námunda við árósana frekar en annars staðar, nema síður sé, en það er aftur á móti vitað mál, að bleikjan liggur fyrst og fremst á þeim stöðum, sem áhrífa frá ferska vatninu gætir, þegar hún er að sækja upp í árnar. Ég álít þess vegna þetta talsvert varhugaverðan hlut og vildi óska þess, að land bn. þessarar hv. d. rannsakaði málið nánar, því að það kemur æ betur og betur í ljós, eftir því sem þessi mál eru athuguð, að bleikjan er sennilega engu verðminni nytjafiskur en laxinn. Athuganir síðustu ára og það, sem hefur gerzt viðkomandi Fnjóská, ætti að geta sannfært okkur um það. Þar hefur fyllzt af bleikju, síðan áin var friðuð og fossinn sprengdur, svo að hann yrði fær til gangs fyrir fiskinn. Þetta vildi ég, að sérstaklega væri athugað.