18.11.1943
Efri deild: 51. fundur, 62. löggjafarþing.
Sjá dálk 719 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

145. mál, heilsuhæli fyrir drykkjumenn

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég vil aðeins segja örfá orð út af brtt. minni á þskj. 452. Eins og ég gat um í gær, taldi ég ekki rétt, að sú stofnun, sem verður að greiða allan kostnað af slíku hæli sem þessu, hefði engan forsvarsmann í eftirlitsn., sem væri með í ráðum um allar framkvæmdir þar, og þess vegna kom ég fram með þá till., sem hér er til umr. Ég verð að segja, að mér fannst ekki rétt, að hv. d. afgreiddi þetta mál þannig, að sú stofnun, sem ýmsir hér bera vægast sagt misjafnt traust til, væri einhlít um að ráða hælinu án íhlutunar frá ríkisstj. eða forsvarsmönnum ríkissjóðs. Ég hefði talið rétt, að ríkisstj. eða ráðh. hefðu skipað tvo menn í þessa stjórnarn., en ég treysti mér ekki til að fara lengra en þetta. Ef hæstv. ríkisstj. tekst að velja þann mann, sem er reyndur ráðdeildarmaður og stjórnsamur, þá hygg ég, að þessi till. sé til bóta.

Ég vil taka það fram, að mér hrýs hugur við, ef fara á að ráða sérstakan embættismann, lækni, sem fastan starfsmann við ekki stærri stofnun, þar sem slíkt mundi eflaust kosta tugi þúsunda, og geri ég ráð fyrir, að hæstv. ríkisstj. reyni að sigla fram hjá þeim skerjum. Ég held, að komast mætti af með að hafa héraðslæknir, þar sem ekki ætti að þurfa daglega heimsókn á þetta hæli. Ég mæli því með, að brtt. mín nái fram að ganga, þar sem ég hygg, að hún verði til mikilla bóta.