10.11.1943
Efri deild: 45. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (1169)

63. mál, tjóni af veru herliðs hér á landi

Frsm. (Pétur Magnússon) :

Nýmæli þessa frv. er fólgið í 1. gr. þess, en með ákvæðum hennar er ríkissjóði lögð sú skylda á herðar að bæta íslenzkum ríkisborgurum tjón, sem þeir bíða eða kunna að bíða vegna aðgerða hernaðaryfirvaldanna hér á landi, eða tjón, sem menn úr herliðinu kunna að valda. Fjhn., sem hafði þetta frv. til athugunar, hefur fallizt á þetta sjónarmið. Hún telur, að það sé eðlilegt, þegar litið er til allrar aðstöðu um veru herliðsins hér, að ríkissjóði verði lögð þessi skylda á herðar. Það gefur að skilja, að fyrir hverjum einstökum borgara eru allmiklir örðugleikar á því að ná rétti sínum, ef þeir hafa beðið tjón, og engin sanngirni sýnist mæla með því, að þótt menn verði af einhverjum ástæðum að láta eignir sínar af hendi, löglega eða ólöglega, séu menn látnir gjalda þess.

Í 2. og 4. gr. eru ákvæði, sem takmarka að meira eða minna leyti þá áhættu, sem ríkissjóði er ætlað að taka á sig samkvæmt 1. gr. Í 2. gr. er tekið fram, að bótaskylda ríkissjóðs komi því aðeins til greina, að sá, sem tjóninu hefur valdið, mundi vera bótaskyldur samkvæmt íslenzkum l. Þetta ákvæði er sjálfsagt, því að vitanlega er það ekki ætlunin, að menn séu betur settir í þessu tilfelli en þeir mundu vera samkvæmt gildandi ákvæðum í íslenzkum l. Enn fremur er í þessari gr. ákvæði um, að hámark hverrar kröfu á hendur ríkissjóði skuli takmarkast við 50000 kr. Þetta þótti rétt að setja, til þess að ríkissjóði yrðu ekki bundnir baggar, sem tvísýnt væri um, að hann væri fær um . að takast á herðar. Í 4. gr. er ákvæði um það, að ef sá, sem fyrir tjóninu verður, tekur við greiðslu skaðabóta, skuli ábyrgð ríkissjóðs falla niður. Sama gildir eftir 2. málsgr., ef bætur eru greiddar frá vátryggjanda. N. þóttu þessi ákvæði 4. gr. ekki nógu skýr, eins og þau eru í frv., og hefur leyft sér að bera fram brtt., þar sem 4. gr. er orðuð um. Þar er tæplega um efnisbreytingu að ræða, heldur gerð skýrari þau ákvæði, sem gr. er ætlað að fela í sér. Þar er það skýrt tekið fram, að ef sá, sem tjónið hefur beðið, tekur við greiðslu skaðabóta frá þeim, sem tjóninu hefur valdið, sé ábyrgð ríkissjóðs lokið, hvort sem hann hefur fengið fullar bætur eða ekki. Það þykir ekki eðlilegt, að ef tjónþoli hefur á annað borð samið við setuliðið, geti hann snúið sér til ríkissjóðs, ef hann sér, að hann hefur samið af sér. Hann yrði að fara aðra hvora leiðina, snúa sér til ríkissjóðsins eða þess, sem tjóninu hefur valdið. Í síðari málsgr. er skýrt tekið fram, að vátryggjandi, sem bætur greiðir, öðlist ekki kröfurétt á ríkissjóð. Vátryggjandi verður því að halda sér að þeim, sem tjóninu hefur valdið, ef hann vill fá skaðabætur. Tjónþoli getur ekki krafizt bóta að svo miklu leyti sem hann hefur þegið bætur af vátryggjanda. Þetta er eina breyt., sem n. hefur komið fram með.

Ég vil geta þess, að hæstv. dómsmrh. benti mér á, eftir að brtt. var komin fram, að ástæða væri til að setja fyrningarfrest á kröfur, sem menn kynnu að eignast á ríkissjóð vegna þessa. Eftir gildandi l. mun vera 10 ára frestur á slíkum kröfum. Fjhn. mun taka þetta til athugunar, og þykir mér sennilegt, að n. beri fram brtt. um þetta atriði. En með þessar brtt. leyfir fjhn. sér að leggja til, að frv. nái fram að ganga.