18.11.1943
Neðri deild: 49. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (1215)

126. mál, lóðir og lönd Reykjavíkurkaupstaðar

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Hv. þm. Mýr. hefur þegar bent á annað atriðið, sem ég ætlaði að minnast á, og þarf ég því ekki að ræða frekar um það.

Hitt atriðið er það, að ég hygg, að nú sé starfandi sérstök n., sem eigi að athuga, hvaða skipan verði á um þessi mál í landinu, þannig að bæirnir geti með sem beztu móti fengið lóðir til sinna nota. Mér skilst einnig, að þessi n. muni vera komin langt áleiðis með þessi störf sín. Ég hefði viljað mælast til þess við þá n., sem hefur þetta mál til athugunar, að hún kynnti sér hvað liði niðurstöðum þeirrar mþn., er fjallar nú um þessi mál utan þings, hvort ástæða er til að taka Reykjavíkurbæ einan út úr, ef von er á frv. um þetta efni fyrir landið í heild á næsta þingi.