24.09.1943
Neðri deild: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í B-deild Alþingistíðinda. (1153)

63. mál, tjóni af veru herliðs hér á landi

Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil strax á þessu stigi málsins mæla eindregið með því, að þetta frv. verði samþ. En mér þykir ástæða til að taka fram, einkum ef frv. fer til fjhn., að það þarf að athuga það frá fleiri hliðum en þeirri fjárhagslegu.

Eins og frsm. tók fram, eru nú starfandi tvær nefndir, sem fjalla eiga um tjón á eignum manna af völdum hersins, en undir þær hefur ekki þótt ástæða til að taka annað en það, sem gerist á landi. Aftur á móti skil ég svo 1. gr. þessa frv., að hér sé ekkert tjón undanskilið, hvorki á sjó né landi.

Nú er það vitanlegt, að ýmis konar landspjöll hafa þótt nauðsynleg af hernaðarástæðum. Þó hafa líklega meiri verðmæti farið forgörðum á sjónum, bæði af völdum Bandaríkjanna og Bretlands. Mér er einnig kunnugt um það, að mjög erfitt hefur reynzt að ná rétti sínum í þessum málum, þar eð þau eru ekki sótt fyrir íslenzkum dómstólum og erfitt fyrir einstaklingana að sækja rétt sinn til annarra landa eða annarra heimsálfa.

Í þessu sambandi get ég tekið fram, að það er a. m. k. vafasamt að undanskilja hér tjón af völdum Breta. Er herverndin hófst, mun það hafa orðið að samkomulagi, að brezkt lið yrði einnig eitthvað í landinu og við strendur þess, a. m. k. hefur sú raunin á orðið. Því finnst mér sanngjarnt, að ríkið annist milligöngu við bæði löndin, ef það ákveður að taka að sér milligöngu við annað, a. m. k. hvað viðvíkur bótakröfum eftir 7. júlí 1941.

Ég tel mikla nauðsyn á að þetta frv. nái fram að ganga, bæði af því að ríkið er sterkari aðili gagnvart hinu erlenda valdi, en þó fremur af því, að borgararnir hafa ekki tök á að sækja mál sín eins og nú horfir og hefur gert.

Það hefur oft komið fyrir, að skip í þjónustu fyrrnefndra þjóða hafa valdið tjóni á íslenzkum skipum, og stundum hafa þau alveg glatazt. Það hefur gengið treglega að fá þetta tjón bætt. Stundum hafa skipin verið tryggð, sem tjóninu ollu, og hefur þá orðið að sækja kröfu á hendur tryggingafélögum, en á því eru ýmsir erfiðleikar fyrir einstaklinga og félög. Stundum hafa herskip valdið tjóninu, en reynsla hefur fengizt fyrir því og verið staðfest af íslenzkum hæstaréttardómi, að tjón af völdum herskipa þurfi ekki að vera talið af hernaðarvöldum. Það var íslenzkt skip, sem var siglt niður, og nokkrir menn fórust. Skipið, sem tjóninu olli, var í hernaðarþjónustu og sigldi því ljóslaust eftir fyrirmælum. Hæstiréttur leit svo á, að þetta slys hefði ekki orðið af hernaðarorsökum. Þetta er staðreynd. Svo varð fátækt félag að bæta þetta tjón og leita síðan réttar síns til hernaðaraðila og senda réttarpróf í málinu og önnur nauðsynleg gögn.

Ég get nefnt fjölmörg dæmi þess, hve erfiðlega hefur gengið fyrir menn að fá bætur í þessum málum. En ég ætla að láta nægja að taka hér eitt:

Það var skip hersins, sem braut einn bát af mörgum. Það var í fyrstunni ekki véfengt, að þetta skyldi bætt. Eigandinn lét því gera við bátinn og borgaði það úr sínum vasa. En er hann kemur með reikningana til hinna erlendu aðila til að fá þá endurgreidda, þá neita þeir að borga nema helminginn. Hver átti að borga hinn helminginn? Það er óvéfengjanlegt, að skemmdirnar kostuðu þessar endurbætur, en tjónið fékkst ekki greitt á annan hátt en þann, að maðurinn, sem fyrir því varð, sætti sig við að taka við aðeins helmingi kostnaðarins við endurbæturnar eða ekki það. Það má vel vera, að þetta hefði gengið öðruvísi fyrir, ef íslenzka ríkið hefði haft milligöngu um þetta, ef það væri alltaf kröfuhafinn í slíkum tilfellum og legði ætíð fram óvéfengjanleg gögn. Og það er alveg nauðsynlegt fyrir einstaklinginn að þurfa ekki að vera að eltast við þetta, enda virðist það vera alveg sanngjarnt, þegar hernaðaryfirvöld Bandaríkjanna eru komin hingað til lands að boði og beiðni Íslendinga og um það var samið. að þau bættu tjón, sem verða kynnu af því. Er þá mjög sanngjarnt, að einstaklingarnir eigi aðgang að ríkinu um þetta. Fyrir ríkið ættu, skilst mér, oftast að verða lítil útgjöld nema í bráð vegna þessa, þar eð það er ekki ástæða til að efast um, að kröfum íslenzka ríkisins verði fullnægt af Bandaríkjastjórn, ef þær eru á réttum rökum reistar.