25.11.1943
Sameinað þing: 36. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

27. mál, fjárlög 1944

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. hlustendur. Funduð þið einhvern mun á því, sem hv. þm. V.-Húnv., Skúli Guðmundsson, og hv. 2. þm. Rang., Ingólfur Jónson, sögðu hér áðan? Var nokkur gráðumunur á blekkingunum, sem þeir fluttu? — Var stefnan ekki ein og hin sama hjá báðum: baráttan gegn sósíalistum, háð með álíka óskammfeilni í blekkingum og áróðri og fasistum er eiginlegt.

Finnst ykkur, að það sé líklegt, að Alþýðuflokkurinn, sem gekk inn í þjóðstjórnina 1939 til þess að lækka kaup verkamanna, minnka félagslegt öryggi, hindra samtakafrelsi verkamanna, koma á skattfrelsi auðmanna, koma á atvinnuleysi, — finnst ykkur líklegt, að hann muni vinna mikið að því að framkvæma þær fögru hugsjónir, sem hv. 4. þm. Reykv., Stefán Jóh. Stefánsson, var að lýsa hér áðan? — Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá!

Alþfl. lofaði öllu fögru við kosningarnar 1937, m. a. því að berjast gegn allri gengislækkun. Og hvað gerði hann svo, er á þing kom? Lækkaði gengið.

Ég læt þetta nægja um síðasta ræðumann og samstarfið við þjóðstjórnarflokkana.

Formaður Framsfl., hv. þm. S.-Þ., Jónas Jónsson, lætur ekki til sín heyra í þessum umræðum. En það hefur ekki vantað að pólitík hans, haturspólitíkin gegn verkalýðnum, sú stefna að sundra bændum og verkamönnum, ætti hér fulltrúa úr báðum flokkum hans.

Þó raddirnar séu Skúla, Sveinbjarnar og Ingólfs, þá er höndin, sem stjórnar pólitík þessara þm., samt Jónasar frá Hriflu.

Og ég skal nú taka hér fyrir nokkrar helztu firrurnar, sem þessir menn hafa nú borið á borð fyrir hlustendur, firrurnar um ofsóknir gegn bændum.

Sveinbjörn Högnason kvað kjördæmaskiptinguna nú notaða til þess að þröngva kosti bænda. En hverjar eru staðreyndirnar? Bændum hefur í fyrsta skipti — með frjálsum samningum við neytendur — verið tryggður réttur til 14500 kr. árstekna fyrir meðalbú.

Sveinbjörn segir, að taka eigi umráðarétt af bændum yfir afurðunum og setja gerðardóm til að ákveða verðið á vörum þeirra. En hverjar eru staðreyndirnar? Við sósíalistar leggjum til, að verðið á landbúnaðarafurðum sé ákveðið ekki aðeins til stríðsloka, heldur líka eftir stríð, með frjálsu samkomulagi, eins og 6 manna nefndin gerði. En á móti þessu berst Framsókn og heimtar, að neytendur séu sviptir umráðarétti yfir mjólkinni, eftir að þeir hafa keypt hana ákveðnu verði við húsvegg mjólkursamsölunnar, og heimtar Framsókn, að embættismenn hennar fái að drottna yfir allri sölu og meðferð mjólkurinnar, og spilltustu embættismenn hennar, eins og þm. V.-Sk., geti notið þeirrar ánægju að neita reykvískum húsmæðrum öðru hverju um mjólk.

Annars verð ég að skjóta því hér inn í, að ég held, að það væri ekki úr vegi, að bændur rannsökuðu, hve mikið það er, sem þessir Framsóknarherrar taka af þeim í milliliðakostnað

Ég hef fengið upplýsingar um að SÍS taki af hverju kílói kjöts, sem það fær til geymslu, 5 aura í geymslugjald á mánuði, eða 50 aura á hverju kjötkílói fyrir 10 mánuði! Og alls sé kostnaður á hverju kjötkílói frá því kjötið fer í skip 1,60 kr. á hvert kíló umfram heildsöluálagningu. Ef t. d. 5000 tonn kjöts væru seld með svona kostnaði, þá væri það 8 millj. kr.

Ef ástandið er svona víða um milliliðakostnað, þá held ég tími sé kominn til rannsóknar bæði af hálfu verkamanna og bænda.

Séra Sveinbjörn heldur áfram ósannindavaðli sínum. Hann endurtekur þau ósannindi, að sósíalistar vilji taka eignir af bændum án skaðabóta.

