17.11.1943
Efri deild: 50. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (1270)

145. mál, heilsuhæli fyrir drykkjumenn

Jónas Jónsson:

Við 1. umr. málsins var það rakið af einum nm. allnákvæmlega, að hér væri verið að vinna móti víninu á tvennan hátt. Annars vegar getur hér ekki verið um annað að ræða en vinnuhæli, eins og byrjunin var í Kumbravogi, þar sem menn, sem ráða ekki við áfengislöngun sína, fá aðstöðu til þess að vera á sæmilegum stað við reglubundna lifnaðarhætti og þátttöku í hæfilegri vinnu. En seinna meir verður að sjá fyrir þeim mönnum, sem hafa ekki tapað fullkomlega sjálfsvirðingu sinni, en mundu ekki batna á svona stað. Ég lít svo á, að þarna sé um að ræða praktískt vinnuhæli, þar sem menn hafi nægilega mikið að gera, séu undir réttlátum og nokkuð ströngum aga og kostnaður af hælinu verði ekki úr hófi. Þó að stórstúkan eigi þakkir skilið fyrir starf sitt, getur maður ekki þakkað henni fyrir þann hátt, sem hún hefur haft á hælisrekstrinum, það sem af er, kostnaður hefur verið óhóflegur, ekki sinnt um að láta mennina vinna að gagni. Það yrði aldrei þolað, að vinnuhælið yrði rekið þannig áfram. Ég geri ráð fyrir, að það verði talið alveg rangt, að ábyrgðarlaust félag hafi svona mikil völd yfir ríkisstofnun sem þessari. Svipað lag var í fyrstu reynt á berklahælunum, en fljótlega var frá því horfið og þau rekin á ríkisábyrgð að öllu leyti. Ég álít til bóta að taka málið af dagskrá að sinni, svo að tækifæri gefist til að gera við það smábreytingar við 3. umr., eins og vikið var að af hv. þm. Dal. Væri það ekki gert hér, yrði að gera það í Nd. og mundi ekki flýta málinu.

Eftir minni meiningu hefur stórstúkan valið ákaflega óheppilegan stað fyrir hælið, og spáir það öðru en góðu um forustu af hennar hálfu, þó að hún hafi hins vegar fengið hælinu mjög rösklegan og efnilegan forstöðumann. Það er ekki rétt hjá hv. þm. Str., að hægt sé að breyta um stjórn hvenær sem vill. Það væri viðurhlutamikið af ráðherra að stöðva rekstur hælisins eða reka forstöðumann og stjórnarn. Það situr allt fast, þegar það er einu sinni komið, þrátt fyrir ákvæði l. þessara.