18.11.1943
Neðri deild: 49. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (1177)

63. mál, tjóni af veru herliðs hér á landi

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins láta þess getið í sambandi við þetta mál, að sú breyt. mun hafa verið gerð á frv. í Ed., að upphæð þeirra bóta, sem ríkissjóður þarf að bera ábyrgð á, skuli ákveðin hæst 50 þús. kr. Ég held, að með þessu geti farið svo, að sumir þeir, sem eiga rétt á slíkum bótum, eigi kröfu til þess að fá meiri bætur en þetta hámark ákveður. Ég tel því, að ástæða væri til þess að athuga þetta á ný. En ef nú á að fara að breyta málinu á nýjan leik, getur það tafið málið nokkuð. Ég segi ekki, að það stöðvi það, en það dregur úr mér með að koma nú fram með brtt. við þetta atriði, þótt ég telji, að þessu þurfi að breyta. En það má gera á næsta þingi, og mun ég því ekki halda málinu til streitu nú en vildi láta þetta álit mitt koma fram.