18.11.1943
Neðri deild: 49. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (1179)

63. mál, tjóni af veru herliðs hér á landi

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á því, að ég hélt, að þetta atriði um hámarkið hefði komið inn í frv. í Ed. Það hefur á einhvern hátt farið fram hjá mér, að það var sett hér inn við 2. umr., eins og hv. frsm. upplýsti. Hv. frsm. sagði, að ágreiningur mundi ekki hafa orðið, þegar um bætur fyrir heil hús væri að ræða. En ég veit dæmi þess, t. d. með húsið í Skerjafirðinum, sem flugvélin hrapaði ofan á, svo að ekki einungis húsið eyðilagðist með öllu, heldur einnig allt innbú þess. Bæturnar fyrir þetta hefðu áreiðanlega átt að nema meira en 50 þús. kr., og eigandinn lenti í mestu vandræðum með að fá bætur fyrir tjónið og fékk aldrei eins mikið og hann þurfti til þess að vinna upp skaðann. Það er því engum vafa bundið, að hámarksupphæðin er of lág, en ég skal þó ekki fara að taka upp deilur um þetta atriði nú, og hv. frsm. var mér einnig sammála um, að upphæðin kynni að vera of lág. En eins og ég sagði áðan, mun ég ekki reyna að fá þessu breytt nú, því að það er mjög nauðsynlegt, að málið nái fram að ganga, og það er alltaf hægt að koma með brtt. við þetta síðar. Og ég geri ráð fyrir, að þess verði ekki langt að bíða, að reynslan sýni fulla þörf á því.