24.09.1943
Neðri deild: 22. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 694 í B-deild Alþingistíðinda. (1158)

63. mál, tjóni af veru herliðs hér á landi

Flm. (Garðar Þorsteinsson) :

Herra forseti. Það er aðeins eitt atriði, sem ég vil minnast á í sambandi við slysið á bátnum við Gróttu. Það er upplýst, að það var amerískur tundurspillir, sem sökkti bátnum. En samkvæmt 1. gr. frv. væri ríkissjóður ekki í öllum tilfellum skyldugur til þess að bæta slíkt tjón sem þetta. Það takmarkast af 2. gr. frv. og færi eftir því, hvort sökin á tjóninu sannast á tundurspillinn. Því að í 2. gr. segir svo: „Bótaskylda ríkissjóðs samkvæmt 1. gr. kemur því aðeins til greina, að sá, sem tjóninu hefur valdið, mundi vera bótaskyldur samkvæmt íslenzkum lögum.“ Ég ætlaðist til þess, að þetta skildist þannig, að það væri ekki ætlazt til þess, að eigandi bátsins fengi greiðslu frá ríkissjóði, nema það í fyrsta lagi sannaðist, að það sé Bandaríkjaherliðið, sem hafi valdið tjóninu, og í öðru lagi, að sök þess væri sönnuð eftir íslenzkum lögum. Ef það er hins vegar þeim aðila að kenna, sem á bátnum er, að hann er sigldur í kaf, og sök hans sannast á því, þá er ekki ætlazt til þess, að hann fái bætur, því að það er ekki eftir venjulegum reglum eða íslenzkum lögum.