Sannleikurinn er, að í frumvarpi sósíalista um mjólkurmálin stendur skýrum orðum, að allt, sem samtök bænda hafa lagt fram, skuli að fullu endurgreitt. Hvað eignarnám snertir, þá hélt ég, að Framsókn væri ekki feimin við slíkt, — eða hvað var gert við eignir gamla Mjólkurfélags Reykjavíkur hér á árunum? En honum verður ekki óglatt af að ýkja enn betur. Hann kvað sósíalista ekki hafa hreyft skattamálunum á þingi. — En hann situr sjálfur í neðri deild, og þar liggja okkar skattatiliögur þær, sem við fluttum í vor, nú fyrir til atkvæðagreiðslu sem breytingartillögur við skattafrumvarp milliþinganefndarinnar í skattamálum, en sú nefnd var sett m. a. að tillögum Framsóknar. Og till. um eignaraukaskattinn liggja til 2. umr. í efri deild og þær verða samþykktar, ef Framsókn þorir að fylgja slíkum skattatillögum.

Það vantar að vísu ekki kok-hreystina hjá hv. þm. V.-Sk. (SvbH) hér í útvarpinu, þegar hann talar um olíuhringa og annað auðvald, — en hvað verður úr Framsóknarflokknum, þegar á hólminn kemur?

Nýlega lá fyrir þinginu tillaga um að fyrirskipa sakamálsrannsókn á olíuhringana. Framsókn gerði samfylkingu við íhaldið um að forða hringunum frá þessari sakamálsrannsókn og breytti með því hinni upprunalegu tillögu í meinlaust bænakvak.

Svona er með hvert einasta orð, sem út gengur af munni þessa manns: Ósannindi, rangfærslur. Og á grundvelli þessara ósanninda ætlar hann svo að telja bændum trú um, að nú sé verið að leiða yfir þá bændaánauð.

Bændur, sem orð mín heyrið, hafið þið hugsað ykkur bændaánauð miðaldanna í formi samninganna, sem 6 manna nefndin gerði? — Hafið þið þá hugmynd, að það sé kúgun að ætla meðalbónda 14500 kr. árstekjur!

En ef ykkur finnst það rétt, sem 6 manna nefndin hefur gert, hvað finnst ykkur þá um gasprið í hv. þm. V.-Sk., Sveinbirni Högnasyni?

Hverjum þjóna menn eins ok hann, sem eru að æsa bændur gegn verkamönnum í staðinn fyrir að sameina þessar stéttir.

Þeir þjóna fjendum vinnandi stéttanna, afturhaldi og stríðsgróðamönnum.

En samtímis því sem Framsókn spilar sína Sveinbjarnar-plötu um bændafjandskap sósíalista, þá er útibú Framsóknar, Alþýðuflokkurinn, látinn spila þá plötu, sem þið heyrðuð hjá hv. þm. Hafnf., Emil Jónssyni, hér áðan, um bændadekur sósíalista. Emil Jónsson talar um, að Sósfl. hafi svikið verkamenn með samningunum í 6 manna nefndinni.

Hvað hefði orðið, ef samningarnir hefðu ekki verið gerðir?

Þá hefði kjötkílóið kostað yfir 10 kr., mjólkin yfir 2 kr. samkv. yfirlýsingu hv. 2. þm. Rang., Ingólfs á Hellu.

Er það að svíkja verkamenn að hindra slíka hækkun?

Emil Jónsson sagði, að með þessu væri verið að viðhalda og hækka dýrtíðina, — en sannleikurinn er ómótmælanlega, að dýrtíðin hefði orðið enn þá meiri, ef 6 manna nefndar samningurinn hefði ekki verið gerður.

Hv. þm. Hafnf., Emil Jónsson, fór ekki í grafgötur með, hvað hann vildi:

Hann lýsti því yfir, að einmitt með gengisfallinu 1939 og þrælalögum gegn verkamönnum og bændum hefði átt að halda vísitölunni niðri. Fyrir hverja vildi hann reka slíka pólitík?

Auðvitað fyrir atvinnurekendur enda er hann sjálfur fulltrúi atvinnurekenda í Hafnarfirði. Þetta var pólitík hans 1939, — og sama sinnis er hann enn!

Hann vildi láta Sósfl. ganga að úrslitaskilyrðum Framsóknar í stjórnarsamningunum í vetur. En hvað var aðalatriði þeirra samninga:

Það var, að verð á landbúnaðarvörum og kaupgjald væri lækkað í sama hlutfalli.

Þetta þýddi, þar sem landbúnaðarvörurnar eru aðeins 40% af útgjöldum neytenda, að raunveruleg grunnkaupslækkun hefði orðið 25%.

