21.10.1943
Efri deild: 37. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (1183)

107. mál, brunatryggingar í Reykjavík

Flm. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja þetta frv. hér ásamt nokkrum öðrum hv. þm., og er það gert skv. áskorun bæjarráðs Reykjavíkur.

Í núgildandi l. er að vísu svo tekið fram, að hús í Reykjavík skuli tryggð með fullu verði til brunabóta, en í framkvæmdinni er það orðið svo, eftir að verðhækkunin átti sér stað, að fjöldi húsa er tryggður aðeins að nokkrum hluta. Vegna verðhækkunarinnar er svo komið, að eigendur margra húsa mundu ekki fá fullar bætur, ef brynni. Af þessu leiðir, að segja má, að ákvæðin um tryggingu gegn bruna séu ekki fullkomin. En við það verður að kannast, að erfitt er að koma þessu í viðunandi horf sökum kostnaðar og ýmissar fyrirhafnar, þótt hægt væri að meta hvert hús í samræmi við verðhækkunina, enda er það ekki leyfilegt samkv. lögum.

Sérstaklega hefur það komið í ljós nú í sambandi við endurnýjun á sumum brunatryggingum fyrir bæinn, að núverandi fyrirkomulag er ófullnægjandi. Það hefur orðið til þess, að enn hærri iðgjalda hefur verið krafizt en ella. Þeir, sem láta tryggja húsin fullu verði, verða verr úti en þeir, sem láta ekki tryggja nema að einhverjum hluta. Hinir síðarnefndu yrðu hins vegar fyrir meiri skaða, ef bruna bæri að höndum, því að þá fengju þeir ekki fullar bætur. Þess vegna hefur það orðið að samkomulagi innan bæjarráðs að fá lögunum breytt, þannig að sú breyt. gæti legið fyrir, er tilboð um brunatryggingar fyrir bæinn, sem fyrir liggur, að boðið verði út, verði lagt fram. Verður væntanlega boðið út einhvern næstu daga.

Iðgjöld mundu verða lægri, ef sú breyt., sem hér er farið fram á, yrði gerð, en heildarupphæð iðgjaldanna yrði hærri en ella. Það, sem tryggt er, yrði talið meira virði en nú er.

Tryggingafélögin stóðust ekki verðsveiflurnar í síðasta ófriði, vegna þess að endurtryggingar áttu sér ekki stað í nógu stórum stíl. Þess vegna voru þau ekki viðbúin að mæta tjóni því, sem þau urðu fyrir.

Að öðru leyti læt ég nægja að vísa til þess, sem segir í grg. — Nokkrir flm. óska að hafa rétt til að flytja brtt. við frv.

Sessunautar mínir til beggja handa hafa bent mér á tvö atriði, sem rétt væri að taka fyrir í n. þeirri, sem kemur til með að fjalla um málið.

Leyfi ég mér að lokum að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og allshn.