18.11.1943
Neðri deild: 49. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (1213)

126. mál, lóðir og lönd Reykjavíkurkaupstaðar

Frsm. (Þóroddur Guðmundsson):

Herra forseti. Það er nú svo um þetta mál, að það er svo sjálfsagt, að það þarf í rauninni enga framsögn að hafa fyrir því. Það er flutt af fjórum þm. Reykjavíkurbæjar og þar á meðal borgarstjóranum, svo að það hefur sjálfsagt verið athugað rækilega af hálfu bæjarins, og nauðsyn þess er svo augljós, að ekki þarf að rökstyðja hana.

Það, sem helzt kynni að verða ágreiningur um, er það, hve há leigan skuli vera. Nú er gert ráð fyrir því í frv., að ársleigan eftir lóðir, sem leigðar eru til íbúðarhúsabygginga, skuli vera 5% af fasteignaverði lóðarinnar, og sýnist það vera mjög sanngjarnt. — Annað, sem ágreiningur kynni að verða um, er leiga eftir lóðir, sem eru leigðar undir annað en íbúðarhús, en viðvíkjandi þeim er það tekið fram, að leigjandi skuli geta krafizt yfirmats á leigunni, og er því ekki hægt að segja annað en vel sé séð fyrir rétti hans.

Frv. þetta hefur verið borið undir bæjarráð Reykjavíkur, og það hefur samþ. það. Allshn. hefur einróma lagt til, að frv. verði samþ. — Að öðru leyti læt ég nægja að vísa til grg.