Það voru að áliti Alþfl. ekki svik að ganga að þessu! Eða var það hitt, að Alþfl. ætlaðist til þess, að Sósfl. sviki verkalýðinn eins og hann með því að selja þannig hagsmuni verkalýðsins fyrir ráðherrastólana?

Við sósíalistar erum ósmeykir við gaspur Alþfl. um, að við séum að svíkja verkamenn með bændadekri, — við erum líka ósmeykir við gaspur Framsóknar um, að við séum að sýna bændastéttinni fjandskap. Við treystum á skynsemi vinnandi stéttanna í landinu, á skilning verkamanna og bænda á því, að öll framtíð, allt frelsi alþýðunnar í þessu landi sé undir því komið, að verkamenn, bændur og fiskimenn geti staðið saman, en láti ekki gömlu afturhaldsagentana úr þjóðstjórninni sundra og drottna einu sinni enn.

Og við kippum okkur ekki upp við það, þótt hv. 2. þm. Rang., Ingólfur á Hellu, kalli okkur ábyrgðarlausa, — maðurinn, sem leikið hefur ábyrgðarlausasta leikinn, sem nokkurn tíma hefur verið leikinn á Íslandi: kjötverðhækkunina haustið 1942.

Þessi gasprari talaði um það, að við sósíalistar vildum upplausn í þjóðfélaginu. Finnst ykkur, bændur, að 6 manna nefndar samningurinn sé gerður með það fyrir augum að skapa upplausn? — En þjóðstjórnarpólitíkin, sem þessi herra stóð að, að hverju miðaði hún?

Að kúgun þjóðarinnar undir forríka auðmannastétt.

Og hann klykkti út með því að skora á afturhaldsöflin í þinginu að mynda aftur þjóðstjórn, að sameina aftur borgaraflokkana þrjá, og hann kvað marga Framsóknarmenn vilja taka höndum saman við íhaldið. Honum ætti að vera það kunnugt. Hann er heimagangur í báðum flokkunum.

En fyrir ykkur, hlustendur góðir, eru þessar óskir kjötkóngsins ósvikul vísbending um, hvert stefnir nú hjá borgaraflokkunum, hvers konar samsæri er á ferðinni hjá afturhaldsöflunum gegn alþýðu Íslands.

Hv. þm. Str., Hermann Jónasson, talaði um það með miklum fjálgleik í gær, að nú væri atvinnuleysið að koma, þetta væri nú því að kenna, að ekki hefði verið farið að gullvægum ráðum Framsóknar.

Hver er nú sannleikurinn í þessu máli? Sannleikurinn er sá, að atvinnuleysi hefði hafizt hér aftur í árslok 1941, ef Framsókn hefði mátt ráða. Um það liggur fyrir yfirlýsing hv. 2. þm. S.-M., Eysteins Jónssonar, þáv. viðskiptamálaráðherra, í þingræðu. Hann sagði, er hann var að tala um festingartillögur Framsóknar þá, að skilyrðið til þess, að hægt væri að framkvæma þær, væri, að samningar næðust við herstjórnina um að fækka í setuliðsvinnunni. Það átti að vísu, að hans sögn, ekki að koma á neinu verulegu atvinnuleysi, heldur bara svona rétt mátulega, til þess að sverð atvinnuleysisins héngi alltaf yfir höfði hvers verkamanns, svo nærri hálsinum, að hann þyrði aldrei að rétta úr sér.

Og til þess að fá þetta gullvæga atvinnuleysi, sem var svo bráðnauðsynlegt fyrir Framsókn og stríðsgróðamennina, þá átti helzt að fórna allri setuliðsvinnunni, sem hæstv. fjármálaráðh. lýsti yfir í gær, að hefði átt meginþátt í að skapa þær innistæður, sem landið nú á erlendis.

Nei — það tekur enginn mark á tárum Framsóknar út af atvinnuleysinu. Það, sem Framsókn harmar, er, að atvinnuleysið skuli ekki vera búið að þjá verkalýðinn í tvö ár, svo hann væri orðinn auðmjúkur og hlýðinn og reiðubúinn til að kyssa á vöndinn.

Framsfl. var nógu óskammfeilinn hér í gær til að lýsa því yfir, að hann vildi, að gerðardómslögin hefðu staðið áfram. Og hefði hann getað haldið þeim við, þá hefði hann gert það með tveim aðferðum:

1. Leiða í samráði við erlenda herstjórn það mikið atvinnuleysi yfir verkamenn, að hægt væri að láta sultarsvipuna hvína yfir höfðum þeirra, til þess að láta þá una gerðardómsokinu.

