25.11.1943
Sameinað þing: 36. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

27. mál, fjárlög 1944

Gunnar Thoroddsen:

Hv. þm. Str., Hermann Jónasson, hóf þessar umræður í gærkvöldi með því að átelja hæstv. ríkisstjórn fyrir að hafa ekki látið fram fara rannsókn út af kosningunni í Snæfellsnessýslu og kallaði það „undarlegt réttarfar“. Út af þessu vil ég taka það fram, að samkvæmt kröfu minni fór fram í fyrrahaust sakamálsrannsókn út af þeim kæruatriðum, er komu fram í bréfi því, er framsóknarmenn komu á framfæri hér á Alþingi. Við þá rannsókn kom í ljós, að allar aðdróttanir bréfritarans voru staðlausir stafir, og að af þeim mörgu vitnum, sem yfirheyrð voru, var ekki eitt einasta, sem studdi framburð hans. Var þessi söguberi dæmdur í refsingu fyrir álygar sínar. — Mig undrar, að hv. þm. Str. skuli fara að rifja þessi mál upp, svo lítinn sóma sem flokkur hans hefur haft af þessu máli. En í því sambandi er þó rétt að hafa í huga, að hefði Framsókn mátt ráða, hefðu Snæfellingar engan fulltrúa átt á síðasta þingi. En framsóknarmenn stóðu einir um þá tillögu sína í fyrrahaust að svipta þetta hérað fulltrúa á Alþingi.

Þessi sami hv. þm. og hv. þm. V.-Sk., Sveinbjörn Högnason, báru sig illa yfir kjördæmabreytingunni, hún hefði leitt til stjórnleysis, og mjög væri nú að bændum kreppt móts við það, sem áður var. Ég fæ nú ekki séð, að hagur bænda sé verri en hann var fyrir kjördæmabreytinguna. Og víst er það, að þau fyrstu lög, sem tryggja bændum tekjur til jafns við aðrar atvinnustéttir, eru sett eftir að kjördæmabreytingin komst á.

Það ranglæti, sem ríkti milli flokka í kjördæmaskipuninni, gat ekki staðið til lengdar, það varð að leiðrétta fyrr eða síðar. En fáa hefði órað fyrir því, að Framsfl. sýndi slíkt pólitískt þroskaleysi að taka upp hreina hefndarpólitík, sem nú hefur staðið á annað ár, eftir að lagfæringin er um garð gengin. En sú hefur orðið raunin á. Við kjördæmabreytinguna missti flokkurinn þá forustuaðstöðu á stjórnmálum, sem hann hafði haft um 15 ára skeið. Síðan kyndir hann undir úlfúðinni, æsir upp stéttaríginn og reynir að viðhalda sem mestum glundroða í stjórnmálunum. Sumpart er þetta gert til þess að reyna að sanna, að kjördæmabreytingin hafi verið undirrót alls ills, en sumpart til þess að reka pólitíska og persónulega hefndarstarfsemi gegn Sjálfstfl. Svo langt gengur þessi heift fram úr allri skynsemi, að málgagn flokksins, Tíminn, hefur lýst því yfir, að ekki verði unnið að neinu þjóðþrifamáli með stærsta flokki þjóðarinnar, meðan tiltekinn maður skipi þar formannssæti.

Háttv. 1. þm. Reykv., Magnús Jónsson, og háttv. 2. þm. Rang., Ingólfur Jónsson, hafa í sínum ágætu ræðum í gærkvöldi og nú gert glögg skil ýmsum þáttum stjórnmálaviðhorfsins. Þeir hafa rætt nauðsynina á samstarfi stéttanna, dýrtíðarmálin, afgreiðslu fjárlaganna, uppbótargreiðslur á landbúnaðarafurðir o. fl. Ég vil minnast á það mál, sem mest hefur verið rætt á þessu þingi, mjólkurmálið.

Mjólkursamsalan var stofnuð í ársbyrjun 1935. Mjólkursölunefnd hefur haft á hendi stjórn hennar til skamms tíma. Alla stund hefur þingmaður V.-Sk., Sveinbjörn Högnason, verið formaður þessa fyrirtækis. Mjólkursamsalan hefur haft þá sérstöðu alla tíð, að um hana hafa staðið þrotlausar deilur. Þær blossuðu enn upp með óvenjulegum ákafa við mjólkurleysið í Reykjavík í haust og framkomu mjólkursölustjórnar í því sambandi.

