18.11.1943
Neðri deild: 49. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (1178)

63. mál, tjóni af veru herliðs hér á landi

Frsm. (Garðar Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins benda á það, að þessi takmörkun var sett inn í Nd. við 2. umr., og það var gert til þess, að þetta væri í samræmi við annað frv. sem er um ábyrgð ríkisins á tjóni af völdum starfsmanna sinna og nú liggur einnig fyrir Alþ.

Ég skal játa það, að tjón það, sem einstakir menn kunna að verða fyrir, getur farið fram úr þessu 50 þús. kr. hámarki, t. d. ef hús eru tekin og rifin, en það mun ekki hafa orðið ágreiningur um bætur fyrir slíkt tjón. Um tjón á skipum er það að segja, að þá eiga eigendur kröfu á hendur viðkomandi vátryggingafélagi um fullar bætur á tjóninu. Annars er ég sammála hv. þm. Vestm. um það, að vera kunni, að þetta hámark sé of lágt. En eins og ég tók fram áðan, þá var þetta ákveðið þannig til að samræma það við annað frv., sem nú liggur fyrir og er um ábyrgð ríkisins á tjóni, sem starfsmenn þess kynnu að verða valdir að.