18.11.1943
Neðri deild: 49. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (1216)

126. mál, lóðir og lönd Reykjavíkurkaupstaðar

Frsm. (Þóroddur Guðmundsson):

Ég held, að þær athugasemdir, sem fram hafa komið við þetta frv., séu ekki svo mikilvægar, að ástæða sé til að láta þær stöðva eða tefja málið. Hv. þm. Mýr. benti á, að garðar í kringum lóðir og umbætur á lóðunum hlytu að hækka fasteignamat lóðanna, svo að það mundi verða til þess, að menn yrðu ófúsari til umbóta á lóðum sínum, þar eð leigan eftir þær reiknast viss hundraðstala af fasteignamati þeirra. En garðar í kringum lóðir eru ekki taldir í lóðaverðinu. En hvað viðkemur umbótum og ræktun á lóðum, þá held ég, að hvergi sé síður að taka tillit til þess í átt til hækkunar á mati, þegar merkt er til fasteignamats. Ég held því að þetta sé ástæðulítið þóf.

Hitt gæti svo verið til athugunar, hvort leigugjaldið er ákveðið of hátt í frv., en það er 5%. En það er tekið í öllum kaupstöðum, og að svo komnu máli er ég á þeirri skoðun, að það sé sanngjarnt.