2. Koma upp ríkislögreglu, vopnaðri eiturgasi og vélbyssum, sem keypt var inn fyrir 60 þús. 1940–41, til þess að beita þessum áþreifanlegu vopnum, ef sultarsvipa atvinnuleysisins dygði ekki.

Svo vill Framsókn fá verkamenn til að gráta það með sér, að þessar fyrirætlanir hennar skuli ekki hafa tekizt! — Nei! Við sósíalistar tökum frammi fyrir alþjóð á okkur ábyrgðina af því að hafa hindrað það, að þessi kúgun tækist.

Þessir menn, eins og Framsókn og afturhaldsmenn í öðrum flokkum, hafa aldrei séð nema eitt ráð við öllum meinsemdum mannfélagsins, og það þó mannfélagið væri svo ríkt, að hveitinu væri brennt og kjötinu hent — og þetta ráð er: kauplækkun.

Og þessir menn hafa alltaf treyst á eina aðferð til þess að koma kauplækkun fram, og það er að viðhalda atvinnuleysi. Atvinnuleysið er lífakkeri valdakerfis þeirra, lífsskilyrðið til þess þeir geti kúgað verkalýðinn.

Og þegar þetta atvinnuleysi hvarf fyrir þrem árum, án þess þeir fengju að gert, þá kvörtuðu þeir og kveinuðu, grátbáðu erlendar herstjórnir að lofa sér að fá atvinnuleysið sitt aftur, þeir mættu ómögulega missa það, án atvinnuleysisins væru festingarlögin þeirra, gerðardómslögin þeirra; allt kúgunarkerfið þeirra dauðadæmt.

En herstjórnirnar létu hernaðarframkvæmdir Bandamanna sitja í fyrirrúmi fyrir hernaðarframkvæmdum Hermanns & Co. gegn verkalýðnum. Þá var hafinn nýr hernaður af Hriflungum, verðhækkunarherferðin mikla haustið 1942, og með kapphlaupi Sveinbjörns Högnasonar og Ingólfs Jónssonar var nú vísitalan á nokkrum mánuðum hækkuð um 80 stig.

Þessir sökudólgar reyna nú frammi fyrir þjóðinni að verja sig með því, að það sé kauphækkunin hjá verkamönnum, sem sé orsök allrar verðhækkunar. Við skulum athuga þá hlið nánar.

Grunnkaupshækkun verkamanna frá 1939 til nú mun að meðaltali ekki vera yfir 40%. Þáttur hennar í hækkun vísitölunnar gæti því aldrei verið meira en í hæsta lagi 30 stig. Þó bændur hefðu fengið samsvarandi hækkun á vinnulaunum, þá ætti, ef engin önnur hækkun hefði orðið, vísitalan að vera ca. 130 stig. En hún er 259. — Þessir herrar, sem veittu á árunum skattfrjálsu milljónunum stríðsgróðamannanna inn yfir landið og brjáluðu hér allt verðlag, geta svo stungið hendinni í eigin barm og vitað, hverjum 129 stiga hækkun á vísitölunni er að kenna. — Svo mikið er víst, að sú hækkun stafar ekki af grunnkaupshækkuninni.

Nei, þessum mönnum er bezt að segja sannleikann eins og hann er.

Þeir vildu, að verkamenn og vinnandi stéttir landsins fengju enga kauphækkun allt þetta stríð, samtímis því sem þjóðartekjurnar margfölduðust og stríðsgróðamennirnir hrúguðu saman milljónunum. Þeir vildu sliga alþýðuna undir tollabyrði og kaupkúgun, meðan hér skapaðist forrík stétt milljónamæringa, sem eftir stríð hefði í krafti auðs síns öll ráð þjóðarinnar í hendi sér og gæti drottnað yfir fátækri alþýðu þessa lands með þeirri yfirdrottnunaraðferð, sem þjóðstjórnin gaf okkur forsmekkinn að.

Það voru þessar drottnunarfyrirætlanir, sem strönduðu á mótspyrnu verkalýðsins. Þeirri mótspyrnu er það að þakka, að við höfum ekki haft atvinnuleysi tvö síðustu ár, eins og Framsókn ætlaðist til. Og takist þessu afturhaldi nú loks að leiða þetta langþráða atvinnuleysi sitt yfir þjóðina, eigi að fara að búa henni aftur sömu sultarkjörin og á dýrðartímabilinu hans Finns Jónssonar, 1927–37, þá mun þeirri sultarárás mætt með meiri skerpu en nokkru sinni fyrr.

Verkamenn, bændur og fiskimenn Íslands vita nú, að þeim getur öllum vegnað vel í þessu landi, og þessar vinnandi stéttir munu ekki láta gömlu þjóðstjórnarleiðtogana leiða sig aftur inn í þrælkunarhús forstríðsáranna.