Mjólkurneytendur í Reykjavík og Hafnarfirði hafa frá öndverðu kvartað yfir ýmsu, sem þeim hefur þótt fara aflaga hjá mjólkursamsölunni. Þeir hafa kvartað yfir stirðleika gagnvart neytendum, tregðu gegn því að verða við sanngjörnum óskum um umbætur, kvartað yfir gæðum mjólkurinnar og hinum tilfinnanlega skorti, sem oft hefur gert vart við sig á mjólk, rjóma, skyri og smjöri. Þessum umkvörtunum hefur sjaldan verið sinnt. Menn skyldu þó ætla, að ein grundvallarregla hvers viðskiptafyrirtækis væri að leita góðs samkomulags við viðskiptamennina og verða við sanngjörnum óskum þeirra, sýna kurteisi og viðleitni til að halda góðum friði. En forráðamennirnir hafa viðhaft aðrar verzlunaraðferðir. Þeir virðast hafa kostað kapps um að skaprauna neytendum og egna þá til andstöðu, auðvitað í skjóli þeirrar einkasöluaðstöðu, sem mjólkursamsalan hefur. Eitt fyrsta verk þeirra var að höfða mál gegn félagsskap húsmæðranna í Reykjavík og heimta þær dæmdar í sektir og skaðabætur. Ég hef aldrei heyrt um annað verzlunarfyrirtæki, sem notaði slíkar aðferðir til að afla sér viðskiptavina.

Um gæði mjólkurinnar hefur verið mikil óánægja. Ekki sízt hafa menn fundið til þessa, þegar þeir koma úr sveit, þar sem þeir hafa drukkið góða og heilnæma nýmjólk, og fá svo í staðinn samsölumjólk í Reykjavík. Þetta er ekki álit Reykvíkinga einna. Ég hef heyrt bændur og bændakonur segja alveg það sama, er þau hafa til Reykjavíkur komið.

Ekki hefur það síður ýtt undir óánægjuraddirnar, hversu oft og tilfinnanlega hefur verið hér skortur á nýmjólk og mjólkurafurðum. Þó er með 7. gr. mjólkurlaganna lögð sú lagaskylda á stjórn samsölunnar að hafa ætíð til nóga neyzlumjólk til sölu. Nú er það að vísu óhjákvæmilegt, að mjólkurframleiðslan minnki verulega á haustin. En sú staðreynd er alls ekki fullnægjandi skýring eða afsökun á mjólkurskortinum í haust. Þá var ástandið þannig um margra vikna skeið, að fjöldi heimila í Reykjavík og Hafnarfirði fékk oft enga eða sáralitla mjólk. Fólkið stóð tímum saman fyrir utan mjólkurbúðirnar, þegar opnað var, til þess að ná örlitlum sopa handa börnum sínum. Stundum kom lögreglan á vettvang til að halda röð og reglu í hinum mikla troðningi.

En á sama tíma og þetta vandræðaástand ríkti, leyfði samsölustjórn sér að selja mjólk daglega í stórum stíl til hins erlenda setuliðs, 1. vikuna í ágúst daglega að meðaltali rúmlega 8 þúsund lítra, 1. vikuna í september um 7400 lítra, 1. vikuna í október rúmlega 6300 lítra. Auðvitað er sjálfsagt að selja setuliðinu mjólk til sjúkra manna, en til þess þarf aðeins einn bílfarm á dag. Einnig er sjálfsagt að selja hernum þá afgangsmjólk, sem hann vill kaupa, það er til stórgagns fyrir alla aðila, þeim mun minna fer þá til vinnslu fyrir miklu lægra verð. En meðan átakanlegur mjólkurskortur er hjá Íslendingum, nær slík sala vitanlega engri átt. Þm. V.-Sk. hafði eitt svar á reiðum höndum: Setuliðið vill fá sama mjólkurmagnið allt árið, annars kaupir það ekki neitt. En þetta reyndust ósannindi. Utanríkismálaráðherra, Vilhjálmur Þór, upplýsti, að setuliðsstjórnin hefði aldrei óskað eftir né viljað kaupa annað en afgangsmjólk á hverjum tíma. En viku eftir viku, meðan börn Reykvíkinga eru í mjólkursvelti, er ausið frá 6300–8000 lítrum á dag í setuliðið að óþörfu, einum lítra á hvert heimili í bænum. Nú hefur formaður mjólkursölunefndar loks neyðzt til að stöðva þessa sölu í bili.

Getur nokkurn undrað, þótt slík dæmalaus ráðsmennska sé gagnrýnd? Ég veit, að íslenzkir bændur skoða þetta ekki sem árás á sig, þótt ótrúr starfsmaður sé áfelldur fyrir slík afglöp.

