08.11.1943
Efri deild: 44. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 710 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

145. mál, heilsuhæli fyrir drykkjumenn

Bjarni Benediktsson:

Frv. það, sem hér liggur fyrir, hefur verið alllengi til athugunar í heilbr.- og félmn. Það er upphaflega samið að tilhlutan stjórnar drykkjumannahælis þess, er stórstúkan á í Kumbravogi, og mun það hafa verið hr. Jónatan Hallvarðsson sakadómari, sem samdi það eða frumdrög þau, er þetta frv. styðst við, eftir beiðni stjórnar hælisins. Síðan var málið lagt fyrir hr. landlækninn, sem samdi það upp á nokkuð öðrum grundvelli, og fékk n. frv. beggja þessara embættismanna til athugunar. Það varð svo úr, að n. lagði frv. sakadómara til grundvallar, þótt flestum gr. þess væri breytt. Með frv. þessu er lagt til, að tekin verði ákvörðun um, að ríkið haldi uppi heilsuhæli fyrir drykkjumenn, og er gert ráð fyrir, að ríkið taki við rekstri hælisins í Kumbravogi og verði eigandi að öllum eignum þess, en til þess hafa sumpart runnið fjárframlög frá stórstúkunni sumpart frjáls samskot, og 30 þúsund hafa ríkið og Reykjavíkurbær lagt fram til stofnkostnaðar þess. Ætlazt er til, að þau verðmæti, er hælið hefur eignazt fyrir þetta fé, renni til ríkisins, auk sjóða hælisins, og yrði það, um leið og þetta frv. væri staðfest sem l. og ríkið tæki við rekstri þessa hælis.

Þess ber að gæta, að hælið starfar nú ekki í eigin húsnæði. Það hefur leigt húsnæði af einni stofnun innan stórstúkunnar, sem var upphaflega ætlað til að hafa þar barnaheimili, og ég hef heyrt, að vilji þessa aðila og hælisstjórnarinnar sé sá, að það geti sem fyrst orðið aðskilnaður þarna á milli, þannig að hælið verði flutt á annan stað. Telja þeir megingalla, hve hælið sé nærri stóru kauptúni, og tala um spillandi áhrif kaupstaðanna á þessa starfsemi. Þótt ég sé hins vegar ekki fylgjandi skoðun sumra manna um siðspillandi áhrif kaupstaða, þá er sennilegt, að meiri freistingar liggi fyrir þessum mönnum í fjölmenni en fámenni, svo að að líkindum er þessi staður ekki til frambúðar, og gera má ráð fyrir, að ríkið þurfi að kosta til að kaupa sérstaka jörð til þessarar starfrækslu. En þar í móti koma fjármunir hælisins. Hins vegar ætlast n. til, þótt ríkið verði eigandi stofnunarinnar á þennan hátt, að sérstök stjórnarnefnd frá stórstúkunni megi hafa afskipti af rekstri hælisins. Það hefur sýnt sig, að það hefur gefizt vel, að samtök áhugamanna beittu sér fyrir þessu máli, og teljum við nm., að það yrði líklegra til meira fjörs og kapps í starfseminni, ef þessu yrði þannig fyrir komið, en ef þessi stofnun væri algert embættisbákn og ætti undir embættismenn eina að heyra. Ég hygg því, að heppilegt muni reynast að gefa stórstúkunni kost á að hafa íhlutun um reksturinn.

Hælisvistarmönnum er aðallega skipt niður í tvo flokka. Í fyrsta lagi eru þeir, sem dæmdir eru til vistar samkvæmt hegningarlögunum, í öðru lagi þeir, er sækja sjálfir um vist eða lögráðamenn fyrir þeirra hönd, ef þeir eru sjálfir ósjálfráða. Og ein aðalástæðan til þess, að ekki mátti lengur undir höfuð leggjast að setja l. um þessi efni, er sú, að hælisstjóri hefur engin tök á að knýja þá menn til framhaldsvistar, sem eru þar af sjálfsdáðum og þyrftu að vera lengur. En þeir, sem eru sjúklingar í þessum efnum, eru sífellt háðir þeirri freistingu að hlaupast á brott, en á hinn bóginn getur verið skilyrði fyrir bata þeirra, að heimilt sé að knýja þá til að vera svo lengi sem þurfa þykir. Slík heimild er veitt í þessu frv., og það er frumástæðan til þess, að forráðamenn hælisins álitu nauðsynlegt að bera þetta mál fram.

Það, sem hv. landlæknir lagði til um þetta atriði, var það, að heimil væri lögræðissvipting í því skyni að knýja menn til hælisvistar svo lengi sem yfirvöldin úrskurðuðu, að þurfa þætti. N. gat ekki fallizt á þetta. Hún játar að vísu, að núgildandi lögræðisreglur séu gallaðar, og ég gæti trúað, að hún beindi því til hv. ríkisstj. að endurskoða þær. En í þessu sambandi taldi n., að um svo viðkvæmt og víðtækt vandamál væri að ræða, að ekki væri gerandi að hrófla við því að nokkru leyti aðeins með því að blanda því inn í þetta frv. Aftur á móti leggur n. til, að heimild verði í þessum l. til að knýja hælisvistarmenn til að fullnægja þeim samningum, sem þeir gera upphaflega um dvöl sína, ef þurfa þykir. Þetta var annað aðalatriðið. — Hitt er það, að hælið verði framvegis rekið af ríkinu með sjúkrahúsastyrk. Þetta eru tvö höfuðatriðin í frv. Ef gagn á að verða að starfseminni, þá verður að vera heimild fyrir hendi til að knýja sjúklingana með lögregluvaldi til að standa við samninga sína. Því er nú að minnsta kosti meiri hl. n. því fylgjandi, að þetta frv. nái fram að ganga á þessu þingi, þótt einstakir nm. hafi að sjálfsögðu rétt til að flytja brtt. og fylgja þeim.

Hvað fjárhagshliðina snertir, þá hef ég ekki trú á, að þessi stofnun verði mikill baggi á ríkinu. Hitt ber að játa, að með þessu frv. eru alls ekki reistar skorður til fulls við böli ofdrykkjunnar. Ég geri ráð fyrir, að á þessu hæli lendi fyrst og fremst auðnuleysingjar, en eftir sem áður komi til með að vanta fullnægjandi hæli fyrir aðra, sem eru ekki eins djúpt sokknir á þessu sviði. En þrátt fyrir það að þetta frv. leysir ekki nema nokkurn hluta af þessu mikla vandamáli, þá er það þó aðeins til góðs og spor í rétta átt. Ég vænti svo stuðnings hv. d. í þessu máli og sé ekki ástæðu til, að því verði vísað til n., þar sem það er flutt af n.