En það er ekki bara atvinnuleysið og dýrtíðin, sem talað er mikið um í þessum umræðum. Þið hafið líka heyrt mikið um það kvartað í þessum umræðum, að Alþingi væri ekki starfhæft. Þeir barma sér hver í kapp við annan yfir því, gömlu þjóðstjórnarflokkarnir, Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl., að Alþingi sé ekki starfhæft, — mikil ósköp og lifandi skelfing séu að vita þetta. Og sumir þeirra eru þegar teknir að benda á, að það verði bara að fara að afnema löggjafarvald þingsins og fá það eins konar konungkjörnum persónum í hendur.

Þeir kvörtuðu ekki undan því, að Alþingi væri óstarfhæft hér á árunum, þessir herrar, þegar þingið vann eða var notað til að vinna hvert óhæfuverkið á fætur öðru. Þeir kvörtuðu ekki um það, að Alþingi væri óstarfhæft, þegar það felldi gengið hérna um árið fyrir Kveldúlf, — þegar það lögfesti með þrælalögunum illræmdu kaupið hjá verkamönnum, — þegar það samtímis veitti stríðsgróðamönnunum skattfrelsi og skapaði þann mesta auðsójöfnuð, sem þekkzt hefur í landi þessu.

Nei, þá var þingið prýðilega starfhæft að áliti allra þjóðstjórnarfl. þriggja, Alþfl., Framsfl. og Sjálfstfl., því þá vann það allt saman — að 3 utangarðsþingmönnum undanskildum — að því að halda hér uppi þeirri ófyrirleitnustu auðmannastjórn, sem nokkurn tíma hefur setið að völdum í þessu landi.

Þá var allt í lagi með þingið, — þá var það prýðilega starfhæft — fyrir Kveldúlf, SÍS og Co. — og einmitt þannig átti þingið að vera, að þeirra áliti. — Og væru einhverjir á annarri skoðun, þá var því bara lýst yfir, að þeir væru þinginu til skammar og skyldu settir utangarðs við þjóðfélagið, dæmdir óalandi og óferjandi.

Auðmannastéttin hefur ráðið þessu landi síðustu áratugina. Hún hefur haft lyklavöldin að bankamálum, fjármálum, atvinnumálum þjóðarinnar, hvort sem forsætisráðherrann hefur heitið Hermann eða Ólafur, eða félagsmálaráðherrann Stefán Jóhann eða eitthvað annað. Og auðmannastéttin hefur aldrei drottnað ófyrirleitnar á landi hér en þegar hún áleit sér óhætt og nauðsynlegt að sameina alla flokkana sína þrjá í ráðherrastólunum til að vinna fyrir sig kúgunarstörfin gagnvart alþýðu manna.

En þá spennti hún bogann of hátt. Hann brast. Alþýðan svaraði með því að senda okkur 10 sósíalista inn á þing.

Síðan hafa þjóðstjórnarflokkarnir ekki þorað að taka höndum saman til þess að mynda á sína ábyrgð nýja afturhaldsstjórn, — ekki þorað það vegna fólksins! Og þess vegna kvarta þeir nú yfir óstarfhæfni þingsins! Og Finnur Jónsson benti alveg á rétta ráðið frá auðvaldsins og afturhaldsins sjónarmiði til að gera þingið aftur starfhæft fyrir auðvaldið: að þurrka bara Sósíalistaflokkinn út úr því og setja Alþýðuflokksmenn í staðinn! Það þyrfti svo sem ekki endilega að gerast með kosningum. Það gæti gert alveg sama gagn að banna bara Sósíalistaflokkinn og Þjóðviljann, eins og Alþýðublaðið hvað eftir annað hefur heimtað, dæma svo bara Alþýðuflokksmönnum þingsætin og fresta svo bara kosningum um óákveðinn tíma, þvert ofan í stjórnarskrána! Þá væri allt í fínasta lagi um starfshæfni þingsins. Þá mundi nefnilega Alþýðuflokkurinn þora að skríða aftur undir pilsfald Framsóknar og samþykkja hvort heldur væri þrælalög eða skattfrelsi handa auðmönnum! En meðan 10 sósíalistar sitja á þingi og ef til vill geta orðið kosningar, þá þorir hann slíkt ekki fyrir sitt litla líf og minnkandi fylgi.

Þannig er því þá varið með óstarfhæfni Alþingis. Alþingi varð í rauninni óstarfhæft, að áliti Framsóknar, þegar það gat ekki komið á atvinnuleysi veturinn 1941 til að standa undir gerðardómslögunum.