Mjólkursölumálin snerta daglega neyzlu- og nauðsynjavöru yfir 40 þúsund landsmanna og lífsafkomu bænda á Suður- og Suðvesturlandi. Hér er því um mikilvægt þjóðmál að ræða, viðskiptamál mikils hluta þjóðarinnar, sem Alþingi verður að láta til sín taka, ekki sízt þar sem það hefur sjálft sett mjólkursölulögin.

En hvernig er svo við þessum málum snúizt á Alþingi?

Þar hafa stéttarflokkarnir, Framsfl. og sósíalistar, gengið fram á vígvöllinn með öfgum og ósanngirni á báða bóga. Kommúnistar rjúka til að flytja frumvarp um eignarnámsheimild fyrir Reykjavíkurbæ á mjólkurstöðinni og öllum mjólkurbúðunum. Reykjavíkurbær á að taka allan þennan rekstur í sínar hendur. Með frumvarpi sósíalista er ekki um venjulegt eignarnám að ræða gegn fullum bótum, heldur á að taka þessar eignir með áhvílandi skuldum, en án nokkurs endurgjalds, að öðru leyti en því, að mjólkurframleiðendur eiga að fá endurgreidd bein peningaframlög, sem þeir hafa lagt fram í þessu skyni. Það situr nú að vísu sízt á framsóknarmönnum að hrópa um ofbeldi og eignarnám, því að þeir hafa sjálfir gefið fordæmið og vísað kommúnistum veginn. Fyrir nokkrum árum létu þeir taka lögnámi mjólkurstöðina af bændum í Mjólkursamlagi Kjalarnesþings. En sjálfstæðismenn ganga alls ekki inn á slíkar öfgar. Auk þess er frumvarp kommúnista engin lausn á þeim vandamálum, er fyrir liggja.

En öfgarnar og óbilgirnin hefur heldur ekki riðið við einteyming hjá formanni mjólkursölunefndar, þm. V.-Sk. Hann svarar á sinn venjulega hátt og fær góðar undirtektir og bergmál hjá Tímanum. Það er allt í lagi með mjólkursöluna, mjólkursamsalan er bezt stjórnaða fyrirtæki í heimi, það hefur enginn mjólkurskortur verið í haust, allar aðfinnslur eru svívirðilegar árásir og ofsóknir gegn bændum.

Meðan 40 þúsundir Reykvíkinga sjá og finna daglega hina átakanlegu mjólkureklu, segir þm. V.-Sk.: Það er enginn mjólkurskortur, þetta er bara svívirðileg árás á bændur. Meðan allir vita, að mjólkin er ekki eins góð og æskilegt er, meðan gerlafræðingur mjólkursamsölunnar hefur hvað eftir annað, einnig opinberlega, krafizt endurbóta á meðferð mjólkurinnar, segir þm. V.-Sk.: Mjólkin er ágæt og ekkert að henni að finna.

Þannig stóðu málin á þingi. Öfgafullar eignarnámskröfur frá kommúnistum, þvergirðingsháttur frá framsóknarmönnum. Hér varð og verður eitthvað að gera.

Sem tilraun til úrlausnar og miðlunar í þessum málum flutti ég tillögu um að skipa 5 manna nefnd til þess að athuga og gera tillögur um mjólkurmálin. Hlutverk nefndarinnar átti aðallega að vera þetta: Athuga, hvort umkvartanir um gæði mjólkurinnar hefðu við rök að styðjast og gera tillögur til umbóta, ef svo reyndist. Ekki gat þetta skaðað framleiðendur. Athugunin mundi þagga niður óánægjuraddirnar, ef þær reynast órökstuddar, ella yrði reynt að kippa misfellunum í lag. Þá á nefndin að gera tillögur til að bæta úr skortinum á mjólk og mjólkurafurðum, sem oft hefur gert vart við sig. Þá á nefndin að athuga dreifingar- og vinnslukostnað mjólkurinnar, en það hefur verið eitt deiluefnið og tilefnið til tortryggni á undanförnum árum, hversu mikill munur hefur verið á útsöluverði mjólkurinnar og því verði, sem bændur hafa fengið heim. Þá á nefndin að gera tillögur um, hversu auka megi mjólkurneyzlu Íslendinga, eftir að hið erlenda setulið hættir mjólkurkaupum hér. Er hér komið að einu allra stærsta hagsmunamáli bændanna í framtíðinni. Fyrir stríð fór verulegur hluti mjólkurframleiðslunnar til vinnslu mjólkurafurða, osta o. fl., sem miklu lægra verð fékkst fyrir en fyrir neyzlumjólk. Eftir stríð er viðbúið, að fari á sömu lund. Þess vegna er það eitt allra mesta nauðsynjamálið að reyna að auka nýmjólkurneyzlu kaupstaðarbúanna, sem hæst verð fæst fyrir. Það er sannfæring mín, að þetta sé hægt. En frumskilyrði þess, að svo megi verða, er góð samvinna framleiðenda og neytenda. En stjórnendum mjólkursamsölunnar hefur gersamlega mistekizt í þau 8–9 ár, sem hún hefur starfað, að koma á þessari nauðsynlegu samvinnu og friði. Þess vegna er síðasti liður tillögu minnar sá, að nefndinni er falið að gera tillögur um, hversu bezt verði háttað heppilegu og friðsamlegu samstarfi framleiðenda og neytenda um mjólkursölumálin.

Ég vil taka það skýrt fram, að tillaga mín var hugsuð og flutt sem miðlunartillaga í þessu viðkvæma máli. Það vænti ég, að menn skilji af því, sem ég nú hef sagt. En í stað þess að taka þessari tillögu fegins hendi sem tilraun til sátta hefur Framsfl. snúizt gegn henni af mesta fjandskap. Nú er það ofur algengt, að Alþingi skipi nefndir um þýðingarmikil þjóðmál. En hvað veldur þessu viðbragði? Er hér eitthvað, sem þarf að dylja og ekki má athuga í nefnd? Það, sem virðist hafa orsakað þessar hamfarir Framsóknar mun einkum vera niðurlagsákvæði tillögunnar, sem er á þá leið, að nefndinni sé heimilt, samkvæmt 34. grein stjórnarskrárinnar, að heimta skriflegar og munnlegar skýrslur af þeim, sem hlut eiga að máli. Hafa verið spunnar hinar furðulegustu sagnir og ævintýri út af þessu. Stundum er því fram haldið, að hér sé um sakamálsrannsókn að ræða á hendur öllum bændum landsins, eða eitthvað enn þá verra. Tíminn hefur samið lélega skáldsögu um það, að nefndin muni ferðast um landið, yfirheyra hvern bónda sem glæpamann, skoða fjósin og flórinn, eins og um bruggun væri að ræða eða þjófaleit. Vitanlega er þetta heilaspuni einber. Sakamálsrannsókn er það, þegar dómari hefur réttarrannsókn út af glæpsamlegu athæfi, til þess að fá sökudólginn dæmdan til refsingar. Hér hefur ekkert slíkt komið til orða. Hér er um að ræða nefndarskipun með fulltrúum allra þingflokka til þess að athuga og gera tillögur um þýðingarmikið þjóðmál. Ekkert orð hefur komið fram í þá átt, að stjórnendur mjólkursamsölunnar hafi framið neitt glæpsamlegt eða refsivert, því fer fjarri, að mér hafi dottið nokkuð slíkt í hug. Ef svo hefði verið, hefði ég snúið mér til sakadómara, en ekki til Alþingis.

Nei, þessi tillaga veitir nefndinni aðeins rétt til að heimta skýrslur. Nefndin á engan að leiða fyrir rétt, engan mann að dæma. Sams konar heimild hafa margar aðrar nefndir, til dæmis verðlagsnefnd og viðskiptaráð.

Hv. þm. V.-Sk. sagði áðan í ræðu sinni: Gunnar Thoroddsen heimtar sakamálsrannsókn á alla bændur, en berst gegn sams konar rannsókn á mestu auðhringa landsins, olíufélögin. Menn sjá af því, sem ég nú hef sagt, hversu fráleitt er að tala um sakamálsrannsókn í sambandi við mjólkurtillöguna. Um olíumálin er sannleikurinn þessi: Ég var andvígur því, að Alþingi, sem alls ekki hefur ákæruvaldið í sínum höndum, færi út í það einsdæmi að fyrirskipa sakamálsrannsókn gegn forstjórum olíufélaganna, þar sem auk þess var ekkert fram komið, er benti til, að þeir hefðu gerzt sekir um afbrot, og bæði hæstv. fjármálaráðherra og verðlagsstjóri höfðu lýst því yfir, að enginn grundvöllur, engin ástæða væri til sakamálsrannsóknar. Það var því vel til fallið, að hv. þm. V.-Sk., Sveinbjörn Högnason, skyldi vitna í orð skáldsins. Jafnvel úr hlekkjunum sjóða má sverð í sannleiks og frelsisins þjónustugerð. Það er dásamlegt sannleikans sverð, sem hann hefur soðið hér úr olíu og mjólk.

Til þess að vinna starf sitt þarf nefndin að sjálfsögðu að fá ýmsar upplýsingar hjá þeim, sem stjórnað hafa þessum málum. Og það er ekki að ástæðulausu, sem ég setti þessa heimild til að heimta skýrslu í tillöguna. Það er vegna þess, að formaður mjólkursölunefndar, Sveinbjörn Högnason, hefur orðið uppvís að því að neita opinberum stjórnvöldum um upplýsingar. Þm. A.-Húnv. hefur upplýst í umræðum, að 1939 bað fjárveitinganefnd Alþingis um skýrslu frá opinberum stofnunum, fyrirtækjum og nefndum um launagreiðslur þeirra og fleira. Allir urðu við þessu nema mjólkursamsalan. Fjárveitinganefnd sneri sér þá til fjármálaráðherra, og hann lagði fyrir samsöluna að gefa umbeðnar upplýsingar. Sveinbjörn Högnason neitaði samt.

En það blekkingarmoldviðri, sem Framsfl. hefur þyrlað upp um þessa tillögu, að hún færi fram á sakamálsrannsókn á alla bændur landsins, hefur því miður orðið til þess í bili að blinda ýmsa ágæta bændur, vegna þess að þeir hafa ekki fengið réttar upplýsingar. Þau mótmæli, sem sumir bændur hafa sent til Alþingis gegn tillögu minni, eru því byggð á algerum misskilningi. Þessi misskilningur kemur einkar glöggt fram í því, að í nokkrum þessara mótmæla er miðlunartillaga mín lögð að jöfnu við eignarnámsfrumvarp kommúnista á mjólkurstöðinni.

Það er talað um ofsókn gegn bændum í sambandi við þessa tillögu. Hv. þm. Str. ræddi í gær um ofsóknarherferð gegn bændastéttinni, sem stærsti flokkurinn, það er Sjálfstfl., tæki þátt í. Við erum nú orðnir svo vanir því, að gagnrýni á Framsfl. og forsprökkum hans sé kölluð árás á bændur, að við erum ekki uppnæmir fyrir slíkum glímutökum. Hvaða heilvita manni dettur í hug, að til dæmis þm. A.-Húnv., bóndinn Jón Pálmason, sem mælt hefur fast fram með tillögu minni, geri það í ofsóknarskyni á sína eigin stétt og þá víst á sjálfan sig líka? Og þótt ég sé Reykvíkingur, þá flyt ég þessa tillögu ekki síður sem fulltrúi bænda í mínu kjördæmi en sem bæjarfulltrúi í Reykjavík.

En til þess að sýna tvöfeldnina og fláttskapinn í þessu máli vil ég minnast hér á breytingartillögu á þskj. 176, sem þm. V.-Sk. flytur við tillögu mína. Sú brtt. er að mestu samhljóða minni tillögu, að öðru leyti en því, að í stað rannsóknar á mjólkurmálunum á að koma rannsókn á öllum innlendum neyzluvörum. Samkvæmt tillögu Sveinbjarnar Högnasonar á þessi rannsóknarnefnd innlendra neyzluvara að vera skipuð eins og hafa sama rétt, samkvæmt 34. grein stjórnarskrárinnar, til að heimta skýrslur. Munurinn er sá, að tillaga hans tekur ekki aðeins til mjólkurinnar, heldur til allra innlendra vara. Ef tillaga mín er ofsókn gegn bændum landsins, þá er brtt. Sveinbjarnar Högnasonar ekki aðeins sams konar ofsókn, heldur margfalt meiri, því að samkvæmt henni á rannsóknarnefnd að rannsaka alla framleiðslu bænda.

Þm. Mýr. flytur tillögu, sem er alveg óaðgengileg. Samkvæmt henni á að skipa 3 manna nefnd, þar sem yrðu líklega tveir framsóknarmenn og einn sjálfstæðismaður. Slík nefnd mundi alls ekki ná þeim tilgangi, sem ég ætlast til, til þess þurfa fulltrúar allra flokka að eiga sæti í nefndinni.

Hins vegar flytur 2. þm. Skagf. brtt. um nokkra umorðun á till., einkum að nefndarmenn séu tilnefndir á annan veg en ég ætlaðist til, og breytingar á orðalagi niðurlagsgreinarinnar. Vænti ég, að tillaga hans mundi ná þeim tilgangi, sem fyrir mér vakti, ef samþ. verður.

Ég vænti þess, að mér hafi tekizt að upplýsa menn um tillögu mína. Hún verður samþykkt, ef til vill með brtt. Jóns Sigurðssonar, og það er von mín, að starf hinnar væntanlegu nefndar verði til þess að leggja framtíðargrundvöll að því skipulagi mjólkurmálanna, sem bæði framleiðendur og neytendur megi vel við una.